Landið þar sem gott er að vera til

 Ég hef gjarnan kallað hana fjallkonu og geri það enn, gjarnan með meiri þyngd í orðunum nú en áður. Frá og með í dag umvefur hríseysk mold fjallkonuna mína, það er að segja þann hluta hennar sem af moldu er kominn. En lífið heldur áfram var mér kennt sem barni. Ég hef líka lesið um það í bókum og líf mitt í rúm sjötíu ár hefur styrkt þá trú mína. Meistarinn frá Nasaret boðaði það. Öskunni sem var grafsett í kirkjugarðinum í Hrísey í dag er ekki hægt að eyða og í framtíðinni verður hún hluti af mold jarðarinnar. Hún er síðasti hluti þess líkama sem var bústaður hinnar lifandi fjallkonu. Enginn fær mig til að trúa því að það sé frekar hægt að gera það líf að engu sem í líkamanum bjó en líkamann sjálfan.
 
Og þó að líf fjallkonunnar minnar haldi áfram á óþekktum slóðum, þá er sorgin eftir hana þung. Vissar stundir draga sorgina fram meira en aðrar stundir, eins og til dæmis sú athöfn sem var hér í Hrísey í dag þegar askan eftir hana Valdísi var grafsett. Það var lokaþátturinn á síðasta ferðalaginu sem hófst í lítilli kirkju í Örebro þann 26. apríl með viðkomu í Dómkirkjunni í Reykjavík. Betur var ekki hægt að gera af virðingu fyrir þessari konu og í þakklætisskini fyrir rúmlega fimmtíu og tveggja ára samveru.
 
Ég smitaðist hér um daginn af innihaldi eins af söngvum Johnny Cash þar sem hann söng um hið óþekkta sem að lokum tekur við lífinu sem ekki er hægt að eyða frekar en öskunni sem eftir stendur. Þessi söngur var hluti af sjónvarpsguðsþjónustu sem ég fylgdist með skömmu eftir ferðaráfangann í kirkjunni í Örebro. Eftir þessa sjónvarpsmessu stóð ég upp, undir áhrifum sorgarinnar og söngsins, og skrifaði:
 
Svo heldur ferðalag okkar allra áfram mót landi hinna endalausu laufskóga, móti hinum lygnu höfum eilífðarinnar, eða móti blómum skrýddum engjum handan grafarinnar þar sem lífið á sér engan endi. Þar verður enginn framar sorgmæddur, veikur, gamall eða þreyttur. Þar verður gott að vera til.
 
Í þúsundir ára hafa menn og konur glímt við að klæða þessa hugsun í orð af sterkri löngun til að finna sínum nánustu stað í landinu þar sem gott er að vera til. Við málum myndir af þessu með orðum sóttum djúpt inn í hugarheiminn sem er hluti af lífinu sem aldrei verður hægt að gera að engu. Svo hefur alltaf verið gert og verður alltaf gert meðan hið jarðneska líf þrífst undir sólinni. Þegar hugsunin grípur mig um að Valdís fékk ekki tækifæri á að upplifa svo margt sem hið jarðneska líf býður upp á, þá grípur sorgin mig. Þá gleymi ég því að hún er komin til landsins þar sem gott er að vera til og hefur eflaust nú þegar fengið að upplifa mikið betri og fegurri ríkidóma en þá sem hið jarðneska líf gat boðið henni upp á.
 
Valdís mín. Þakka þér fyrir öll árin. Mér virðist ætlað að vera hér enn um sinn og lífið með þér er mér veganesti inn í framtíðina þar sem mér er ætlað að þroskast og vera til gagns fyrir samferðafólk mitt. Ábyrgð mín er stór og ég á mér þá einlægu ósk að standa undir henni.
 
 
Guð
gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.


Kommentarer
Þórlaug

Þetta er fallega skrifað Guðjón.
Lífið heldur áfram og við fáum víst litlu ráðið hvað lengi við verðum hér á jörðinni en reynum að gera það besta úr því sem það færir okkur í sorg og gleði.

Kærar kveðjur til ykkar allra.

Svar: Þakka þér fyrir Þórlaug.
Gudjon

2013-06-08 @ 21:37:26
Kristin Adalsteinsdottir

Fra Frakklandi.

Kaeri Gudjon - sendum ther innilegqr kvedjur og samudaroskir fra okkur Hallgrimi. Thakka ther thessi einstaklega fallegu ord og hugsun.

Svar: Þakka þér fyrir Kristín.
Gudjon

2013-06-08 @ 22:52:37
Auja

Elsku Guðjón erum hér á Sólvöllum kveiktum á kertum i kvöld fyrir Valdísi og vorum með góða gesti hér stórt faðmlag á alla fjölskylduna

Svar: þakka þér fyrir Auður.
Gudjon

2013-06-09 @ 00:28:28
Áslaug Hildur Harðardóttir.

Hjá mér logaði á kerti í dag og frá huga mér steig þögul bæn og kveðja til fylgdar konu á leið til landsins bjarta.
Mínar dýpstu samúðarkveðjur til þín og fjölskyldu.

Svar: Þakka þér fyrir Áslaug.
Gudjon

2013-06-09 @ 05:17:21
Brynja

Elsku Guðjón þetta var falleg lesning sem og endrænær hér. Takk fyrir fallega gærdaginn í fallegu Hrísey um fallega konu.
Valssonfamiljen

Svar: Þakka þér fyrir Brynja mín.
Gudjon

2013-06-09 @ 11:09:04
Dísa gamli nágranni

Þökkum þér fyrir heimsóknina til okkar Ottós í dag Guðjón minn. Það var gott að tala saman um svo magt eins og ígamla daga.

Svar: Já, þakka þér sömuleiðis Dísa.
Gudjon

2013-06-10 @ 01:03:08


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0