Umvafin júnínóttinni

Sumu er varla hægt að segja frá eins og til dæmis því að vera að skipta yfir á sumardekk þann 22. júní. Trassaskapur! Eða hvað? Já, víst má telja það trassaskap, en sannleikurinn er sá að vetrardekkin eru hljóðlátari og svo er bílinn sparneytnari á vetrardekkjunum. Samt gat ég ekki hugsað mér að kaupa ný sumardekk sem væru í sama gæðaflokki og vetrardekkin því að sparnaðurinn yrði ekki svo mikill að það réttlætti að henda dekkjum sem duga eitt sumar til. Svo er best að lokum að ljóstra því upp að vetrardekkin eru ónegld. Að vera á ónegldum vetrardekkjum geri ég af umhverfisástæðum og ég finn mig öruggan á þeim á vetrarvegum. Eitt og annað geri ég af umhverfisástæðum en trúlega mun ég aldrei komast að því hver ávinningurinn hafi í raun verið fyrir umhverfið. Ég vona samt að það verði ávinningur þegar upp er staðið af því að ég vil barnabörnunum mínum vel í framtíðinni.
 
Svíþjóð er að ná áttum eftir stórhátðíðarhöldin og ýmsir eru komnir til sinna heimkynna þó að það sé bara laugardagur. Það var líka hreyfing á fólki hér á Sólvöllum í dag þar sem skógarálfarnir mínir tveir komu í heimsókn. Ég tók þá ákvörðun í gær að þeim yrði boðið upp á rúgbrauð og pönnukökur og komst þá að því að eggin runnu út fyrir 16 dögum þannig að það var sjálfgert að fara inn í Marieberg í morgun til að kaupa egg. Það var eiginlega stórskrýtið að aka þar á bílaplönunum, plönum sem taka fleiri hundruð og jafnvel þúsund bíla og vera nánast einn. Fjórir eða sex bílar voru við kaupfélagið og bara einn og einn bíll við aðrar stórverslanir, enda voru þær lokaðar. Ég hef átt mjög góða helgi hér heima hjá mér og að fá álfana mína í heimsókn var jú alveg frábært.
 
Meðan ég er að skrifa horfi ég öðru hvoru út í skóginn. Það er eins og ég geti aldrei talað nóg um hann. Nú er að bregða birtu þar inni og þá er hægt að fara að tala um seiðmögnun. Það er alger helgidómur að hafa þetta þögla, hávaxna líf þarna að húsabaki. Mörg tré eru ótrúlega há en samt er vart hægt að greina að þau bærist núna í kvöldkyrrðinni. Hitamælirinn í bílnum stendur í 17 stiga hita og það er alskýjað og þurrt. Þannig er veðráttunni háttað á þessu kvöldi og ég er mjög ánægður með það.
 
Í kvöld ætla ég að fara að minnsta kosti klukkutíma fyrr að sofa en venjulega. Ástæðan er -ég veit ekki hvort ég hef sagt frá því leyndarmáli- en ástæðan er að ég ætla að fara að vinna á mánudaginn. Þá þarf ég að hvíla mig vel svo að ég geti orðið fullgildur launþegi en ekki nein hálfsofandi hengilmæna. Ég dreg ekki dul á það að ég verð elsti launþeginn í Vornesi. Ég talaði um það um daginn að mér fyndist ég ekki vera eins gamall og ég er og þá ætti ég auðvitað að geta unnið ennþá. Ég talaði líka um að ég væri heilsuhraustur og útskýrði það eitthvað nánar.
 
Ef ég úrskýri þetta aftur og bæti aðeins við það sem ég sagði um daginn, þá get ég sagt sem svo að þegar ég var ungur maður, þá var ég svo viss um að menn og konur á þeim aldri sem ég uppfylli núna væru afar vísar manneskjur, og núna finnst mér ég ekki vera eins vís maður og ég taldi að ég yrði. Kannast nokkur við þetta? Hitt er svo annað mál að margir sjúklinganna í Vornesi segja mig vísan mann. En ég verð nú að vinna ötullega að því að verða ennþá vísari. Þannig er það bara og ég hef alveg heilsu til þess.
 
Hvað heilsuna áhrærir talaði ég um að ég talaði ekki svo mikið um sjúkrahúsvistir og læknisheimsóknir vegna þess að ég hafi ekki þurft svo mikið á því að halda. Ég vil gjarnan umorða þetta svolítið og segja að ég nýt þess ekki að segja frá sjúkrahúsvistum mínum, læknisheimsóknum og ekki heldur lyfjanotkun. Hafi ég þörf fyrir að daðra við þessa hluti hef ég á tilfinningunni að ég kalli yfir mig sjúkdóma. Kannski er þetta léleg heimspeki en þannig hugsa ég nú samt. Hins vegar tel ég alltaf rétt að segja frá heilsu sinni eins og hún er.
 
Svo nokkrar myndir
 
Þarna eru skógarálfarnir mínir og þeir sem fylgjast með blogginu þekkja frá vinstri Þóri og Auði, álfana sem komu í dag. Þórir hefur líka verið heimilislæknir margra sem lesa bloggið. Álfkonan til hægri, hún Eva, er ekki eins oft á ferðinni enda á hún heima lengra í burtu. En hún gladdi Valdísi oft með heimsóknum sínum og alveg sérstaklega með síðustu heimsóknunum. Valdís mat það líka mikils þegar Þórir og Auður komu nánast beint úr lestinni til að heimsækja hana á sjúkrahúsið, en þá voru þau einmitt að koma til Örebro daginn sem þau fluttu hingað.
 
 
Þessa pumpu færði ég úr potti í dag og í þetta beð. Ég hafði hana nærri horninu til að það yrði hægt að láta sjálfa pumpuna eða pumpurnar liggja út á svæðinu utan við þegar hún verður mjög stór. Bjartsýni er góður förunautur.
 
 
Hér er bláberjarunni sem hefur alla tíð staðið sig vel og Hannes kemur til með að geta fengið sér all mörg ber af honum og öðrum runna til þegar á líður. Svo erum við búin að gróðursetja margs konar aðra bláberjarunna og þeir skila engu. Nú er mál að kasta þeim og fá fleiri af þessari tegund.
 
 
Þessi tré og mörg önnur tré utan við gluggann minn eru nú umvafin af júnínóttinni og þar með segi ég góða nótt.


Kommentarer
Þórlaug

Góða nótt Guðjón

2013-06-22 @ 23:53:28
Auja

Takk fyrir okkur Guðjón minn þvílíkar veitingar, gleymdi að fá uppskriftina af rúgbrauðina og frábært að þú skulir vera að vinna í Vornesi!

Svar: Uppskriftina skaltu fá og heimsóknin var glaðvær og hressandi.
Gudjon

2013-06-23 @ 00:39:46
Guðjón

Já Auður, það er mikið rétt að það verður mjög gott fyrir mig að vinna um skeið núna. Eftir að ég las þessi orð þín í morgun hugsaði ég um þau og komst að ennþá sterkari niðurstöðu að það væri rétt af mér að gera svo. Þakka ykkur fyrir að vera vinir mínir.

2013-06-23 @ 10:06:37
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0