Ríkidómar lífsins

Síðdegis í fyrradag, föstudaginn 7. júní, vorum við mætt á Árskógsströnd ég og dæturnar ásamt fjölskyldum. Ég horfði yfir til Hríseyjar, þessarar eyjar sem hafði fóstrað mig í 30 ár. Þarna kúrði hún hljóðlát út á miðjum fIrðinum með heilt haf af minningum eftir að hafa lifað þar stóran hluta ævi minnar. Ferjan lagði að bryggjunni á Árskógsströnd þar sem fólk mætti í rólegheitum, kunnugir og ókunnugir. Gamlir grannar réttu fram hendur sínar, bæði til að heilsa og til að hjálpa okkur með farangur um borð. Vinarþel lagði sig yfir tilveruna þegar þarna á bryggjunni og í ferjunni og ég fann mig velkominn.
 
Að stíga á land í Hrísey var ekkert óvenjulegt fyrir mig. Ég sá fyrir mér ótal mörg tilfelli þar sem ég hafði komið með hraði niður á bryggjuna á síðasta augnabliki til að ná ferjunni til að fara í land. En ennþá betur sá ég fólkið sem var statt þarna ýmissa erinda, sumir að fara sinna eigin ferða og sumir til að greiða götu okkar sem vorum að koma í heimsókn til eyjarinnar. Það var enginn þjótandi um þarna á síðustu stundu. Það ríkti samhljómur í öllum athöfnum þó að bílarnir væru fleiri en forðum. Fólk dreifðist í ýmsar áttir, sumir fótgangandi og aðrir á bílum, líklega einhver á hjóli. Farangur okkar var tíndur inn í tvo bíla af okkur sem vorum að koma þarna saman og af hjálpsömum höndum sem voru um leið að segja að við værum velkomin.
 
Alls staðar virtumst við hjartanlega velkomin og þegar við vorum komin burt frá mótorhljóði ferjunnar vorum við komin í hljóðlátan faðm eyjarinnar. Ég fór á stutta göngu þegar þarna um kvöldið. Ég kom fyrst af öllu við í kirkjugarðinum til að líta á gröfina sem hafði verið tekin fyrir ösku konunnar minnar. Snyrtimennskan sem kirkjugarðsvörðurinn hafði sýnt við verkið var svo augljós og það var svo áþreifanlegt að það hafði verið unnið af virðingu, tillitssemi og hjálpsemi gagnvart okkur.
 
Svo hélt stutt gönguferð áfram og nánast í hverju skrefi var ég á einn og annan hátt minntur á þrjátíu ára feril minn í Hrísey, athafnir mínar, og það lífshlaup flæddi nú um huga minn. Vinalegt fólk varð á vegi mínum. Lífið varð eins og létt ölvun af kvöldkyrrð og angan af birki og víðilaufum sem loks voru að lifna eftir snjóugan veturinn. Lífið hafði borið sigur úr bítum í baráttu sinni við vetur konung. Nokkru síðar lagði ég mig á koddann við opinn glugga með bjarta júnínóttina allt um kring. Kyrrð Hríseyjar var alger.
 
Nýr dagur gekk í garð og athafnir dagsins gengu eftir, ein af annarri, eftir vel skipulagt starf margra sem höfðu lagt hönd á plóginn. Allt var gert og hafði verið gert af hjálpsemi, góðvild og virðingu. Margir mættu til stuttrar athafnar í kirkjugarðinum. Heimafólk, hinir svonefndu farfuglar eyjarinnar, burtflutt fólk, aðkomufólk. Hlýjan og vináttan fylgdi hverju handabandi og augnatilliti. Presturinn vann sitt verk fallega. Hver verður ekki hrærður á slíkri stundu?
 
Það sama fylgdi inn til erfidrykkjunnar í Sæborg eftir athöfnina í kirkjugarðinum. Þar á bordum voru tilbúnar veitingar sem fjórar konur, miklir vinir eins og allir aðrir, höfðu útbúið. Hún sem bakaði pönnukökurnar á tíræðis aldri. Kirkjukórinn söng og svo margir hjálpuðu á einn og annan hátt. Stundin í Sæborg var frábær.
 
Í gærkvöldi vildi ég ekki fara að sofa. Ég var þá búinn að líta í kirkjugarðinn aftur og sama hlýja höndin hafði gengið frá öllu svo einstaklega snyrtilega. Ákveðnu ferli var þar með lokið. Á vissum stundum er lífið bara svo óendanlega verðmætt. Samt sofnaði ég í stólnum. Svo hrökk ég upp og vildi vaka alla nóttina. Svo sofnaði ég á ný. Þá var mér ráðlagt að fara að leggja mig. En allt í einu vaknaði ég og virtist hvíldur. Liðinn dagur blasti við mér og ég fann að mér þótti jafn vænt um ykkur öll og þann dag sem ég yfirgaf eyjuna fyrir 20 árum, heimafólk, farfuglar og gestir.
 
Nú er ég að vísu ekki að segja alveg satt. Ég fann svo vel að mér þótti vænna um ykkur en nokkru sinni fyrr. Ég þakka ykkur öll sem hjálpuðuð og ég þakka ykkur öll hin bara fyrir að ég fékk að vera einn af ykkur, í gær og öll hin árin líka. Það er stórkostlegt að fá að endurupplifa stóran hluta af æviskeiði sínu á einni dagstund og finna um leið kærleika til svo margra.


Kommentarer
Jenný Ragnarsdóttir

Kæri Guðjón,ég vil enn og aftur þakka fyrir stundina í gær.Hún var mér svo mikils virði,og yndisleg í alla staði. Minningarnar streymdu og djúpt þakklæti og kærleikur til ykkar beggja.Blessuð sé minning góðrar konu sem gaf svo mikið af sér.

Svar: Og þakka þér fyrir að vera með.
Gudjon

2013-06-09 @ 13:53:58
Björkin.

Þökkum fyrir innilega og góða samveru í gær.Líði ykkur öllum sem best.

Svar: Takk sömuleiðis.
Gudjon

2013-06-09 @ 15:02:02


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0