Ungur eða gamall

Í gær byrjaði ég að líta á umsókn um íslenskan ellilífeyri. Ég held að þetta séu ein sjö blöð sem ég fékk send heim frá sænsku tryggingastofnunni, en þar í gegn verður umsóknin að fara. Ég get ekki sagt að ég hafi verið upprýmdur af fögnuði þegar ég byrjaði að svara öllum þeim spurningum sem þar eru settar fyrir mig. Sumar spurninganna skil ég ekki og sumum get ég ekki svarað nema fyrst leita upplýsinga. Til að fá upplýsingar við einni spurninganna hringdi ég til Björgvins Pálssonar í Hrísey. Það var fróðlegt að tala við Björgvin. Hann er tólf árum eldri en ég og vinnur fullan vinnudag. Ég sagði honum að það hefði rekið á eftir mér að hætta fullri vinnu í Vornesi hversu langt er að keyra þangað. En hvað haldið þið að kallinn hafi þá sagt mér? Jú, hann tekur ferju frá Hrísey klukkan sjö á morgnana og keyrir svo frá Árskógssandi inn að Hrafnagili í Eyjafirði og heim á einhvern bæ ofan við Hrafnagil. Þar vinnur hann svo við smíðar fram á kvöld og hvort hann vinnur fram til klukkan sjö eða kemur heim klukkan sjö, það er ég ekki viss um.  En hvort heldur sem er, þá er hans vinnudagur lengri en minn þegar ég vinn dagvinnu í Vornesi og mig grunar að ferðirnar til og frá vinnu séu álíka langar og mínar. Þar með er Björgvin algerlega búinn að máta mig og ég bara tek ofan fyrir honum.

Samkvæmt útreikningum mínum er dagurinn í dag 23 mínútum lengri en vetrarsólstöðudagurinn. Það er kannski þess vegna sem ég er betri í mjöðminni en ég hef verið afar lengi, en sá bati var reyndar farinn að gera vart við sig fyrir nokkrum vikum. Ég hugsaði sem svo í morgun að dagurinn yrði góður prófsteinn á þennan bata minn. Ég var nefnilega að mála við þröngar aðstæður. Ég þurfti að skríða, liggja á bakinu og á hliðunum til að komast að og sjá hvað ég var að gera því að ég var að mála pláss sem var lágt til lofts. Og viti menn; ég fann ekki fyrir þessu. Þegar ég fór í sturtu áðan var svo auðvelt að standa á öðrum fæti og þvo á milli tánna á hinum. Þegar ég þurrkaði mér var sama að segja. Og þegar ég fór svo í sokkana gekk það eins og í sögu. Ég fer fljótlega að fara á ball með Valdísi.

En aftur að þessu með lengri daga. Það er búið að vera hörku frost en nú er mun hlýrra aftur. Það fer kannski að styttast í að við förum til Vingåker til að sækja beyki. Við þurfum að fá fjögur beykitré til viðbótar og hafa þau í stærra laginu. Þess eldri við verðum verðum við að hafa trén sem við sækjum stærri svo að við getum átt von á að sjá þau verða að trjám. Ég gekk svolítið um skóginn í dag og velti fyrir mér ýmsu sem þarf að gera þar. Ég sá fyrir mér þegar ég fann um fjögurra metra háan hlyn fyrir nokkrum árum sem var innilokaður milli lítils grenitrés og stórr aspa. Ég vildi frelsa hlyninn og því felldi ég grenitréð. Aspirnar var ég ekki tilbúinn að fella en þurfti að taka af þeim greinar sem sköðuðu hlyninn. Það gerði ég úr stiga en gallinn er sá að stigar vilja snúast á kringlóttum trjánum. Ég var einn og fór varlega en þetta gekk mjög vel og ég fór svolítið hærra til að taka fleiri greinar. Það gekk líka velog ég hækkaði stigann og fór ennþá hærra og var alveg hissa á hvað stiginn væri stöðugur. Ég var kominn í næst hæstu tröppu og teygði mig allt hvað af tók og hélt utanum tréð með annarri hendi og var nú alveg ákveðinn í að ég hætti þegar þessari grein væri náð. Þá snerist stiginn. Ég hent frá mér söginni og nú faðmaði ég tré bæði með höndum og fótum og fann fyrir hjartslætti. Svo fann ég að ég gat fikrað mig neðar með nokkuð góðu móti en svo fannst mér mál að stökkva. Ég sá eftir á að ég hefði átt að fikra mig neðar áður en ég stökk en ekki meira um það. En ég sá líka að ég gat gert þetta, að klifra niður tré. Mér datt þetta einmitt í hug í dag en ekki tók ég þó stigann til að fara upp í tré og prufa að klifra niður. Þá mundi nú Valdís spyrja hvort það væri ekki allt í lagi með mig.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0