Þarfir hlutir

Það var ekki létt ákvörðun að yfirgefa smíðarnar á Sólvöllum og fara að hlú að viðarbirgðunum þar. En svo fór það þó í fyrradag að ég tók keðjusögina, bætti á keðjuolíu og bensíni og liðkaði til keðjuna sem hafði setta sig fasta í hálf þornaðri olíu og harpis. Síðan dró ég fjórum sinnum í spottann og sögin byrjaði að mala. Á lóðinni lágu, snyrtilega upp raðaðar, sneiðar úr mjög stórri björk sem við felldum í fyrra. Þessar sneiðar kölluðum við okkar á milli kótiletturnar. Kótiletturnar voru upp í 70 sm í þvermál og það var mér algerlega ofviða að lyfta þeim upp á viðarkljúfinn. Því var þeim raðað svona snyrtilega upp og svo átti sólin að þurrka þær, sem hún og gerði, þangað til ég færi að ráða við þær. En áður en ég reyndi að fara að ráða við þær gerði fyrstu síðsumarrigninguna og það var svo sem allt í lagi, en málið var bara að það hætti ekkert að rigna nánast í fleiri mánuði og kótiletturnar urðu aftur jafn þungar og þær voru af nýfallinni björkinni. Svo fór að lokum að við skömmuðumst okkur fyrir þann trassaskap sem þessi óunni viður á lóðinni vitnaði um. En sem sagt, miðvikudaginn 7. janúar hófst vinnan við að ráða bót á þessu. Í gær vorum við bæði á Sólvöllum og það snerist allt um við. Við umstöfluðum viði úr skýlum úti inn í það sem við köllum viðargeymsluna og síðan verður viðnum út kótilettunum raðað inn í þessi skýli. Þar mun hann ekki mygla þar sem það viðrar vel um hann úti undir þaki. Hver kótilettan af annarri var söguð niður í tvo til þrjá hluta og nú er nokkurra stiga hit og spáð í einhverja daga áfram og það eru hægir suðvestan vindar . Það er gott veður fyrir við.

Á þessari mynd sést keðjusögin renna mjúklega gegnum eina af minni kótilettunum. Með því að skerpa keðjuna nokkrum sinnum vannst verkið vel. Grófur börkurinn var nefnilega ríkur af einhverjum efnum sem jafnvel neistaði af og bitið entist ekki svo ýkja lengi.


Valdís vill vera nærverandi þegar ég vinn með keðjusögina sem hún og var í gær. Hins vegar sagði ég ekki frá því hvað ég gerði í fyrradag fyrr en ég kom heim og þá var of seint að fást um það. Það var þá sem ég sagaði flesta af stærstu kótilettunum.

En hún stóð ekki bara og horfði á. Hún vann hörðum höndum. Nú eru öll möguleg pláss notuð fyrir við og á myndinni er hún að tína við í einn IKEA poka af nokkrum sem síðan fá að dúsa í verkfærageymslunni þangað til við tökum viðinn inn til kyndingar. Svona poka notum við líka þegar við flytjum við til Rósu og Péturs. Þeir eru góðir til margs IKEA pokarnir.

Það var meiningin að fara í sænsku tryggingastofnunina í dag vegna umsóknar um íslenska ellilífeyrinn minn og einnig á sýsluskrifstofuna vegna usmóknar um sænskt ökuskýrteini. En nokkuð tímanlega í morgun ákváðum við tveir vinnufélagar, ég og Ove, að heimsækja þriðja vinnufélagann, Kjell, sem er búinn að vera veikur í tvö ár. Í apríl í hitteðfyrra var hann skorinn upp við magakrabbameini en eftir þá aðgerð komu upp margs konar miklir erfiðleikar. Í byrjun desember var hann svo skorinn upp af öðrum ástæðum tengdum maganum en þá komu líka upp fylgikvillar. Ég hef bloggað um þennan mannáður. Svo komum við Ove inn á stofuna til hans á gjörgæslunni í Eskilstuna um tvö leytið í dag. Já, og hvað segir maður svo? Til dæmis að mér ber að vera fullur af þakklæti fyrir það sem ég hef. Eftir tæpan klukkutíma ákváðum við Ove að fara á kaffiteríu sjúkrahússins til að gefa Kjell kost á að hvíla sig aðeins, og eins til að við sjálfir endurnærðumst aðeins fyrir frekari selskap með honum. Á leiðinni á kaffiteríuna mættum við kunningja okkar á sextugs aldri. Hann sagðist ekki vera þar að gamni sínu. Hann hafði verið skorinn upp við sama sjúkdómi og Kjell, magakrabbameini, fyrir nokkrum vikum og var nú í áframhaldandi meðferð. Það jaðraði við að áhuginn fyrir kaffiteríunni drægist saman í hnút í maga okkar. En eftir svolitlar samræður við þennan mann réttum við úr kryppunni og drifum okkur í kaffi.

Það voru þarfir hlutir að heimsækja vin okkar Kjell og þarfir hlutir að gefa hinum manninum líka svolítinn tíma. Að það væru þarfir hlutir að fara að koma viðnum í skjól varð eins og aukaatriði.

Á næstunni kem ég til með að vinna all mikið í Vornesi en á þriðjudag verðum við þó aftur á Sólvöllum ef allt gengur eftir og þá verður viðurinn aftur mikilvægur. Á miðvikudaginn verð ég svo aftur í vinnu fram að hádegi og geri þá ráð fyrir að heimsækja Kjell aftur með öðrum vinnufélaga eftir hádegi.

Í kvöld, í þann mund sem Óli lokbrá tekur höndum um mig, ætla ég að þakka fyrir það sem ég hef.


Kommentarer
Anonym

Það eru engar smá kótilettur sem þið þurfið að sinna þarna!



Kveðja,



R

2009-01-11 @ 10:32:34
Guðjón

Nei, þær eru stórar og engin kjöthamar vinnur á þeim. En mörgum hitaeiningum koma þær til með að skila til þeirra sem kynda með þeim og all mörgum hitaeiningum koma þær til með að láta okkur brenna við að gera þær eldiviðarhæfar.

2009-01-11 @ 13:39:55
URL: http://gudjon.blogg.se/
Guðjón

Nei, þær eru stórar og engin kjöthamar vinnur á þeim. En mörgum hitaeiningum koma þær til með að skila til þeirra sem kynda með þeim og all mörgum hitaeiningum koma þær til með að láta okkur brenna við að gera þær eldiviðarhæfar. Það er gaman að þessu.

2009-01-11 @ 13:46:10
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0