Bílaleikur

Í gær fór ég til Ford verkstæðisins til að sækja bílinn í viðgerð. Ég bloggaði um það fyrir nokkru hvernig ég hefði fengið skrámur á bílinn á tveimur stöðum og komst ekki hjá því að láta laga það. Nýskur var ég vegna þessa en vissi líka að ef ég safna áverkum á bílinn sem ekki eru lagfærðir og svo fer að ryðga út frá þessum áverkum, þá verður hann ekki mikils virði í endursölu að einhverjum tíma liðnum. Ég fékk lánsbíl frá verkstæðinu á meðan og tryggingarnar áttu að borga 75 % af leigunni á þeim bíl. Eins og ég sagði fyrir nokkru í bloggi komu þessir áverkar á bílin í tveimur tilfellum og ef tryggingarnar áttu að borga hvort tveggja var um tvær sjálfsábyrgðir að ræða. Ég ákvað því að borga minni aðgerðina sjálfur en tryggingarnar borguðu þá kostnaðarsamari.

Klukkan um ellefu í gærmorgun var hringt og tilkynnt að bíllinn okkar væri tilbúinn og ég fór með hraði á lánsbílnum til að sækja okkar ágæta bíl. Nokkur orð um þennan lánsbíl. Hann er Ford Fókus eins og okkar en hann er ekki c-max eins og okkar. C-max er mikið meiri bíll þar sem hann er hærri og afar góður fyrir ellilífeyrisþega að setjast inn í. Takið eftir orðalaginu "setjast inn í", ekki niður í. Þegar ég hafði skilað okkar c-max á verkstæðið fyrr i vikunni og fór svo heim á lánsbílnum, þá settist ég niður í bílinn. Oj, hvað púkó. Svo fannst mér að ég sæti á malbikinu, teygði hendurnar upp á stýrið og álkuna upp á við til að sjá fram á veginn. Þegar heim var komið opnaði ég hurðina, tók taki með báðum höndum ofan á hurðarkarminn og dró mig upp úr lágkúrunni. Þegar ég hafði rétt úr mér strauk ég með vinstri hendi yfir rassinn til að athuga hvort malbikið hefði skrapað gat á buxurnar mínar. Síðan athugaði ég hvort hægt væri að hækka eitthvað sætið í þessum blessaða Fókur ekki c-max og það gekk og gerði hlutina ögn skárri.

En nú var ég kominn á verkstæðið og ég dró upp bankakortið sem við notum fyrir bílinn og gerði mig líklegan til að borga. Kom þar að verkstæðisformaðurinn með blað í hendi og lagði fyrir framan gjaldkerann og hvíslaði að henni: taktu ekkert fyrir lánsbílinn. Þá gladdist nýskupúkinn í mér og ég þóttist ekkert hafa heyrt. Þarna sparaði hann mér helminginn af viðgerðinni sem ég borgaði sjálfur. Góður strákur. Hann heitir Mikael bara svo að þið vitið það. Þegar ég svo settist inn í okkar góða c-max og ók af stað tók ég eftir því að hann var ennþá betri bíll en ég hafði gert mér grein fyrir nokkru sinni áður. Ánægjan vegna þessa góða bíls gerði það að verkum að sjálfsábyrgðin varð hugarfarslega lægri og verður svo þangað til ég millifæri greiðslu inn á bílabankakortið eftir um það bil mánuð. Bílamynd neðar.


Ford Fókusinn til vinstri og fyrri bíll, Renó Klío til hægri. Valdís stendur hjá nýja bílnum að skiptunum loknum vorið 2007 og bílasalinn, Niklas, hjá þeim gamla. Nýi bíllinn er stærri en sá gamli og Valdís er stærri en bílasalinn og mér fannst ég vera rosa stór bakvið myndavélina eftir þessi bílakaup.


Kommentarer
Rósa

Flott að nýskupúkinn í þér varð glaður. Hvað ætlar þú að gera við peninginn sem þú græddir/sparaðir? Kaupa nagla? Nýjan hamar?



Kveðja,



R

2009-02-01 @ 09:55:55
Guðjón

Skrúfur í þilplötur!!

2009-02-01 @ 10:58:14
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0