Í ársbyrjun

Í dag, laugardag, vorum við seint á fótum en þó ekki seinna en svo að við náðum að horfa á viðtal við forseta Íslands á TV4. Einhvern tíma fyrir klukkan tíu byrjaði þetta viðtal en við vorum við því búin að það byrjaði fljótlega eftir klukkan níu. Hvað á ég svo að segja um þetta viðtal? Nú, það var allt í lagi með það en akkúrat á þessari stundu finn ég ekki fyrir neinni afgerandi stórhrifningu. Forsetinn kom vel á framfæri þeim ríkidómum Íslands sem liggja í vel menntuðu og þaulreyndu fólki hvað varðar virkjun vatnsafls og jarðhita og nefndi það sem útflutningsvöru.

Ég hef verið að vinna þrjá síðustu daga og ekki er það nein saga til næsta bæjar. Ég verð þó að viðurkenna að ég var dauðþreyttur eftir þessa þrjá daga og það skýrir seina fótaferð í morgun. Ég þarf að fara af stað fimm mínútur fyrir sjö á morgnana og keyra í rétt tæpan klukkutíma. Svo er vinna í níu tíma með hálftíma matarhléi og þar á eftir er klukkutíma akstur heim og þá er klukkan orðin sex. Svo er að lifa heima í nokkra klukkutíma og svo að fara full seint að sofa og svo að fara á fætur klukkan sex. Á sjöunda og áttunda áratugnum var alveg sjálfsagt að vinna til klukkan sjö á kvöldin og ef ekki var farið að vinna aftur eftir kvöldmat var heljar langt kvöld heima. Núna er þetta allt öðru vísi. Kvöldin virðast svo óskaplega stutt ef á að vinna daginn eftir. Á morgun, sunnudag, fer ég í vinnu um hádegi og kem heim nokkru fyrir hádegi á mánudag. Það fer betur með mig og þá er minni hætta á að ég verði syfjaður undir stýri.

Við skruppum stutta ferð á Sólvelli í dag til að sjá að allt væri í lagi þar. Á leiðinni þangað komum við við í bæjarhluta sem heitir Marieberg og þar eru bara verslanir. Þar voru komnar nokkrar verslanir áður en við komum til Örebro 1996. Síðan hafa bara bætst þar við verslanir allan tímann og þó með mestu hraði allra síðustu árin. Núna er þarna orðið þvílíkt verslunarsvæði að Mammon er alveg yfir sig hamingjusamur. Líklega er verslun Bauhaus stærst þarna, eitthvað yfir tveir hektarar að stærð. Það var mikið af útsölum þar sem kaupmenn ætla að fá sem mesta peninga af fólki og þar sem fólk ætlar sko að kaupa ódýra vöru af auðvaldinu. Það eru því tveir sterkir straumar sem mætast í Marieberg. Ecco skór voru á útsölu og skór sem ég handlék kostuðu 1150 sænskar krónur og samkvæmt gengi dagsins gerði það 17 940 íslenskar. Sagt var að skórnir hefðu áður verið á 1355 kr sænskar en þann sannleika kaupi ég mátulega dýru verði. Ég keypti enga skó og líður ágætlega með það. Ég veit að ég er gamaldags og talsvert leiðinlegur líka -alveg sérstaklega í verslunarferðum.

Að verða syfjaður undir stýri sagði ég áðan. Þegar ég var búinn að vinna mörg ár í Vornesi sagði ég einhvern tíma á morgunfundi starfsfólks "där jag satt under ratten". Þá sagði æðsti yfirmaður minn, hún Birgitta, að svona segði maður ekki í Svíþjóð. Það þætti hlægilegt að segja að sitja undir stýri og fólk sæi þá fyrir sér að maður sæti í einum hnút á gólfinu undir stýrinu. Hér segjum við að sitja bakvið stýrið sagði Birgitta. En sannleikurinn var sá að þegar hún sagði þetta fannst mér það líka stórhlægilegt að segja bakvið stýrið. Þá sá ég fyrir mér mann sem sæti í aftursætinu og teygði sig fram á við til að ná taki á stýrinu. Mér fannst það líka stór hlægilegt eitt sinn á bryggjunni á Árskógssandi þegar ég hafði verið að bera vörur úr aftursætinu í gamla, græna Volvónum um borð í ferjuna. Afturhurðin bílstjóramegin stóð því opin og þegar ég kom úr síðustu ferðinni niður í ferjuna og ætlaði að taka bílinn og keyra upp í bílageymslu. Ég slengdi ég mér inn um opna hurðina, settist í aftursætið og ætlaði að setja aðra hendina á stýrið og hina á startlykilinn. En það tókst ekki. Bílstjórasætið var fyrir mér. Þá sat ég í raun og veru bakvið stýrið. Þegar ég sagði svo ferjumönnum frá þessu á leiðinni yfir sundið hlógu þeir mikið og Bjössi Ögmunds harmaði að hafa ekki séð til mín þegar ég gerði þetta. Það tók mig mörg ár í Svíþjóð að komast að því að í þessu landi sitja menn bakvið stýrið. Birgitta var oft búin að heyra mig segja þetta þegar hún leiðrétti mig. Þrátt fyrir mínar sænsku málvillur hefur fólk yfirleitt skilið mig gegnum árin og ekki svo oft staðið í því að leiðrétta mig.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0