Að hafa vasaklútinn með

Í gær var ég að vinna í Vornesi og eftir vinnu fórum við Ingimar til Eskilstuna að heimsækja hann Kjell. Ég hef minnst á Ingemar áður en hann er búinn að vera vinnufélagi minn síðan í ársbyrjun 1996. Hann er ári yngri en ég og varð ellilífeyrisþegi ári seinna en ég. Svo vinnum við báðir heil mikið og teljum okkur mikið betri ráðgjafa en við vorum þegar við hættum. Það var gott fyrir okkur að fá hlé frá starfinu og koma svo til baka í hlutastarfi af endurnýjuðum krafti og með nokkuð aðra sýn á þessa vinnu. Okkur gengur báðum betur núna og við höfum meira gaman af því að hitta fólk sem er að gera róttæka breytingu á lífi sínu. Við gerum minni kröfu til okkar sjálfra og það er eitt af því sem gerir starfið léttara og veldur því líka að við erum þægilegri og meira traustvekjandi fyrir sjúklingana. Svo ef eitthvað karp er á vinnustaðnum förum við bara eitthvað annað og tölum við sjúklingana, um veðrið eða eitthvað ennþá skemmtilegra.

En nú sný ég mér aftur að honum Kjell. Á föstudaginn var var hann ekki upp á marga fiska. Mér fannst næstum að það væri best að láta nú Kjell lönd og leið og láta skaparanum einum í té að annast endalokin. Samt gerði ég það nú ekki og þess vegna fórum við Ingemar saman til að vera stoð og stytta ef mögulegt væri. Þegar inn á gjörgæsluna var komið þvoðum við okkur um hendurnar úr einhverju spírituslyktandi efni, svo sterkt lyktandi að ég sagði við Ingemar að ég vonaði að við yrðum ekki fullir af þessum þvotti. Svo hengdum við upp jakkana okkar og sáum svo álengdar hvar Kjell sat uppi í sínu mjög svo vélvædda rúmi. Og viti menn, hann bara tyfti hendinni og vinkaði til okkar, ný rakaður og skýr til augnanna var hann. Síðan lék allt í lyndi og við gerðum að gamni okkar, vorum svolitlir rugludallar, gerðum grín að sjálfum okkur og við Ingemar vorum alveg stein hissa á þessum Kjell, hvað hann gat verið hress og skýr í kollinum. En líka, eins og svo oft á síðustu tveimur árum, vakti þessi heimsókn til Kjells þakklæti fyrir það sem við sjálfir höfum.

Svo í dag gleymdi ég öllu þakklæti. Ég hringdi í tryggingafélagið sem bíllinn er tryggður hjá og tilkynnti um skaða sem ég hef bloggað um áður. Skaðinn er hægra meginn á afturstuðara og undir hurðum hægra meginn. Það versta er að þessir skaðar áttu sér stað við tvö tilfelli og það vissi verkstæðisformaðurinn þar sem gert verður við bílinn. Þegar ég var að lýsa skaðanum fyrir ósköp kurteisri konu hjá tryggingarfélaginu í morgun flaug mér í hug að segja að þetta væri einn og sami skaðinn og þá hefði sama sjálfsábyrgð gilt fyrir hvort tveggja. En ég bara fékk mig ekki til þess. Tólf spora prógrammið ráðleggur hámarks heiðarleika. Veijó verkstæðisformaður var líka búinn að segja að skaðinn undir hurðunum yrði mjög ódýr í viðgerð, eða um 700 krónur. Það er langt undir sjálfsábyrgð. Svo þökkuðum við hvort öðru fyrir samtalið, ég og tryggingakonan, og ég var svo ánægður með hversu þægileg hún var. Svo kom kling hljóðið frá tölvunni og staðfestingin frá tryggingafélaginu var komin. Ég las staðfestinguna og allt þakklæti var þegar á bak og burt og tryggingakonan hafði þegar öll kurl komu til grafar ekkert verið þægileg í viðmóti. Sjálfsábyrgðin sem í desember hafði verið 3500 kr var nú komin upp í 4350 kr. Bölvaður asni ég hafði verið að segja ekki að þetta væri einn og sami skaðinn.

Svo lagði ég af stað til Sólvalla og kom við á verkstæðinu í Marieberg á leiðinni og ætlaði að tala við Veijó. En Veijó var ekki við svo að ég pantaði tíma hjá staðgengli hans sem líka vissi að þetta voru tveir skaðar. Allt gekk þægilega fyrir sig og tíminn var ákveðinn 27. janúar. Svo spjölluðum við aðeins, ég þakkaði fyrir hjálpina og gekk svo rakleiðis yfir í bílasöluna sem er í sama húsi. Þar sá ég Nikulás (Nicklas) sem seldi okkur bílinn og við spjölluðum um stund. Talið barst að fjölskyldunni hans og hann sagði meðal annars að alltaf þegar hann kæmi heim væri einhver heima og það mat hann mikils. Aðspurður sagði hann að börnin hans væru ellefu, átta og þriggja ára og það væri svo gaman þegar tvö þau elstu væru að æfa hljóðfæraleik. Hún sem er átta ára er svo dugleg á fiðlu sagði hann. Reyndar segja þeir í skólanum að eftir þriggja mánaða æfingu sé hún svipuð og flestir eru eftir tvö ár sagði hann einnig. Ég sá að hann var svo sannarlega hamingjusamur yfir þessu og það mátti hann vera. Því spurði ég hann hvernig það mundi verða fyrir hann að vera í Glóben eftir nokkur ár, óþolinmóður horfa inn á stóra sviðið og sjá svo dóttur sína ganga þar fram með fiðluna sína ásamt skólahljómsveitinni sinni. Það var eins og Nikulási yrði um þessa spurningu og svo sagði hann að þá yrði hann að hafa með sér vasaklút og hann þurrkaði sér undir öðru auganu. Svo hélt ég áfram til Sólvalla og var búinn að gleyma þessu með sjálfsábyrgðina.

Þegar ég kom heim undir kvöldið angaði matarlyktin út úr dyrum. Haldið þið ekki að Valdís hafi verið búin að finna hálfar gular baunir í Alíbaba búðinni og hún hafði soðið saltkjöt og baunir. Hún er líka búin að taka niður allt jólaskraut og pakka niður í mikilli röð og reglu og gera klárt að ganga að því fyrir næstu jól. Valdís er mikil jólaskrautsmanneskja og yfir hátíðarnar er íbúðin eins og listaverk. Núna er mun tómlegra en dagarnir eru líka orðnir lengri. Dagurinn í dag er 50 mínútum lengri en sá styttsti og á sunnudag verður klukkutímanum náð.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0