Breyttir tímar, af hesti og á fjórhjól

Ekki var það nú svona á Kálfafelli forðum tíð. Þar voru hins vegar hestar og ég var ekki hestamaður, gerði alla hesta staða og lata ef ég var einn á ferð á hesti. Ég vildi heldur ganga milli bæja, líkaði það vel. Þetta fjórhjól er á næsta bæ og Hannes Guðjón má koma þangað og æfa. Það er ekki hægt að segja að honum leiðist það en hins vegar er það ekkert daglegt brauð heldur. En hann er fljótur að ná tökum á þessu og afi getur ekki gert að því að dást að því hversu leikið barnið verður á örstuttum tíma.
 
 
Um daginn fórum við nokkrar bæjarleiðir vestur á bóginn að heimsækja vini Rósu og Péturs, til staðar sem heitir Hasselfors. Hannes Guðjón var fljótur að kynnast stúlkunum þar og gekk í það með þeim að vökva kartöflur. Innan skamms var litla hornið með kartöflunum orðið fljótandi í vatni og eigandinn beindi athafnaþörf barnanna að öðrum þörfum verkefnum og svo hélt líffullt starf þeirra áfram.
 
 
Í miklum hlýindunum undanfarið hefur vatnið verið eftirsótt. Það lítur út fyrir það á þessari mynd að það sé bæði notalegt og gaman að láta úðarann sprauta yfir sig vatni.
 
 
Andlitsdrættir drengsins gáfu til kynna þegar Johan var að sturta mölinni heima hjá afa að hugmyndaflugið væri á fljúgandi ferð. Svo fór Johan með bílinn út á veginn aftur og dró stóra skúffu af aftanívagninum inn á vörubílspallinn. Svo kom hann aftur til baka og sturtaði einu hlassi af mold annars staðar á lóðina. Hann var nú meiri galdramaðurinn þessi Johan og gaman að fylgjast með honum. Reyndar hefur afi líka gaman að því að horfa á svona tilfæringar.
 
 
En fjórhjólaævintýrinu var ekki lokið við fyrstu myndina. Pétur tók þessar myndir utan þá fyrstu. Hér náði hann mynd af vökulu augnaráðinu Hannesar þar sem hann horfir fram á veginn og metur allt í smáatriðum sem varðar áframhald ferðarinnar. Ég verð nú að viðurkenna þó að ég hafi verið sendur á hesti á milli bæja fyrir sextíu árum að ég hef gaman að því að fylgjast með þessum akstri og sjá ótrúlega örar framfarirnar.
 
Á morgun vinn ég dag í Vornesi og það er síðasti dagur Stokkhólmsfjölskyldunnar að þessu sinni. Þau ætla í sundlaugarferð á morgun þar sem það er spáð vel yfir 30 stiga hita. Á þriðjudag halda þau svo heim á leið og gamli verður aftur einn í kotinu. Hversdagsleikinn tekur við og það verð aftur ég sem stend við eldavélina og eldhúsbekkinn. Ég mun halda áfram að spjara mig en hljóðir verða dagarnir á næstunni. Ég er mikið feginn að Sólvellir eru til staðar fyrir hann nafna minn. Hann er farinn að læra margt sem tilheyrir sveitinni. Áðan fór öll fjölskyldan út í skóg og Hannes tíndi stór bláber af runna, boðraði sjálfur og gaf okkur líka úr litlum lófa sínum. Þannig lauk samverunni þennan daginn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0