Hugrenningar

Vissir atburðir vekja upp hugsanir sem annars hefðu ekki látið á sér kræla og ég upplifði einn slíkan í gær. Ég hitti þá líka fólk sem ég hafði ekki hitt áður en fólk sem vissi um mig og ég heyrði margt nýtt og áhugavert. Það er einn og hálfur sólarhringur síðan og ég var þá þegar farinn að skrifa þetta blogg í huganum. Það verður fróðlegt fyrir mig að sjá hvort það verður jafn auðvelt fyrir mig að koma saman sögu núna og það var fyrir mig þegar leið að hádegi í gær.
 
Upp í Dölum er mikið um víðáttumikla og djúpa skóga. Það var þar sem við Hans í Örebro hittumst í fyrsta skipti 1994. Hann hlýtur að hafa átt svolítið erfitt með að skilja mig á þeim tíma en það viðurkenndi hann aldrei síðar. Hann var raunsæismaður og vildi hafa rökrétt svör við því mesta. Því spurði hann mig eftir mörgu sem ég átti erfitt með að svara og að lokum komst ég í þrot. Ég man vel eftir því augnabliki og svo sagði ég setningu sem bara kom sí svona upp í huga mér. Þegar ég heyrði sjálfan mig segja þessa setningu fannst mér að ég hefði sagt það vitlausasta sem hægt var að segja við þær aðstæður.
 
Rúmlega tveimur árum síðar var ég að vinna í Vornesi og einn vinnufélaga minna, Carl Gústaf sem þá bjó í Örebro, sagði að hann hitti stundum mann sem þekkti mig og talaði gjarnan um mig. Hann sagði líka að þessi maður myndi eftir setningu sem ég hefði beint til hans þegar við hittumst upp í Dölum, setningu sem hann mundi aldrei gleyma. Það sem ég hefði sagt við hann hefði líka gengið eftir. Ég áttaði mig á að Carl Gústaf var þarna að tala um Hans.
 
Síðar flutti ég til Örebro og við Hans hittumst og milli okkar myndaðist góð vinátta. Hann nefndi oft þetta sem ég hafði sagt við hann upp í Dölum og þó að mér hefði fundist það óttalega vitlaust fannst honum það ekki. "Maður getur nú sagt að það sem þú sagðir, það stóðst, svo merkilegt sem það nú er", sagði Hans Stundum. Hann kom all oft á Sólvelli og fékk eitthvað góðgæti hjá Valdísi. Við hittumst líka oft á öðrum hvorum kaffistaðnum í Kremaren í miðbænum í Örebro og fengum okkur kaffibolla og rækjusneið. Hans bjó á 16. hæð í því sama húsi, Kremaren, með makalaust útsýni móti Hjälmaren.
 
Við töluðum um geimvísindi þar sem Hans var vel fróður, um viðhald á bílum þar sem hann var alger ofjarl minn og um margt og margt fleira. Við töluðum líka um hvað það væri að vera einmana. Hans var oft einmana en meðal vina var hann hrókur alls fagnaðar. Hann var lágvaxinn sem gerði hann oft feiminn en hann var myndarlegur kall. Við töluðum um trúmál og ég sagði honum frá fallegri bæn sem ég hafði séð einhvers staðar. "Þessi bæn er eftir hann Linus afabróður minn sem var prestur", sagði hans þá.
 
Hann kom ekki á Sólvelli nema ég hringdi til hans og hreinlega sagði að nú skyldi hann koma. Hann var alltaf mikið þakklátur fyrir það og hann var mikið þakklátur fyrir þau skipti sem ég hringdi til hans frá kaffistöðunum í Kremaren og spurði hann hvort hann vildi ekki skreppa niður og fá sér kaffibolla og rækjusneið með mér. Hans var mein illa við hraðatakmarkanir á vegum og sagði að þær kæmu frá skrifstofublókum sem sætu dag inn og dag út á skrifstofum. Þetta stangaðist svo undarlega á við annað í fari hans.
 
Ég var við útför þessa manns í gær. Þegar ég frétti að hann væri veikur á sjúkrahúsi vonaði ég að þessi síðasti spölur í lífi hans mundi ganga hæglátlega yfir. En Hans fékk að heygja all harða baráttu. Það gerði mig sorgmæddan að horfa upp á það. Mér fannst hann ekki eiga það skilið. Á sjúkrahúsinu hitti ég systkini hans sem hann hafði svo oft talað um og það sýndi sig að þau höfðu oft heyrt talað um Íslendinginn. "Ég er þér svo þakklátur fyrir að koma til mín", sagði hann þegar ég kvaddi hann eftir nokkurra klukkutíma dvöl hjá honum á sjúkrahúsinu á laugardegi. "Þú ert vinur minn", sagði hann ennfremur.
 
Ég er ekki viss um að hann hafi vitað af heimsókn minni daginn eftir, en alla vega, þegar ég laut niður til hans og talaði til hans varð allt rólegt í nokkur augnablik. Svo harðnaði baráttan aftur.
 
Þegar ég tók þessa mynd af Hans seinni hluta vetrar lofaði ég honum að nota hana ekki ef hún yrði léleg. Þegar ég svo sendi honum myndina var hann ánægður með hana. Ég hef ekki notað hana fyrr en núna. Svipuð mynd stóð í ramma á kistunni hans í gær og ég var feginn að sjá þá mynd og við það tækifæri. Hún einhvern veginn staðfesti fyrir mér að baráttunni var vissulega lokið og það ríkti friður hjá þessum manni. Bæði á þessari mynd og á myndinni á kistunni má greina trega bakvið augnaráðið þessa manns.
 
Ég skil tregann þinn Hans.
 
Þar sem ég sat í krikjunni ásamt tuttuogníu skyldmennum hans og einum fyrrverandi skólabróður, þá var ég vel meðvitaður um að hann hafði kennt mér mikið á tuttugu ára sameiginlegri vegferð okkar. Það er þess vegna sem ég skrifa þetta, þetta er ekki minningargrein. Í kaffinu eftir útförina sat nokkuð eldri kona við hlið mér. Ég sagði henni og fleirum sem nálægir voru frá bæninni eftir hann Linus afabróður hans Hans. Þá sagði eldri konan við hlið mér; "já, þessi bæn er eftir hann Linus pabba minn".
 
 
Í vor þurfti ég niður til Laxá sem er góðan spöl sunnan við Örebro og ég fékk með mér þá Tryggva Þór Aðalsteinsson og Hans. Hans þótti vænt um svona smá tilbreytingar í lífinu. Vissulega er niðurstaðan af því sem ég hef verið að skrifa núna og það sem ég hugleiddi við útförina í gær sú að ég hefði getað gefið þessum manni nokkuð meiri tíma. En ég er líka ánægður með að ég gaf honum alla vega eitthvað af tíma mínum. Ég er líka ánægður með að eiga þessa mynd af okkur köllunum þremur.
 
Það eru nokkur tilfelli hér í landi þar sem ég hef verið kominn í þrot og ég hef sagt nokkuð sem hefur hljómað
aldeilis fáránlega í mínum eigin eyrum. En viti menn; ég hef síðar fengið að heyra að það sem ég sagði hafði afgerandi þýðingu fyrir þá sem ég talaði til. Það sem ég sagði við Hans upp í Dölum árið 1994 verður leyndarmálið okkar.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0