Einn magnaður morgun á Sólvöllum

Ég veit að ég sofnaði um klukkan hálf tólf í gærkvöldi. Eitthvað rumskaði ég eftir miðnættið en ekki meira en að ég man það óljóst. Svo vaknaði ég klukkan sex, pissaði og halaði niður. Svo gekk ég inn og drakk eitt glas af vatni úr grænu, hrjúfu glasi sem Valdís keypti fyrir meira en fjörutíu árum. Ég lagði mig aftur vitandi að ég var einn í húsinu, kyrrðin var ótakmörkuð þangað til ruslabíllinn kom upp úr klukkan sex. Þá mundi ég eftir því að ruslatunnan mín stóð heima við geymsluna norðan við og þar með mundi hún ekki verða tæmd að þessu sinni. Ég hafði gleymt að fara með hana út að götu. Það gerir ekki svo mikið til því að mitt rusl er ekki svo fyrirferðarmikið og allt sem rotnar fer í moltukerið út í skógi.
 
Þegar ég dró ullarvoðina upp að höku datt mér hug munurinn á aðstæðum fólks í lífinu. Hér lá ég eins og malandi köttur og hafði það hversu gott sem helst. En í gær, áður en ég sofnaði í stólnum yfir níu fréttunum, hafði mér tekist að sjá þær hörmungar sem fótum troða tilvist þess hluta mannkyns sem er svo óheppið að hafa fæðst í vissum heimshlutum. Ég fann fyrir miklu þakklæti en vissulega hafði ég ekki gert neitt til að hafa það svo mikið betra en þjáða fólkið. Ég var bara svo heppinn að hafa fengið að fæðast í þeim heimshluta sem ég hafði fæðst í. Það var ekki ég sem stýrði því. Svo velti ég mér á vinstri hliðina, hliðina sem ég hrýt ekki á.
 
Svo hugsaði ég allt í einu: ætli ég hafi sofnað? Nei varla. Ég leit á klukkuna sem hangir yfir dyrunum inn í herbergið mitt og hún var hálf níu. Jú, ég hlaut að hafa sofnað þar sem rétt áðan var klukkan bara rúmlega sex. Ég fór fram, aðhafðist það sama og fyrr um morguninn, drakk vatn úr sama græna glasinu og lagði mig aftur. Þá vissi ég að nágrannakallarnir sem fara í morgungönguna klukkan átta voru staddir á að giska í miðbænum í Nalaví.
 
Það er nær óhugsandi að ég fari á fætur án þess að biðja morgunbænina mína og þá þakka ég líka fyrir þær gjafir sem mér hafa hlotnast. Bænin varð slitrótt þar sem hugsanirnar frá klukkan sex stigu fram. Ullarvoðina hafði ég aftur dregið upp að höku og leið afar vel. Í gær þegar ég horfði ég á sjónvarpið áður en ég sofnaði í stólnum hafði ég séð fólk ganga í brennheitum sandi, hungrað og þyrst og eflaust með blæðandi sár á fótunum. Það voru skelfingu lostnir menn og konur og grátandi börn, þau sem enn höfði kraft til að gráta. Í sömu frétt sá ég grátandi börn sem hölluðu sér upp að deyjandi mæðrum sínum. Svo beið ísköld nóttin eftir brennheitan daginn. Þar var ekkert klósett að pissa í eða hala niður úr, ekkert vatn í krana eða grænt glas með minningar til að drekka úr.
 
Ég minntist gönguferðar sem ég fór að morgni til með börnin mín upp á ey þegar við bjuggum á Bjargi í Hrísey. Ég leiddi Rósu og Kristinn heitinn og líklega hefur Valgerður leitt Rósu líka. Valdís var heima þar sem allir áttu að fá eitthvað gott að borða eftir gönguferðina. Við vorum öll ánægð og börnin léku á als oddi, sögðu frá og töluðu um það sem fyrir augun bar. Svo allt í einu steig Kristinn niður í hrímaðan poll milli þúfna og varð blautur í fótinn. Þar með hélt ég að gönguferðin væri eyðilögð þar sem honum yrði kalt á fætinum. En nei. Meðan á gönguferðinni stóð sagði hann hvað eftir annað frá því hvernig það var að stíga í pollinn. Hann sagði frá hljóðnu sem hafði heyrst þegar ísinn brotnaði, hvernig sprungurnar litu út í ísnum og hvað honum hafði orðið illt við.
 
Í eyðimörkinni í gær hafði enginn poll til að stíga í. Kannski eins gott þar sem mannfjöldi hefði troðist undir við þann poll og margir látið lífið. Þannig er misræmið í þessum heimi. Ég heyrði sagt um daginn að ástandið væri afleiðngar af tilveru nokkurra manna sem tækist að draga með sér hvort sem heldur er þjóðir eða þjóðarbrot og þessum mönnum tækist að eitra hugi fylgjenda sinna. Svo tækist þeim að framfylgja voðaverkum sínum og skapa þjáningar sem ekki er hægt að lifa af. Svo lá ég ennþá í rúminu mínu og klukkan var að ganga tíu að morgni. Ég hafði það hversu gott sem helst en hugur minn var á mikilli ferð. Ég kem til með að fá óvenju mikið útborgað um og undir næstu mánaðamót og ég hét mér því að láta meira af hendi rakna en þær föstu greiðslur sem ég læt af hendi til þeirra sem með þjáningu berjast við að halda lífi. Lítið góðverk en smá viðleitni.
 
Ég fann mig hafa óvenju mikla ástæðu til að þakka fyrir þær gjafir sem mér hafa hlotnast og svo ákvað ég að fara út á litlu veröndina utan við svefnherbergisgluggann minn. Svo gerði ég, tók dýnu af nagla á húsveggnum og lagði í notalegan stól og settist. Þegar Rósa og fjölskylda flutti í íbúð sem ekki hafði svalir fékk ég þennan stól frá þeim sem núna stendur á veröndinn minni. Til öryggis hafði ég myndavélina með mér.
 
Trén þarna lengst uppi og lengst úti eru mjög há. Þau eru alla vega miklum mun hærri en þær bjarkir sem hafa verið felldar næst húsinu og eru sautjan til tuttugu metrar. Þau vögguðu í austlægum vindi, laufverkið skrjáfaði, greinar vinkuðu hér og þar, sólin varpaði breytilegu ljósi á þetta græna haf og niður á veröndinni hjá mér var logn og yndisleg tilvera.
 
Garðkannan stendur full af vatni við brómberjarunnana en nú er vætutíð. Í verslun inn í Marieberg finnst nóg af efni sem ég þarf að kaupa til að geta sett meiri stuðning við runnana. En það skeður ekki nema ég geri það. Yfir rabarbaranum þar til hægri við brómberjarunnana standa tveir litlir hlynir sem taka næringu frá honum. Ég þarf að taka þá en ég tími því ekki. Inni á bakvið eikarstofninn til hægri við rabarbarann sá ég grein vinka mér í vindinum. Sú grein er hluti af beykitré sem ég gróðursetti árið 2007. Ég þekki þetta. Síðan vinkaði mér önnur grein. Hún er á hlyninum sem er bakvið litla malarsvæðið þar sem mig langar að setja borð með sætum eða hreinlega góða stóla til að sitja á þegar sólin skín sem sterkust. Mér finnst ég líka þurfa að taka þennan hlyn en ég tími því ekki. Sólin skein nokkur augnablik á vissa flekki, síðan á aðra og það er bara ekki hægt að ná svona á mynd. Það verður að upplifa það.
 
Það myndaðist skuggi á einum stað og sólin lýsti á aðra og fann sér líka smá glugga til að komast alla leið niður á grasið. Hægra meginn við litla birkitréð fyrir miðri mynd sér inn á stíg sem ég gerði fyrir nokkrum árum með því að grisja tré og flytja mold í ótölulegum fjölda af hjólbörum. Það er völundarhús af stígum þarna skammt undan. Suma morgna er bara best að sitja í stólnum á veröndinni og aðra morgna er svo gott að rölta um þessa stíga.
 
Skýin eru núna farin að svífa frá suðri í stórum og litlum flákum, birtan er afar breytileg og það er hætt við að það muni rigna all hressilega innan tíðar. Ég hef ekki setið svo mjög lengi við tölvuna að þessu sinni enda var hugurinn búinn að vera á fleygiferð áður en ég byrjaði að skrifa.
 
Það var hringt frá Vornesi um miðjan dag í gær og ég beðinn að vinna annað kvöld. Ég hafði hlakkað mikið til að vera heima í fjóra sólarhringa í viðbót en ég bara gat ekki sagt nei. Rúmlega einn þessara sólarhringa fer því í Vornes. Kannski það sé hluti ástæðunnar til þess að ég hef svo mikið að þakka fyrir í morgunbæninni minni. Ég hef það alla vega afar, afar gott samt. Og ég þarf að muna eftir að láta aukalega af hendi rakna það sem ég hef lofað um mánaðamótin til þeirra sem fá að líða meira en ég mundi lifa af.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0