Kaffisopi og kökubiti við Hjälmaren

Ég hefði átt að koma heim úr vinnunni upp úr klukkan eitt í gærdag en ég kom heim um klukkan fimm trúi ég. Það er orðið mun fleira fólk innskrifað í Vornesi nú en var hér á árum áður þegar núverandi starfsmannafjöldi var ákveðinn. Svo fjölgar sjúklingunum en ekki starfsfólkinu. Ég fer ekki í Vornes til að vera þar, ég fer þangað til að gera það sem þarf að gera. Eftir að hún kom konan sem tók við af mér í gær hafði ég alvarlegt viðtal við sjúkling. Þannig getur teygst á tímanum en meðferðin verður líka að virka. Ég get ekki bara ypt öxlum og hugsað að þetta fær sá að taka höndum um sem kemur. Þá er ég lélegur. Svo er sjaldan í þessu starfi hægt að vera viss um hvað er alveg örugglega hárrétt og hvað ekki.
 
Því var alveg sérstaklega gott að koma heim í gær eftir að hafa viðrað hugsanirnar á leiðinni. Ég var búinn að vita lengi hvernig næsta vika lítur út á vinnuskemanu mínu, síðasta vikan í sumartörninni, og ég var vel tilbúinn að takast á við þá viku. Síðan get ég bara breitt út faðminn og boðið öllum tíma í heiminum að koma til mín og umlykja mig. Ég er tilbúinn að vera með.
 
Brómberin höfðu dökknað frá því fáeinum dögum áður sem gaf von um að þau nái að fullþroskast, nokkur bláber voru tilbúin að fara á diskinn minn, fáein jarðarber einnig og síðustu gróðursetningarnar mínar litu vel út. Það er mikilvægt að þær nái að ganga frá sér fyrir haustið. Allt var í góðu lagi. Ég var svolítið tómur í höfðinu en það var allt í lagi því að ég var kominn heim til mín á Sólvelli. Svo leið kvöldið fljótt. Ég renndi huganum yfir liðna viku og það var eins og hún hefði horfið í venju fremur mikið annríki. Þá tók ég upp nýja símann minn og leit á nýjustu myndirnar þar. Já! einmitt! þar gat ég rifjað upp ýmislegt sem vikan hafði boðið upp á. Ég sá myndir sem ég ákvað fyrr í vikunni að nota.
 
Þegar ég var á leiðinni heim um hádegi á fimmtudaginn var lá leið mín gegnum Hampetorp eins og næstum alltaf áður í þau nokkur þúsund skipti sem ég hef farið heim frá Vornesi. Við ákveðin vegamót sá ég fjórar konur bíða eftir að ég færi hjá svo að þær gætu haldið áfram ferð sinni. Mér fannst þær eitthvað svo kunnuglegar en ég var á kafi í hugsunum mínum og velti því ekkert meira fyrir mér. Svo hringdi síminn í brjóstvasa mínum.
 
Ghita var í símanum og spurði hvort ég virkilega hefði ekki þekkt þær. Ég hálf skammaðist mín. Þetta voru konurnar sem Valdís borðaði með í hverjum mánuði í mörg ár og þar af mjög oft hér heima. Þegar ég sótti Valdísi heim til þeirra var mér líka svo oft boðið að koma inn því að þær vildu endilega bjóða mér upp á eitthvað líka.
 
Þær voru með nestið sitt á leiðinni til að hafa smá kaffistund saman á borði við strönd Hjälmaren. Viltu koma með og fá kaffi með okkur spurði Ghita. Auðvitað vildi ég það. Svo sneri ég við og fór til við móts við þær þar sem ég fékk að vita hvar borðið væri. Svo fór ég á bíl, þær vildu ganga en ég fékk þó að taka nestið þeirra.
 
Kaarina, Inger, Ghita og Margareta sem er að hella kaffinu. Margareta á heima í Hampetorp og var því gestgjafinn í þetta skipti. Þessar konur hafa ekki sloppið áfallalaust gegnum lífið og þær urðu mikið sorgmæddar þegar Valdís kvaddi hópinn. Þær skrifuðu fallega grein um hana í Örebroblaðið. Ég talaði um það við þær þarna við borðið að eftir næstu viku væri ég tilbúinn að bjóða þeim heim og vera dagstund á Sólvöllum. Það var eins og að fyrir þeim væri það ákveðinn hluti af lífinu. Ég skil það alveg. Svo ætla þær að stinga upp á degi. Þær hafa líka gaman af að hitta Rósu og fjölskyldu og því hef ég í huga að bjóða þeim að koma þegar þau eru stödd hér. Þessar konur eiga það skilið að ég reynist þeim vel. Þær reyndust Valdísi vel.
 
Við vorum stödd á fallegum stað við Hjälmaren. Hátt sef óx í fjöruborðinu og fjöldi skógi vaxinna eyja var úti fyrir í mismikilli fjarlægð. Á bryggju nærri borðinu birtist allt í einu stór snákur sem tók sig þvert yfir bryggjuna og flúði svo í vatnið. Hann virtist vera dauðskelkaður í nærveru okkar. Ekki var kannski alveg laust við að einhver í hópnum óróaði sig vegna nærveru snáksins. Svo þegar við vorum búin að drekka kaffi og borða af brauðinu sem hún Margareta bauð upp á, þá gat himinninn ekki lengur haldið í sér. Það fór að rigna og við tókum saman í flýti og héldum af stað til baka.
 
Nokkra faðma frá borðinu þar sem við höfðum setið er baðstofa og áfast við baðstofuna er þetta viðarskýli. Þarna fórum við inn, ég og þessar fjórar vinkonur Valdísar. Hvað svo sem um útlitið þarna inni er að segja, þá vorum við í skjóli. Skúrin gekk fljótt yfir og við héldum áfram, ég heim og þær heim til Margareta.
 
Ég hafði hlakkað til að koma sem fyrst heim, en ég var ánægður með þetta þar sem þessar konur sem hafa fengið að borga hærri toll til lífsins en margur annar, þær virtust vera ánægðar með að hafa hitt mig þarna þessa stund. Verðmætamat fólks er misjafnt og sumir sjá ríkuleg verðmæti í því smáa sem öðrum kannski þykir ekki svo mikið til um. Það er fallegt víða við Hjälmaren og sú fegurð getur gert kaffisopa og kökubita gómsætari en ella.
 
 
Það er hæglát rigning. Nú ætla eg að birta þetta og svo ætla ég í hóflega fínar buxur og stígvél. Svo ætla ég út og skoða og spekúlera. Og endilega ætla ég að fara einn hring um skóginn og þar ætla ég að spekúlera líka. Þegar ég kem til baka inn ætla ég að halda áfram að spekúlera enn um stund. Verðmætamat mitt segir að þetta sé all nokkuð. Svo fer ég í vinnu á morgun, mánudaginn í síðustu viku sumartarnarinnar á þessu ári.
 


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0