Laugardagskvöld á Sólvöllum

Ég sá þessa mynd hér um daginn vegna þess að það var umræða um vatnsflóð ef til eldgoss kæmi í Bárðarbungu. Ég horfði á myndina og minntist ferðar árið 1962. Við vorum nokkrir sem komum frá Reykjavík til að vinna við hlöðu og fjósbyggingu í Aðaldal. Eina helgi í júní brugðum við okkur í ferðalag og fórum fyrir Tjörnes, gegnum Kelduhverfi, í Þistilfjörð og upp að Dettifossi.
 
Þegar við höfðum farið gegnum Húsavík og héldum áleiðis út á Tjörnes mættum við norðaustan belgingi og slyddu. Þá var Tjörnesið ekki aðlaðandi, ekki heldur ekki Kelduhverfi þó að þar væri öllu skárra veður. Það má segja að ferðina upp að Dettifossi hefðum við svo farið í skítaveðri og ef ég man rétt stoppuðum við ekki sérlega lengi við Dettifoss, en við höfðum þó alla vega komið þangað og séð hvílíkum krafti þessi ölfugi foss bjó yfir.
 
Eftir þessa ferð var Tjörnesið í augum mér sem staður á hjara veraldar, kaldranalegur og ófýsilegur til að vistast á. Nokkrum árum seinna fór ég með skólabörn úr Hrísey í ferðalag um sömu slóðir. Þá skein sól mjög glatt á Tjörnesi, í Kelduhverfi og í Þistilfirði og það voru hlýindi í lofti. Eftir þá ferð var Tjörnesið ásamt örðum sveitum sem við heimsóttum í þeirri ferð með fallegri og vistlegri byggðarlögum sem ég hafði augum litið og svo má segja að það sé enn í dag.
 
*         *         *
 
 
Ég kom heim nokkru eftir hádegi í dag til að hvílast heima í eina átján klukkutíma. Ég var ákveðinn í því að ég skyldi bara rölta um kring og slappa af og búa mig þannig undir að vinna seinni hluta helgarinnar frá hádegi á morgun. Ég heimsótti brómberjariunnana mína og viti menn; fyrstu berin eru að verða svört, sjáið til vinstri á myndinni. Nú þarf einhver að fara að lesa sig til um hvernig á að fara með brómber og hvernig er best að gera gott úr þeim.
 
Ég fann fyrir sigurtilfinningu og mér fannst sem ég hefði unnið svolitið til verðlauna þegar ég sá þetta. Þessir runnar voru afmælisgjöf frá vinnufélögum fyrir rúmlega tveimur árum. Ég gróf fyrir þeim sunnan við Sólvallahúsið sumarið 2012 og gekk mjög vel frá þeim. Málið var bara það að þeir voru á algerlega vonlausum stað, ég tók þá upp vorið eftir og setti í all stórar körfur og geymdi þannig næstum heilt sumar. Síðla sumars í fyrra gróf Rósa fyrir þeim norðan við húsið og aftur var gengið mjög vel frá þeim og þeir fengu þil til að styðja sig við. Nú skila þeir ávöxtum í hlutfalli við alúðina sem þeim hefur verið sýnd.
 
 
Mér tókst ekki vel til með þessa mynd. Kannan er of framarlega á graskerinu þannig að viðmiðunin er ekki rétt. Graslkerið er í raun stærra og það kæmi mér ekki á óvart að það væri yfir sex kíló. Það er mikill og góður matur í því.
 
Hér með er ég búinn að gera eitthvað meira úr þessu síðdegi og kvöldi hér heima en bara að hanga og vera latur. Þetta blogg var gott innlegg til gera laugardagskvöldið notalegt.


Kommentarer
Anonym

Kæri mágur,nóg af hollum mat er ræktað á Sólvöllum.Fæ bara vatn í munninn.Kveðja.

2014-08-25 @ 14:13:57


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0