Heimurinn heldur áfram að snúast

Ég vaknaði eldsnemma í gærmorgun og leið illa bæði líkamlega og hugarfarslega. Því var lítið annað að gera en sofna aftur og svo vaknaði ég rúmlega hálf átta. Ég var næstum hissa því að allt var svo notalegt. Ég þurfti ekki að hugsa um vinnu. Hefði ég átt að vinna dagvinnu væri ég komin langleiðina í Vornes og ætti ég að vinna kvöldið mundi ég fara eftir tvo tíma. En það var ekki svo. Það yrði heldur ekki vinna á morgun og ekki hinn og ekki hinn. Þvílíkur munaður. Ég sá samt ekki eftir annríkinu síðustu tvo mánuði. Þessir mánuðir höfðu gefið mér mikið og ég átti ríkulegar minningar. En ég var vissrar hvíldar þurfi.
 
Ég dró ullarfeldinn upp að höku og horfði upp í loftið. Ég segi oft frá ýmsu og meðal annars þessu með ullarfeldinn. Ullarrúmfötin eru mesti munaður sem við Valdís veittum okkur ef talað er um munað. Þau kostuðu líka heil mánaðarlaun. Þegar ég var búinn að fara einu sinni í það sem kallað er ullarferð, Valdís hafði farið í nokkrar, og hlusta á sölumann halda fyrirlestur um ullarvöruna sína, þá lét það afar vel í eyrum. Svo vel að ég yfirgaf Valdísi við hádegismatarborðið sem var á eftir fyrirlestrinum og keypti ullarsett handa hvoru okkar.
 
Hvað varstu að gera? spurði Valdís þegar við hittumst aftur. Ég sýndi henni kaupsamninginn. Ég á það skrifað annars staðar en man bara ekki viðbrögðin, en alla vega; hún varð gríðarlega undrandi. Þarna rættist draumur sem hún hélt að aldrei mundi rætast. Að kaupa svona dýr rúmföt trúði hún bara alls ekki að ég mundi nokkurn tíma gera. Ég er feginn að ég gerði svo.
 
Þegar heim kom úr ullarferðinni fór ég inn á Google og las mikið um ullarrúmföt. Sölumaðurinn virtist hafa farið nokkuð frjálslega með gat ég ímyndað mér. Ég hringdi til hans daginn eftir og hann virtist vera heima hjá sér með börnin sín í kringum sig. Hann tók mér vel og ég nefndi nokkur atriði sem mér fannst geta verið vafasöm. Við ræddum þetta svolitla stund og svo sagði hann að lokum: Það getur vel verið að ég hafi sagt eitthvað um þessa vöru sem er vafasamt að sé rétt, en eitt er ég alveg öruggur með; þú verður afar ánægður með það sem þú keyptir. Þar hafði hann hárrétt fyrir sér. Ég hef hitt hann einu sinni síðan og ég kann vel við manninn.
 
Mér fannst ég svo innilega frjáls og ánægður maður þarna í gærmorgun að ég var eiginlega hissa. Svo ákvað ég að fara að vinna við leikturninn hans Hannesar. Ég var líka búinn að ákveða tíma hjá honum sögunarMats, en ég ætlaði að kaupa af honum nokkrar spýtur. Ég þurfti líka að fylla í eyðublað til skattayfirvalda vegna eigna sem færðar höfðu verið frá Valdísi yfir á mig. Ég ákvað að gera það um helgina en fara heldur í turninn þennan föstudag. Ég leit samt á eyðublaðið sem var í níu liðum og komst að því að ég mundi aldrei klára þetta hjálparlaust og ég þurfti að skila því eftir helgi ásamt nokkrum ljósritum.
 
Hér með riðlaðist skipulag dagsins og rósemi morgunsins breyttist í ringulreið. Ég rýndi í þessa níu liði og orðalag og meiningar voru mér algerlega ofviða. Það leið á daginn. Eva Johansson hjá skattinum hafði skrifað undir bréfið og allt í einu sá ég að það var símanúmer undir nafni hennar. Ég hringdi og mild konurödd svaraði eftir fyrstu hringingu. Ég bar upp erindi mitt. Já heyrðu, sagði Eva. Þú þarft bara að skrifa nafnið þitt og heimilisfang efst á framhliðina. Það hafði ég þegar gert. Eva hélt áfram. Svo þarft þú bara að staðfesta það í níunda liðnum að þú hafir tekið við þessu og svo er þetta tilbúið.
 
Ég var þá þegar búinn að fylla í eyðublaðið allt sem ég þurfti. Svo hafði ég dregið fram helling af skjölum sem ég hélt að ég þyrfti að nota en þurfti þess alls ekki. Hefði ég bara hringt þremur tímum fyrr í þessa Evu. Það lá við að ég segði að mér þætti vænt um hana en ég lét nægja að þakka henni mjög vel fyrir að draga mig að landi. Ég pakkaði niður öllum skjölunum sem ég hafði dreift í kringum mig og fór svo til Fjugesta til að ljósrita. Eftir það fór ég til Mats og svo var dagurinn búinn.
 
 
Dagurinn hefur að miklu leyti verið eignaður turninum hans Hannesar. Það er bara komið nýtt þak á turninn! svolítið í austurlenskum stíl eða hvað? Alvöru blikksmiður hefði gengið betur frá þakköntunum uppi í toppinn en fólk kemur ekki til með að vera alltaf með augun þar uppi. Hins vegar var þakið svo hrátt eins og það var áður að það dró augu fólks þangað upp og það var alls ekki fínt.
 
Ég var langt kominn með að ganga frá þakkantinum vinstra meginn áður en Hannes fór heim í sumar. Þegar við spurðum hann hvort hann væri ánægður með þetta, þá spurði hann hvort hann gæti ekki fengið flagg líka. Næst þegar ég kom heim úr vinnu var ég með flagg með mér. Svo fékk Hannes að velja hvar það var sett upp.
 
Hvítt þakskegg á leikturninum og Pétur var búinn að mála með rauðu. Nú fellur turninn inn í Sólvallamyndina. Áður var hann meira eins og illa hirtur aðskotahlutur. Ég er ánægður með þetta og svo ætla ég að mála á morgun. Ljósastaurinn er hins vegar orðinn aðskotahlutur eins og hann lítur úr. Hann þarf að leggja að velli því að hlutverki hans er lokið.
 
Heimurinn hefði haldið áfram að snúast þó að ég hefði ekki skrifað allt þetta, en heimurinn heldur líka áfram að snúast þó að ég hafi gert það.


Kommentarer
Björkin

Mikið held ég að hún sé góð kona Eva. Flottur turninn hanns Hannesar Guðjóns .Krammmmmmmmmmmmmm.Stórt.

2014-08-30 @ 23:57:48
Guðjón

Já mágkona, það er margt gott í þessum heimi þrátt fyrir allt.

2014-08-31 @ 00:44:49
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0