Ég fann hvernig hreint og svalt loft streymdi um andlit mitt

Klukkan er einhverja mínútu yfir átta að morgni þessa miðvikudags. Nákvæmlega klukkan átta reisti ég mig upp úr rúminu. Ég vaknaði klukkan hálf sjö eftir sjö tíma ótruflaðan svefn og fann mig svo notalega vel úthvíldan. Eftir að ég kom heim í gærkvöldi renndi ég huganum yfir síðustu dagana. Ég hugsaði líka út í komandi daga. Meiningin var að ég ynni dagvinnu fram á föstudagskvöld og svo væri afleysingum mínum lokið á þessu sumri. Svo breyttist það á mánudaginn var og nú er ég í fríi í tvo daga þar til á föstudagsförmiðdag. Svo vinn ég löngu helgina.
 
Í gær kom svo dagskrárstjórinn til mín og spurði hvort ég gæti unnið þrjá dagvinnudaga í næstu viku. Ég varð fyrst alveg hljóður og svo lofaði ég að vinna einn  dag. Dagvinnudagarnir eru erfiðari. Þá þarf ég að aka bíl svo mikið fyrir vinnu í átta og hálfan tíma. Ef ég vinn kvöld eða helgi, þá ek ég jafn langt fyrir tuttugu tíma. En nú er bara gott að vera heima. Það var líka gott að vera heima í gærkvöld.
 
Ég þurfti að hreinsa hugann eftir síðustu daga. Það er misjafnt hvað aldraðir gera. Sumir helga sig golfi, aðrir spila brids, enn aðrir ferðast og dansa en ég helga mestu af tíma mínum til að nálgast fólk og hlú að sveitabænum mínum. Ég get farið í vinnuna mína og starfað þar svolítið eins og vélmenni án þess að verða fyrir áhrifum þess sem skeður í kringum mig. En ef ég held fyrirlestur eða leiði grúppu og nota þá aðferð, þá helga ég mig ekki því að nálgast fólk. Þá er ég bara innan um fólk til að fá borgað fyrir það. Þegar ég nálgast hjörtu þeirra, þá er ég með þeim.
 
Ég er með fólkinu sem er að mæta örlögum sínum og ég verð fyrir áhrifum af því. Sumir eru að horfast í augu við eigin gerðir, sumir eru að horfast í augu við að aldrei hafa verið börn, heldur foreldrar foreldra sinna. Sumir eru að horfast í augu við að hafa fengið að þola nokkuð af öðrum sem enginn skal þurfa að þola. Sumir eru að horfast í augu við þetta allt en stærsti hlutinn er að horfast í augu við eigin gerðir undir oki þess sem við köllum sjúkdóm. Alkohólismi og fíkniefnaneysla er skelfilegur sjúkdómur sem leiðir til þjáninga, sorgar og oft til dauða.
 
Að ég á mínum aldri helga svo mikið af tíma mínum með þessu fólki í staðinn fyrir að leika golf, spila brids og dansa, það er kannski ekki klókt. Kannski er ég bara óttalegur bjáni. Ef svo er, þá finnst mörgum að ég sé óttalega góður bjáni, mér líka. Svo fæ ég líka vel borgað fyrir að vera þessi bjáni og svo er ég svo mikill bjáni að enn svo lengi gef ég Sólvöllum þessa peninga að stærstum hluta.
 
Ég fylgist all náið með atburðunum í Vatnajökli og gerði það eftir að ég kom heim í gær. Mér er ekki sama um það hvernig framvindan verður. Sú framvinda er afar óráðin. Ég leit líka í vatnsmælinn minn og sá þar sjö millimetra eftir daginn. Seinna horfði ég á regn streyma niður og það hækkaði ört í mælinum. Hér eru samt engin skýföll eða flóð. Sólvellir eru þlíka þannig í sveit settir að hér geta ekki orðið vatnsflóð. Ég kveikti upp í kamínunni og það logaði svo undur fallega í henni. Ég talaði við Pál bróður á skype og hann horfði líka á hvað loginn var lifandi og ég hefði gjarnan viljað að hann hefði fundið fyrir ylnum með mér.
 
Ég horfði á hvernig all grænt hefur verið að taka við sér eftir regn síðustu daga, hvernig allt það fallega græna hefur orðið enn þá fallegra. Hvernig síðustu gróðursetningarnar mínar eru farnar að taka við sér og breiða faðminn móti umheiminum. Skógardúfurnar ræddu sín á milli á sínu róandi tungumáli. Ég las um það fyrir nokkru að skógardúfurnar segi hu-hu. Mér finnst þær segja grú-grú en það er kannski bara af því að ég er svo laglaus.
 
Þegar ég var búinn að fara mína hefðbundnu baðferð klukkan hálf sjö í morgun lagði ég mig aftur og lét hnakkann hvíla á dýnukantinum sem ég nota fyrir höfðagafl. Ég vildi láta hugann reika. Til að losna við Vornes og vinnuna lét ég hugann reika til fólksins þar, fólksins sem hefur verið að fella tár vegna svo margs. Ég sá fyrir mér andlit. Ég minntist orða úr bókinni Heimsljós. Á bænum Fótarfæti undir Fótarfæti voru aldraðir niðursetningar. Ólafur Kárason ljósvíkingur var bara barn þar, en hann var líka niðursetningur.
 
Svo kom einhver inn í svefnskálann þar sem niðursetningarnir sváfu ásamt ýmsu öðru fólki. Sá sem inn kom hrekkti einn af öldruðu niðursetningunum og hann  fór að gráta. Þá sagði Ólafur Kárason ljósvíkingur: Það er svo erfitt að sjá gamalt fólk gráta. Það fólk sem ég sé gráta er að gráta sig til nýs og betra lífs. Þar með vék ég þessum þætti hversdagsleikans til hliðar og hugrenningarnar héldu áfram.
 
Ég fann hvernig hreint og svalt loft streymdi inn um loftventlana og lék um andlit mitt ofan við ullarvoðina. Ég heyrði kyrrðina bara eins og hún getur best látið utan að skógardúfurnar höfðu á ný tekið upp samræður kvöldsins áður. Þær sögðu grú-grú. Þær sögðu við mig að þær hefðu það gott og að allt væri eins og það ætti að vera hjá okkur hér á Sólvöllum. Mér fannst gott að heyra það. Skógardúfurnar eru góðir sambýlingar, þær boða bara gott með grú-grúinu sínu og þær eru ögn ósýnilegir boðberar þess að kyrrlátt lífið ríkir hér allt um kring.
 
Enn ein mynd, ennþá af því sama, myndin af því sem ég er búinn að hafa fyrir augunum þann klukkutíma sem ég hef verið að skrifa þetta. Það er kominn síðsumarblær á skóginn. Þeir sem þekkja það sem er niður í horninu til vinstri geta væntanlega fengið verðlaun þegar líður að kvöldi -rabarbarapæ með vanillusósu.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0