Mörg orð um lítið efni

Ef allir athafna- og framkvæmdamenn mundu lýsa í skrifuðu máli öllu sem þeir afreka um dagana á sama hátt og í jafn mörgum orðum og ég lýsi því litilræði sem ég kemst yfir, þá yrði brátt ekkert pláss á jörðinni fyrir nokkuð annað. Þetta hefur oft komið upp í huga mér og ég hef stundum séð fyrir mér andlit fólks sem hefur aðhafst gríðar mikið en ekkert skrifað um það. Svo sit ég hér og skrifa um það sem varla sést
 
Ég hef ekki verið frekur á sætin í farþegaþotunum sem flytja fólk til allra landa heimsins og ég hef ekki á þann hátt skilið eftir mig mikinn koltvísýring í háloftunum. Ég er svo fátækur á þessu sviði að það er nánast einungis til og frá Íslandi sem ég hef ferðast milli landa á síðustu tuttugu og fimm árum. Ég hef því lítið séð af heiminum. Ég tel mig hins vegar sjá það mesta heima hjá mér, bæði stórt og smátt. Samt þekki ég bara örfáa fugla og fleira gæti ég talð upp sem ég þekki ekki í kringum mig. En ég hins vegar sé það.
 
Sólvellir hafa fengið nánast allan frítíma minn í mörg ár. Þar sem mér hefur ekki legið svo óttalega mikið á hef ég látið eftir mér að byggja það mesta sjálfur. Ég get leyft mér að segja, trúi ég, að ég hafi líka gert það mesta sjálfur af svo mörgu öðru sem hefur verið gert hér. Því finnst mért að ég eigi þennan stað. Hann er eiginlega svolítð af hjarta mínu -af lífi mínu. Hann hefur, eins og ég sagði, fengið að eiga frítíma minn, peningana mína líka, mikið af hugsunum minum og hér hef ég upplifað marga ánægjustundina með öðrum, bæði áður en ég varð einn og líka eftir að ég varð einn. Oft hef ég líka verið ánægður aleinn.
 
Vissulega hef ég fengið hjálp. Árný mágkona mín og Gústi svili minn hafa verið hér og málað panel og klofið eldivið. Valgerður dóttir mín og Jónatan hafa verið hér og hjálpað til, klofið við og kennt mér að matreiða. Kristinn dóttursonur hefur hjálpað mér og deilt með mér hugmyndum um það hvernig hægt sé að gera eitt og annað á Sólvöllum. Mest hafa þau þó hjálpað mér Rósa dóttir mín og hann Pétur, enda eru þau nálægust. Þau hafa líka séð ástæðu til að eyða hér mestu af sumarfríum sínum í mörg ár vegna þess að þeim líður vel hér.
 
Hjálp þeirra hefur verið fólgin í því að vinna að mörgu þegar þau hafa verið hérna en kannski hefur stærsta hjálp þeirra fólgist í því að standa með mér í öllu sem ég hef gert hérna. Þau hafa líka hvatt mig og sagt mér að ég sé ekki að gera neina vitleysu. Mestur hluti kvöldmatarins í kvöld kom úr matjurtagarðinum hennar Rósu. Ég hef fengið marga delluna gegnum árin. Til dæmis að púla við lóðina okkar í Hrísey, all langt tímabil fór í inniblómadellu, í ljósmyndun og fleiri voru dellurnar mínar. Pétur tengdasonur sagði fyrir nokkrum árum að besta dellan sem ég hefði fengið væri Sólvellir. Þá umsögn þótti mér mikið vænt um.
 
Mér þótti gaman að því þegar Valdís var að sýna fólki hvað við hefðum verið að gera hér, segja frá því hvernig eitthvað hefði verið áður og hvernig það hefði gengið að framkvæma hlutina. Hún var með í mörgu, meira að segja að hjálpa til við að fella tré út í skógi sem við byggðum svo úr.
 
Það eru rúm sjö ár síðan ég hætti að vinna og varð ellilífeyrisþegi. Svo hætti ég ekki að vinna. En ég hef fengið að vera með um margt á þeim tíma. Á þeim tíma hef ég fylgst með mörgu flakkandi, litlausu og skelfdu augnaráðinu breytast í að verða fallegt, verða öruggt með sig og mæta augnaráði annarra án þess að hvika. Ég hef á þessum tíma fengið að heyra margar fallegar sögur um það þegar börn fara að nálgast foreldra sína á ný, treysta á nærveru þeirra og þora að gleðjast með mömmu eða pabba eða hreinlega hvort tveggja. Þetta með börnin er nú það fallegasta sem talað er um í meðferðinni.
 
Ég hef í þessari vinnu minni eftir að ég varð ellilífeyrisþegi hitt marga sem eru þakklátir og nota mörg tækifærin til að koma því á framfæri. Mitt líf á ekki að ganga út á það að fólk sé mér þakklátt en það segir þó að eitthvað jákvætt hefur áunnist. Ég verð að viðurkenna það að allar þessar jákvæðu upplifanir hafa gert ellilífeyrisárin mín vermætari og fyllt þau með fegurð og mikilli lífsmeiningu.
 
*          *          *
 
Ég var að gróðursetja kirsuberjatré í dag, framhald á vinnunni sem ég byrjaði á í gær. Ég ætlaði að láta það ganga fyrir öðrum störfum að klára leikturninn hans Hannesar en þegar lifandi ávaxtatré er komið heim að húsvegg, þá er ekki um svo margt að velja. Næsta verkefni verður því að vera turninn. Ég þurfti að taka mér smá hvlild í dag og sló þá upp á Google "að rækta kirsuberjatré". Hjá nokkru sem heitir "odla.nu" fann ég texta þar sem það stóð að það að fá sér kirsuberjatré væri afar góð fjárfesting. Því væri mikilvægt að vanda vel til gróðursetningarinnar. Það var sniðugt að sjá því að ég hef ekki vandað mig eins við neina gróðursetningu á Sólvöllum og þessa. Ætli það sé ekki búið að fara um eitt og hálft dagsverk í það að gróðursetja þetta eina tré.
 
Enga holu fyrir eitt tré eða einn runna hef ég grafið svo stóra sem þessa og enga holu hef ég fyllt aftur með jafn góðum jarðvegi og þessa. Meira að segja 45 lítrar af hænsnaskít fóru í hana, nokkuð sem ræturnar komast ekki í fyrr en eftir einhver ár.
 
Þessa hálfbræður fékk ég upp úr holunni þar sem plómutréð hafði staðið og meira en þrjár hjólbörur af minna grjóti. Þeim minni, þeim röndótta, lyfti ég með naumindum en hinn var mér fullkomlega ofviða. Ég kann ráð við því. Ég segi hálfbræður vegna þess að þeir eru svo gersamlega ólíkir þessir steinar. Samt lágu þeir hlið við hlið.
 
Tréð er vel frágengið en verkinu er ekki lokið. Ég verð einhverja klukkutíma að taka til eftir mig en það fær að bíða þar til eftir sólarhringinn sem ég fer til að vinna á morgun.
 
Svona líta Gårdebo kirsuberin út, einmitt það sem ég var að gróðursetja.
 
Svona getur plómutrjástofn litið út að innan.
 
Það fór líka svo núna eins og svo oft áður að ég gat ekki neitað mér um að tala helling um það pínulitla, tala um það sem ég hef verið að gera í dag. Gangi ykkur allt í haginn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0