Að gróðursetja kirsuberjatré

Í blogginu fyrir neðan skrifaði ég um ólíkar athafnir okkar Bernts. Að skrifa um það sem ég er að gera segir bara hálfa söguna. Myndir segja hinn helminginn.
 
Þarna gefur að líta kirsuberjatréð sem ég fékk í dag. Það er nú bara þannig að þetta tré er komið og þá verð ég að vera ábyrgur fyrir því að fara vel með það.
 
 
Næst til hægri er nýtt plómutré sem á að taka við hlutverki gamla plómutrésins sem stendur lengra frá við hliðina á hjólbörunum. Hann Arnold bóndi ætlaði að lána honum Jónasi syni sínum dráttarvél og það var meiningin að Jónas velti gamla trénu og svo ætlaði ég að grafa fyrir nýja kirsuberjatrénu á sama stað. En Jónas er ekki heima og kirsuberjatréð er komið. Hvað gera bændur þá?
 
 
Mér datt ekki í hug að gefast upp og gróf hálfs meters djúpan skurð í kringum gamla plómutréð. Síðan lét ég renna vatn í skurðinn og á kökuna kringum tréð, minnkaði kökuna með haka og skóflu og byrjaði að mjaka trénu til hliðanna, róa því fram og til baka. Þetta skotgekk ekki og að endingu varð ég svangur og þreyttur og fór inn að borða.
 
 
Svona getur hráefnið í kvöldmat á Sólvöllum litið út. Zucchiniafbrigði sem ég man ekki hvað heitir.
 
 
Og svona lítur það út niðurskorið. En kannski þekkja þetta allir þannig að ég þarf ekki að vera að sýna það. En alla vega, ég steikti helling af því og borðaði með síld.
 
Síðan fór ég út á ný og nú var farið að bregða birtu. Fílefldur gekk ég í skrokk á trénu, ók því til hliðanna, bleytti jarðveginn og plokkaði mold af rótunum, aftur, acftur og aftur. Svo varð dimmt en veðrið var alveg indælt. Þráinn í mér jókst eftir því sem kvöldhúmið lagðist yfir byggðina og ég fann að mér miðaði. Eitthvað var að gefa sig.
 
 
Tréð lagðist á hliðina og málið var leyst. Á morgun geng ég á vetvang með keðjusögina og brytja tréð niður og eftirleikurinn verður léttur. Hefði ég hins vegar byrjað á að saga tréð niður við rót hefði ég ekki fengið upp rótina án erfiðleika. Svona er það oft á Sólvöllum. Þolinmæðin þrautir vinnur allar. Nú er svo sannarlega kominn hvíldartími. Það verður gaman að ganga til verka á morgun.
 


Kommentarer
Björkin

Farðu vel með þig mágur minn.

2014-08-10 @ 23:03:24
Guðjón

Ég geri það mágkona, sef vel og borða hollasta mat á norðurhveli.

2014-08-10 @ 23:12:42
URL: http://www.gudjon.blogg.se
Valgerður

Mikið er ég glöð að það er komið kirsuberjatré.

2014-09-09 @ 10:54:49
Guðjón

Það var kominn tími til Valgerður. Ég veit ekki alveg af hverju það drógst svona lengi.

2014-09-10 @ 14:35:22
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0