Hér er bloggið sem ég skrifaði í morgun

Í gær komm ég heim úr vinnu um um hádegisbil. Það voru þáttaskil hjá mér. Sumarleifaafleysingatímabili mínu var lokið með fullri vinnu í tvo mánuði. Framundan verður vinna á strjálningi ef að líkum lætur.
 
Ég var ringlaður eftir að ég kom heim í gær. Það var eins og ég fyndi að nú gæti ég sleppt öllu lausu, væri frjálsari maður. Svo ákvað ég ótrúlega fáránlegan hlut. Eftir kaffi og ristaða brauðsneið fór ég til Fjugesta og keypti sex kíló af grasfræi af tveimur tegundum og fékk lánaða sáningarvél. Síðan hraðaði ég mér heim og sáði öllu þessu grasfræi í malarbornu heimkeyrsluna að bílskúrnum á Bjargi og einnig í malarborna bílastæðið. Áður en ég fór hafði ég jafnað þetta eftir þörfum með garðhrífu. Þarna sáði ég helmingi meira grasfræi en gefið er upp en ég ætlaði líka að gera þessa sáningu ríkulega. Hlaðvarpinn á Sólvöllum á að vera grasi gróinn og fallegur.
 
Þegar ég vaknaði í morgun áttaði ég mig á að ég hafði ekki verið svo sniðugur í gær að hafa þetta svona. Ég hefði átt að gera eins og mér datt í hug áður en ég lagði af stað heim frá Vornesi að koma við á Goda rum í Kumla og halda upp á daginn. Fá mér góðan hádegisverð og borða í ró og næði vitandi að enginn erill beið mín heima. Fá mér stóra súkkulaðiköku, kladdköku, með kaffinu, og reyna að borða hana hægt og í ró og næði. Fara síðan heim og ganga hér um og eiga notalegt síðdegi.
 
Það var ekki fyrr en í morgun sem ég áttaði mig á því að ég hafði farið fram í hálfgerðu offorsi sem alls ekki var svo nauðsynlegt. Ég ákvað því að taka morguninn mjög rólega og fara í gegnum það sem ég hafði verið að upplifa undanfarið annað en að sá grasrfæi með látum.
 
Ég minntist gærdagsins meðan heimsóknartíminn í Vornesi stóð yfir. Eins og venjulega var ég á rölti svolítið um allt og heilsaði fólki og tók ýmsa tali. Ég var utandyra þegar kallað var á mig með nafni; Guðjón! viltu ekki koma og heilsa upp á eitt af smábörnunum mínum. Það var konan hans Kalla en hún var hjá honum í heimsókn. Ég hafði séð hana áður en aldrei tekið hana tali. Núna vildi hún sýna mér eitt af smábörnunum sínum.
 
Þetta smábarn var hundur á stærð við fjögurra mánaða gamlan gallovey kálf nema bara þynnri á kviðinn. Hundurinn gekk vinalega að mér og þefaði. Gríðarlega stórt trýnið var rétt undir bringsbölunum á mér þegar þessi vinalega tík teygði fram hausinn og hrærði með nösunum í skyrtunni minni til að kanna hver ég væri. Þegar ég klappaði heinni á kollinn lyfti ég hendinni í stað þess að teygja mig niður á hundshausinn. Nei, ekkert smábarn eða stofustáss fyrir mig en allt í lagi í nokkur andartök meðan eigandinn hélt í tauminn.
 
Svo kom Kalli. Hann hafði verið að sýna tólf ára gömlum syni sínum eplatré þar sem eplin lágu nánast í haugum á jörðinni. Það voru epli af því tré sem ég notaði í eplapæ og eplaköku hérna um daginn. Kalli og sonurinn eru myndarlegir menn, herðabreiðir, vel vaxnir og beinir í baki. Ég rétti úr mér og heilsaði syninum. Kalli hefur oft talað um hann. Ég nota það mikið að tala um börnin til að komast að hjarta fólks. Það er þakklátt umræðuefni og vekur upp tilfinningar. Kalli sagði mér seinna í gær að honum þætti svo erfitt að hann gæti ekki talað við soninn sem virkilega fullþroskaður pabbi. Honum fyndist hann ekki duga til þess. Hann vissi hins vegar ekki hvað syninum þætti um samræður þeirra.
 
Ég mætti Nönnu þar sem hún var með sex ára dótturinni Ídu og foreldrum sínum. Ég sá á Nönnu að hún beið eftir því hvort ég mundi koma og tala við dótturina. Auðvitað gerði ég það. Dóttirin hélt í hönd mömmu sinnar, hallaði sér upp að mjöðm hennar og horfði feimin á mig. Fyrir henni hét ég skrýtnu nafni og svo talaði ég einkennilega. Hún sagði samt nafnið sitt og mamman var svo stolt af henni litlu Ídu sinni. Afinn og amman sem sátu í sófa rétt hjá voru líka stolt af barnabarninu. Allir brostu yfir þessum stutta fundi okkar, líka mamman, en ég vissi að baki brosi hennar fannst líka mikil sorg vegna svo margs sem á undan var gengið.
 
Svo mætti ég Ara með syni sínum, fjögurra ára eða svo. Við töluðum saman. Mér finnst Ari svo oft barnalegur en þegar hann sagði að níu ára gamla dóttir sín hefði ekki viljað koma vegn þess að henni þótti svo leiðinlegt að pabbi hennar væri á svona stað eins og Vornesi, þá hvarf barnaskapurinn af andliti hans og sorgin læddist fram gegnum augun.
 
Jóna og börnin hennar tvö voru á gangi úti við og hún leiddi þau bæði. Fyrir mér voru það engar vangaveltur að þessa fjölskyldu skyldi ég tala við. Annað hefði verið ískuldi af minni hálfu. Það var þarna sem sársaukinn var mestur meðal þessara foreldra sem ég hef talað um. Jóna er í háskóla að læra um framleiðslu á náttúrulegu gasi og um annað sem viðvíkur mikilvægum, vistvænum fræðum. Hún er afar meðvituð um að framtíð barnanna hennar veltur svo mikið á því sem við mannfólkið aðhöfumst í dag. Hún er líka sterkt meðvituð um það að hún vill svo innilega verða trygg og betri mamma.
 
Þessir foreldrar sem ég hef nefnt hér eru öll rúmlega þrítug, Kalli lítið eldri, og þau eiga það öll sameiginlegt að vera að vinna sig í gegnum mikinn sársauka vegna foreldrahlutverksins. Þau eiga það líka öll sameiginlegt að vilja svo innilega verða aðrar og betri manneskjur í því hlutverki. Ég óska þessum systkinum mínum ásamt öllum öðrum systkinum sem ég eyddi helginni með í Vornesi innilega velfarnaðar á göngu sinni inn í nýjan og berti heim. Heimurinn er í mikilli þörf fyrir gott fólk í dag.
 
Morgunhugleiðingum mínum með hnakkan upp á dýnunni sem er við höfðalagið mitt er hér með lokið. Líka þessari stund við tölvuna. Morgunverðurinn er framundan og nú fyrst er eins og sumarafleysingum mínum sé formlega lokið.
 
Enn einn morgun hef ég haft kyrrlátan skóginn utan við svefnherbergisgluggann minn. Svo sannarlega fullkomlega kyrran. Ég kem til með að sakna þessa mikla laufhafs þegar vetur gengur í garð. Að öðru leyti er ég býsna ríkur maður.
 
 
Ég fór á göngu um Sólvallaskóginn eftir morgunverðinn. Einmitt þá fór að rigna hressilega og ég reyndi að komast heim á hálfgerðum hlaupum.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0