Sumir dagar eru betri en aðrir dagar


Hannes Guðjón, Rósa, Jónatan tengdasonur og Valgerður.
 
Það var rétt fyrir 1990 sem Jónatan tengdasonur var framleiðslustjóri í Glit sem var staðsett upp á Höfða í Reykjavík og framleiddi leirmuni. Þá var hann meðal annars að þróa einhverja litunaraðferð á framleiðsluna, nokkuð sem ég kann ekki að segja frá. Síðan eru ár og dagar og Jónatan mun hafa leitað nokkuð að svona hlutum svona rétt til að eiga til minningar um þennan kapítula í lífi sínu. Ég kann ekki að segja frá því hvernig það hefur gengið.
 
Laxå eða Laxá er lítill bær rúmlega tuttugu kílómetra sunnan við Sólvelli. Þar er verslun sem heitir Linne og Lump og við höfum verslað þar nokkuð Rósa og Pétur og ég. Ég hef keypt þar notuð tekkhúsgögn sem voru vinsæl um 1960. Meðan Valgerður og Jónatan voru hér skruppu þau öll þarna suðureftir en ég var heima til að sýsla við mitt.
 
Mér skilst að Jónatan hafi verið á rölti um verslunina án þess að vænta þess að nokkuð sérstakt væri í uppsiglingu. En þó var það svo að það var nokkuð óvænt í uppsiglingu. Þessi skál blasti allt í einu við honum og þessi skál var einmitt eitt af því sem hann vildi svo gjarnan finna. Hún er einn af þeim hlutum sem framleiddir voru meðan litaþróunarverkefnið stóð yfir og það eru hvítu deplarnir innan á hliðum skálarinnar sem verið var að þróa. Eftir því sem Jónatan sagði þegar hann sýndi mér skálina þá var það erfiðleikum bundið í byrjun að fá þessa depla jafna yfir allan flötinn.
 

Svo þegar Jónatan hvolfdi skálinni kom í ljós framleiðslumerki Glits þannig að þessi skál er eins ekta og hugsast getur. Hér í Svíþjóð eru sjónvarpsþættir þar sem fólk kemur með gamla hluti til að sýna sérfræðingum, fá að heyra eitthvað um sögu þeirra og vita hvers virði þeir eru. Þessir sérfræðingar eru alveg sérstaklega hrifnir af því þegar svona merki eru á hlutunum og það getur haft áhrif á það hvers virði þeir eru.
 
En sem sagt; Jónatan tengdasonur kom í verslun í litlum bæ lengst út á landi í Svíþjóð og fann þar hlut sem hann hafði unnið við að þróa fyrir meira en 25 árum.
 


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0