Ólíkar athafnir manna

Hann Bernt var mikill vinur hans Kjell vinar míns sem lést fyrir nokkrum árum. Meðan Kjell var á lífi hittumst við Bernt einungis í ein tvö eða þrju skipti. En eftir andlát Kjell höfum við orðið góðkunningjar. Bernt á sumarhús eina þúsund kílómetra norður í landi og ég á myndir sem ég fékk frá Kjell þar sem þeir félagar ásamt fleirum eru að vinna við byggingu þessa sumarhúss.
 
Við Bernt fylgjumst talsvert með hvor öðrum á feisbókinni og því veit ég nokkuð hvað hann aðhefst þarna norðurfrá núna. Suma daga leggur hann fiskinet í stöðuvatn sem er skammt frá bústaðnum og eldsnemma morguninn eftir fer hann til að vitja um netin. Síðan gerir hann að fiski og ef hann hefur ekki tekið netinn upp þegar hann vitjaði um um morguninn fer hann aftur eldsnemma morguninn eftir til að vitja um á ný og svo hefst ný aðgerð.
 
Suma daga fer hann í langar gönguferðir með bakpoka og sefur þá gjarnan við frumlegar aðstæður. Aðra daga ekur hann langar, langar leiðir til að taka þátt í hreindýraslátrun og stuttu síðar er hann kominn út á vatnið á ný með netin sín. Hann virðist vart stoppa og ég skil hann ekki af hverju hann sest ekki einstaka sinnum í góðan stól og horfir á skýjafarið eða fuglana sem hrærast í kringum hann. Hann hefur hvatt mig til að koma í heimsókn en ég er ögn smeykur við að hann mundi gera alveg útaf við mig í öllu annríkinu sem hann mundi telja að mér mundi þykja svo skemmtilegt. En ég segi bara; gleymdu því að mér mundi þykja gaman að því að fara í hreindýraslátrun.
 
Ef hann Bernt sæi til mín mundi hann verða ekki minna hissa á athöfnum mínum hér á Sólvöllum. Áður en ég fór til Íslands um 20. apríl var ég búinn að gróðursetja tvo sólberjarunna, tvo rifsberjarunna og tvo stikilsberjarunna. En mér fannst það ekki nóg þannig að ég bætti við tveimur hindberjarunnum og fjórum stórum amerískum bláberjarunnum. Svo fór ég til Íslands í sigurvímu vegna þess að ég þyrfti ekki að gróðursetja meira af berjarunnum á Sólvöllum.
 
Eftir heimkomuna frá Íslandi leit ég inn hjá fólki í Fjugesta og fékk þar mjög gott illiblómasaft. Meðan ég var að drekka saftið varð mér litið út um glugga og sá þá að þar var stærðar svæði í garðinum hjá þeim nánast hvítt af illiblómum. Ég fékk að taka í tvær stórar uppskriftir og úr því fékk ég níu lítra af illiblómasafti. Þá varð ég auðvitað að fá mér illirunna og með honum keypti ég þrjá aðra runna af ólíkum tegundum, en þessir runnar eiga það allir sameiginlegt að bera mikið af hvítum blómum. Ég gróðursetti þá austan við íbúðarhúsið. Svo komst ég að því að það væri ekki nóg að eiga einn illirunna þannig að ég keypti einn til viðbótar og gróðursetti sunnan við Bjarg.
 
Um daginn horfði ég á plómutréð sem ekki hefur borið ávöxt í nokkur ár. Það er orðið gamalt og greinar þess eru að deyja hver á fætur annarri. Þá var Rósa nýbúin að kaupa kirsuber og því fannst mér best að yngja upp þetta gamla plómutré og setja þar kirsuberjarunna í staðinn. Hann var pantaður fyrir mig og kom í dag þannig að ég tók hann á leiðinni heim úr vinnu um hádegisbilið. Þegar ég var búinn að slappa svolítið af eftir vinnuna hófst vinna við að fá burtu gamla plómutréð og undirbúa gróðursetningu á kirsuberjatrénu. Mitt í þessu öllu er ég í mikilli vinnu.
 
Athafnir manna eru ólíkar. Hvernig ætti hann Bernt að geta skilið þetta vinnu- og gróðursetningaæði mitt?


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0