Kallinn orðinn elliær

Það er auðvitað einfalt að viðurkenna það að þegar ég er búinn að vera rúman sólarhring í Vornesi, að þá er alveg frábært fyrir mig að halda út í sænska sumarið, frjáls eins og fuglinn, og gera það sem mér sýnist. Ég heimsótti fólk á leiðinni heim, tvær fjölskyldur. Ég ætlaði að heimsækja fleira fólk, fólk sem ekki var heima. Ég á von á að golfvellirnir hafi dregið suma til sín í dag með golfkylfurnar sínar og það sem því tilheyrir. Veðrið býður ennþá upp á það. Ég þori ekki að prufa golfið. Ég má ekki við því að smitast af golfáhuga. Þá mundi það fljótlega verða golfdella og mikið yrði ég leiðinlegur talandi um golf alla daga. Nóg er nú fyrir.
 
Svo kom ég heim í sælureitinn. Það hafði rignt sex millimetra í nótt og þakklátur var ég fyrir það þó að það hefði mátt vera sex sinnum meira. Ég byrjaði á því að rölta um með garðkönnurnar til að gefa gróðrinum mínum smá ábót á úrkomuna. Ég týndi ber í eftirrétt handa mér og ég hugaði að heilsufari í skóginum. Því mesta virtist líða vel þrátt fyrir þurrkana. Gróðurinn hlýtur að geta sett sig í einhverjar þurrkstellingar sem kemur í veg fyrir að til dæmis tré þorni upp. Annars væri mikið búið að fara illa. Hann Arnold bóndi segir að þetta sé þurrasta sumarið síðan 1975 en þó sé sá munur á að þetta sumar sé búið að vera hlýrra. Gras er að vísu gulnað á vissum svæðum en það er þó mesta furða.
 
Svo fór ég inn í matargerð.
 
Zucchini með síldinni, það hljómar kannski ekki matreiðslumannslega en ég veit að hvort tveggja er gott fyrir kroppinn eftir vinnuúthald. Zucchinið er úr matjurtagarði Rósu og afar vistvænt ræktað. Það er gott með pipar og steikt í smjöri. Einfalt. Svo borðaði ég zucchini og síld en þó meira af zucchini.
 
Ég er ekki enn farinn að borða berin. Eftir matinn fór ég fyrst út og vökvaði meira, spekúleraði og talað svo við vingjarnlegan gróður. Það lítur út fyrir að það verði nokkrir svona skammtar af jarðarberjum næstu daga eða jafnvel vikur. Sama með bláberin. Þegar ég verð búinn að blogga ætla ég að borða þetta með slettu af ís. Kannski hita ég lögg af kaffi.
 
Ég tók ekki mynd af jarðarberjaplöntunum en hér eru bláber næstum á stærð við sykurmola. Þau get ég tínt eftir einn eða tvo daga.

Þessi verða líklega góð um næstu helgi. Ég verð að eiga ís um næstu helgi líka og kaffi til að renna á könnuna.
 
Ef það verður sæmileg sól á næstu dögum, helst á næstu vikum, þá verða líka brómber. Ég þekki lítið til brómberja en veit þó að það þurfa að vera mikil sólarsumur ef það eiga að verða brómber. Vinnufélagar mínir gáfu mér tvo runna þegar ég varð sjötugur en það er eitt af mörgu sem ég er statt og stöðugt að segja frá.
 
Svo fer títuberjatíminn að ganga í garð. Títuberin vaxa best á svæðum þar sem skógur hefur verið felldur og hann Ingemar nágranni er búinn að sýna mér bestu títuberjasvæðin. Þá verður búskapur í frystinum get ég lofað. Það vex mikið af vítamínum og mínerölum og antíoxidöntum á Sólvöllum og nágrenni. Elli kerling hlýtur að eiga  erfitt með að komast að fólki á svona svæðum.
 
Já, alveg rétt. Ég tíndi niður síðustu eplin áðan. Svo þarf ég að fá uppskrift að deigi til að hafa í eplapæið. Reyndar duga eplin ekki þannig að ég ætla að nota rabarbara í pæið líka. Þá líklega heitir það blandpæ. Ávextirnir skulu alla vega vera frá Sólvöllum og best ef haframjölið verður af ökrunum í Krekklingedalnum.
 
En nú er ég held ég að verða elliær í skrifum mínum. Það er tími kominn á eftirréttinn en ég held að ég sleppi kaffinu. Gangi ykkur allt í haginn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0