Um verkin í sveitinni

Hér er tilraun til að blanda samann jarðneskum veruleika og svolitlum andlegum spekúleringum.
 
 
Ég talaði við Ísland aldeilis nýlega og þá var mér sagt að ég ætti að skrifa meira svo að fólk gæti séð hvað ég hefði fyrir stafni. Í næst síðasta bloggi talaði ég um að gera áætlun fyrir nýja árið og svo talaði ég um eldivið, en ég er einmitt þar núna. Ég er að kljúfa við til upphitunar. Ég talaði líka um það í næst síðasta bloggi að þegar ég er að kljúfa við geti ég látið hugan svífa yfir lönd og höf og langt út í himingeiminn. En það sem ég talaði ekki um í því bloggi var að ég þarf ekki endilega að láta hugan leita út á við, það er ekki verra að láta hann leita inn á við. Ég er nokkuð vel sáttur við mínar innri lendur og er ekki smeykur við að dvelja þar.
 
 
Þetta sem við sjáum á myndinni hef ég fyrir framan mig þegar ég er að kljúfa eldivið. Ég læt hugann gjarnan leita inn á við þegar ég er í ró og næði við þessa vinnu mína. Viðarkljúfurinn er afar hljóður og hann truflar ekki. Áður en ég byrjaði að skrifa þetta nú á mánudagskvöldi hlustaði ég á messu í sjónvarpinu, messu frá því um síðustu helgi fyrir jól. Ég sá svolítið af þessari messu þá og heyrði en var upptekinn við annað, eins og til dæmis að setja upp jólaljós og því vildi ég sjá hana aftur. Hún var hógvær þessi messa og látlaus og enginn stal senunni frá neinum öðrum. Allt var gert í svo mikilli einlægni að ég varð snortinn. Prestur talaði um daglega framkomu okkar og hvernig við til dæmis mættum nágrannanum í hversdagslífinu. Ég skildi að ég gæti vandað mig betur í öllu sem ég hugsa, segi og aðhefst. Biskup nokkur talaði um kyrrðina, kærleikann, óttann -og að þrá. Hann gekk meira inn á við. Þetta hefur áhrif á bloggið sem ég er að skrifa akkúrat núna og það var meiningin.
 
Nú skrifa ég þetta undir mynd af viðarstafla. Mynd og texti passar kannski ekki alveg saman eða hvað? En vinnan við viðarstaflan er hljóðlát. Fyrir einum tveimur árum sagði nágranni minn við mig að ég skyldi lána viðarkljúfinn hans því að þá gæti ég lokið þessu á nokkrum klukkutímum. Ég lánaði hann aldrei því að þá hefði ég líka þurft að lána traktorinn hans og  þá hefði þetta bara orðið ógnar hraði og hávaði. Ég hefði orðið stressaður og ringlaður í kollinum og ekki notið verksins.
 
 
Þegar ég stend við viðarkljúfinn hef ég þetta hins vegar fyrir aftan mig. Ég hef nú þegar klofið um það bil helminginn af þessu. Það er gott að hafa góða viðargeymslu. Viður sem rignir úti og sólbrennur þess á milli verður ekki góður viður. Ekki heldur viður sem liggur á jörðinni undir segli eða ábreiðu. En viður í vel loftræstu húsi verður góður viður. Hún Fanney Antonsdóttir frá Hrísey gaf mér fyrir nokkrum árum bók um eldivið, alveg frábæra bók. Ég gerði samt ekki eins og bókin segir því að samkvæmt henni á ég á ekki að geyma óklofinn við lengi. Það er samt betra en að láta veður og vinda skemma hann. Nú hef ég lofað sjálfum mér að gera svona aldrei aftur. Áætlunin mín segir að ég gangi frá þessum viði og lagi vel til í geymslunni fyrir lok mánaðarins. Síðan þarf ég að fella ein tíu til tólf stór tré, hreinlega til að grisja. Ég þarf ekki á öllum þeim viði að halda og ég vil ekki taka svo langan tíma í þessa vinnu þannig að ég ætla að gefa tveimur nágrönnum mínum hluta af þessum trjám. Í fyrra felldi ég 36 tré, þau sem ég er að kljúfa núna, en þau voru mikið minni en þau sem ég ætla að taka í vetur.
 
Fyrir miðri þessari mynd lengst frá er svartur ferkantaður reitur. Þar á að koma gluggi. Spæturnar hafa svo gert götin á veggpappann. Kannski eru þær að minna mig á að það sé kominn tími til að setja gluggann í vegginn í stað þess að láta hann standa upp við vegg í geymslunni eins og hann gerir núna ásamt öðrum glugga sem líka á að vera á þessu húsi.
 
 
Það hefur verið ógnar mikill reyniviður í Sólvallaskóginum en nú er ég að veraða búinn að losa mig við hann. Fyrir mér er reyniviður sem illgresi. Hann veður yfir og skemmir annan trjávöxt af mikilli hörku. Samt er reyniviður mjög fínn þar sem hann passar og þar sem slegið er umhverfis hann. Mest af þeim trjám sem ég felldi í fyrra var reyniviður og svo þegar engin reyniviðartré verða eftir í skóginum til að framleiða ber, verður leikurinn léttari. Ég hreinsaði líka burtu eitthvað töluvert á annað þúsund reyniviðarplöntur í fyrra. Slagnum við reyniviðinn er ekki lokið en ég skal ekki gefa mig ef skaparinn gefur mér tíma og heilsu. Ég lofa.
 
Kuppurinn hér fyrir ofan er nefnilega reyniviðarkuppur sem ég var að kljúfa í gær. Mikið af reyniviði er erfitt að kljúfa og þessi kuppur segir allt sem segja þarf um það.
 
 
Það endar með því að exin verður að vera með til að ná kubbunum í sundur. Allur annar viður sem ég fæ úr skóginum er þjáll að eiga við.
 
 
Viðarkljúfur að verki. Þetta þyrfti að vera hreyfimynd en ég ræð ekki við það einsamall þar sem báðar hendur verða að vera á tækinu þegar það er í hreyfingu. Það er mikið öryggisatriði.
 
 
Þannig er nú það. Ég er einn heima þar sem Susanne er í tuttugu og fjögurra ára afmæli sonar síns í Eskilstuna. Ég valdi að vera heima og halda áfram með mitt. Þegar ég er kominn í vinnugalla sem dugir til að halda á mér hita og er kominn í vinnuvetlingana og með húfuna á höfuðið segi ég oft að ég sé eins og heysekkur. Susanne þverneitar því hins vegar að ég sé eins og heysekkur. Ef ég væri kominn í fína veislu í Róm, París eða New York myndi ég trúlega ekki vita hvaða hnífapör ég ætti að byrja á að nota eða eða hvernig ég ætti að leggja þau á diskinn þegar ég væri búinn að borða af honum. Spurning hvort ég vissi almennilega hvernig ég ætti að nota servíettuna. Kannski mundi ég ekki heldur vita hvað ég ætti að segja. En mér þykir vænt um allt hér og mér líður vel með það sem ég hef. Þannig er nú það.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0