Minn gamli nágranni Ottó Þorgilsson

Þegar við Valdís fluttum til Hríseyjar var ég rúmlega tvítugur maður. Þá var mikið af minni mótorbátum í eynni og margar trillur. Ég fór mér mjög varlega í byrjun innan um þetta fólk sem hafði lifað lífi sem var mér mjög framandi og í mínum augum voru sjómennirnir hreinar hetjur. Níunda apríl veðrið 1963 var þá nýlega afstaðið og var heldur betur í fersku minni fyrir marga á Eyjafjarðarsvæðinu sem þá þreyttu mikla raun við að bjarga sér í land og margir komust heldur ekki í land. Ottó Þorgilsson var einn þeirra sem barðist við þetta veður og náði landi. Það eru ár og dagar síðan og Ottó fór í sína hinstu heimferð að kvöldi jóladags síðastliðinn.
 
Síðdegis daginn eftir settist ég við tölvuna og rúllaði niður skjáinn og um leið og ég sá ljóst hár Ottós birtast á skjánum vissi ég það, ég hefði ekki einu sinni þurft að lesa skilaboðin hennar Dísu, Ottó var dáinn. Það var ekkert sem kom mér á óvart þar sem ég vissi að þessi stund nálgaðist, en þar sem ég sat við tölvuna og horfði á andlit hans fann ég fyrir djúpri sorg. Það eru svo ótvíræð vegamót þegar menn deyja. Þeir sem eftir lifa halda áfram eftir veginum en hinir fara aðra leið og við hin sjáum þá aldrei meir.
 
Það var í byrjun sjöunda áratugarins sem við Valdís bjuggum með Valgerði litla í Kelahúsinu við Austurveginn í Hrísey. Í næsta húsi sunnan við bjó sjómaðurinn Simmi með henni Gunnhildi sinni en í þar næsta húsi bjuggu Ottó og Dísa. Ég þekkti þessa menn alls ekki neitt. Ég hafði bara séð þá ganga framhjá og jafnvel aldrei talað við þá. Þeir voru sjómenn á minni mótorbátunum í eynni. Það var mikill snjór og allar götur í Hrísey voru ófærar og það stóð ekki til að ryðja þær að sinni. Alveg óvænt varð olíutankurinn við Kelahúsið tómur og hann reyndist lekur. Kuldi byrjaði að sverfa að. Í örvæntingu minni spurði ég sjálfan mig hvað ég gæti gert. Axel, sem annaðist olíusöluna í eynni, hafði sett olíu á tunnu fyrir mig og stóran sleða hafði ég fengið lánaðan en mér var engan veginn fært að draga tunnuna heim einsamall.
 
Ég bankaði að lokum upp á hjá Simma og Ottó og bað um hjálp. Það var svo sannarlega sjálfsagt og við drógum heim tunnuna og stilltum henni upp við tankinn. Þegar þeir síðan gengu heim á leið sneri Ottó sér við og sagði; ef það er eitthvað, bankaðu þá bara upp á góurinn. Þessi orð hans man ég svo vel enn í dag og ég man álíka vel hvað ég var þakklátur fyrir þessi orð. Það var eins og ég yrði meiri Hríseyngur eftir að hann sagði þetta.
 
Mörgum árum seinna bankaði Ottó upp á, þá við Sólvallagötuna í Hrísey, og spurði hvort ég vildi koma með honum yfir að Skarfabríkinni vestan megin við sundið. Svo fórum við þangað á litla bátnum hans með utanborðsmótornum. Þá var hann hættur á sjó sem atvinnumaður. Svo fórum við upp að skarfabríkinni á litlu trillunni hans, Dísu, og ætluðum að bíða þar þar til skarfarnir myndu koma og setja sig á bríkina.
 
Allt í einu og alveg óvænt rauk hann upp með hvassan suðvestan vind, svo harðan að það hvítnaði samstundis í báru. Við verðum að fara strax heim sagði Ottó án alls asa og við lögðum þar með af stað. Ég sat fram í og horfði á Ottó stýra bátnum. Allt í einu sá ég hvar hann tók viðbragð, hægði á og stýrði bátnum snarlega móti bárunni, og svo fengum við hvítfryssandi sjó yfir okkur og urðum gegnvotir. Þarna sá ég góðan sjómann bregðast leiftursnggt og rétt við. Þegar heim var komið sagði hann mér að þarna hefði verið nauðsynlegt að bregðast rétt við, annars hefði getað farið illa.
 
Oft fór ég með Ottó umhverfis eyna á litlu trillunni hans, henni Dísu. Líklega var það í fyrstu ferðinni sem hann fór nokkurn spöl norður fyrir eyjarendann og stoppaði þar. Sjór var spegilsléttur en örhæg undiralda. Það var sem hann biði einhvers. Allt í einu kom viðbjóðslegur dökkur kollur upp úr sjónum nokkra faðma frá og mér fannst blóðið kólna í æðum mér. Þetta er Brúnka sagði Ottó stillilega. Svo færðist Brúnka í kaf aftur og þegar hún var að hverfa undir yfirborðið risu þarastrengirnir upp og kollurinn líktist einhverjum ógurlegum risa með loðið höfuð sem hefði stungið kollinum upp úr sjónum í nokkur augnablik. Hann var ekki að reyna að hrekkja mig, hann var bara að sýna mér Brúnku. Hann þekkti svæðið umhverfis Hrísey og Hríseyjarfjörurnar eins og fingur sína og vissi nákvæmlega hversu nærri hann mátti koma á hverju stað. Þetta var sjómaðurinn Ottó og það eru margar sögur sem koma upp í huga mér þegar ég skrifa þetta. Ég gæti skrifað mikið, mikið meira um þennan sjómann sem síðar varð verslunarmaður í fjölda ára en sjómaðurinn lifði alltaf í honum. Hann sagði ekki frá svo miklu en ég veit að þegar sem mjög ungur sjómaður lenti hann í atburðum á sjó sem hljóta að hafa mótað persónuleika hans mikið.
 
Ottó fór aldrei fram með offorsi. Hann fór ákveðið en stillilega fram, virtist alltaf vita hvað hann var að gera og stundum öfundaði ég hann af þessum eiginleika. Ég get rétt ímyndað mér hversu tryggur fjölskyldufaðir hann var og hann var einstaklega tryggur vinur. Við vorum vinir og mér hefur alltaf þótt vænt um hann síðan hann hjálpaði mér við að koma olíunni heim og han sagði; ef það er eitthvað, bankaðu þá bara upp á góurinn. Ég sakna þín Ottó, það er svo óumdeilanlegt að vegir okkar hafa gengið til ólíkra átta nú um sinn. Þakka þér fyrir svo margt sem við baukuðum saman og fyrir mörgu sjóferðirnar sem þú bauðst mér að taka þátt í. Og að lokum; þú áttir nokkurn þátt í að móta minn persónuleika því að ég fann góða fyrirmynd í þér. Ottó verður jarðsunginn frá Akureyrarkirkju í dag, fimmtudag, kl. 13,30. Farðu í friði vinur.
 
 
Sumarið 2012 komu Ottó og Dísa í heimsókn til okkar á Sólvelli. Hér eru þau að spássera í Sólvallaskógi.
 
 
Ottó kom ekki í heimsókn til Svíþjóðar bara til að dingla sér eins og hann sagði oft. Hann hjálpaði mér úti við með eldivið og fleira og hér er matarhlé.
 
 
Og hér erum við á ferðalagi á ferðalagi skammt norðan við Örebro. Bærinn Nora og Noravatnið í baksýn.
 
 
Við sund milli lands og eyjar í Vatninu Hjälmaren.
 
 
 
 


Kommentarer
Brynja

Falleg lýsing á Ottó Guðjón minn og umhverfinu í Hrísey
kær kveðja
Brynja

Svar: Þakka þér fyrir Brynja mín og með bestu kveðju til þín og þinna.
Gudjon

2018-01-04 @ 11:30:18
Dísa gamli nágranni

Þakka þér fyrir þessi fallegu orð Guðjón minn.
Gleðilegt nýtt ár til ykkarog kærar kveðjur í bæinn.

Svar: Og bestu kveðjur til þín Dísa frá Sólvallabænum og að sjálfsögu til ykkar allra.
Gudjon

2018-01-05 @ 21:33:46


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0