Að elska hana Jannicke

Konan mín var óróleg í nótt varð ég var við. Eftir svo góðan dag sem hún hafði í gær varð ég svolítið svekktur vegna þess að ég átti mér þann draum í gær að nú yrði hún hressari tvo daga í röð. Það yrðu þáttaskilin sem við bæði biðum eftir. En svo varð nóttin svona.
 
Svo kom morgun og morgunverður og ég fylgdist með og vonaðist eftir breytingu sem ég varð ekki var við. Valdís ætlaði til fótsnyrtis inn í Örebro strax eftir hádegið og þegar hún byrjaði að skipuleggja eitthvað varðandi þá ferð, þá áttaði ég mig. Það er nefnilega svo að þessi fótsnyrtistofa er við all fjölfarna götu og það er ekki hægt að komast alveg að innganginum á bíl og það er ekki heldur hægt að stoppa lengi framan við húsið. Það verður að ganga yfir 50 metra, heldur upp í móti, og fyrir þá sem eru með súrefnisvél hangandi á öxlinni getur sú vegalengd verið skelfilega löng. Enginn gengur með súrefnisvél á öxlinni nema eitthvað talsvert sé að og súrefnisvélin getur ekki bjargað hverju sem er.
 
Þetta var í  fyrsta skiptið sem Valdís yfir höfuð fór út af heimilinu eftir tveggja vikna sjúkrahúslegu og í fyrsta skipti sem hún fór með þessi tæki hangandi á öxlinni. Hún kom heim með þau á öxlinni en nú var hún að fara. Mér fannst ljóst að óróleiki næturinnar byggðist á þessu. Ég lái henni ekki. Ferðin á stofuna gekk að óskum. Ég lagði bílnum í hasti eftir að Valdís yfirgaf hann og flýtti mér svo á stofuna til að kanna stöðuna. Þar sat hún dálítið föl en virtist í nokkuð góðu ástandi. Ég fór til að gera inn kaup og fleira og þegar ég var rétt búinn með það hringdi Valdís og sagðist líka vera tilbúin. Allt passaði saman. Ég sit á bekk hérna úti og sé þegar þú kemur sagði hún og var hin rólegasta að heyra. Jahá, nú þótti mér týra.
 
Þegar Valdís var kominn inn í bílinn og ég búinn að keyra fyrir fyrsta hornið varð henni að orði að hún væri mikið fljótari að kasta mæðinni núna en bara fyrir fáeinum dögum. Já, var það ekki, hún betri annan daginn í röð, loksins. Ég veit ekki hvort hún er alveg sammála því sem ég segi hér. Hún á enn sem komið er svolítið erfitt með að treysta því að kominn sé skriður á batann.
 
Kona heitir Gunvor og vann með mér í Vornesi í ein 13 ár. Hún sendi mér skilaboð í gær um að systir hennar væri að fara til Íslands og spurði mig hvað hún þyrfti að vera vel birg af fötum. Í svari mínu til hennar sagði ég henni frá veikindum Valdísar. Hún sendi mér línur í dag þar sem hún sagði að fimmtugur sonur sinn hefði greinst með krabbamein fyrir einu og hálfu ári og það væri ekki hægt að lækna það en það væri hægt að halda því niðri með lyfjum.
 
Hann hefði fengið blóðtappa í bæði lungu eftir meðferðina og fleira var svo líkt með sjúkrasögu Valdísar að ég varð hissa. Nú á föstudaginn var byrjaði þessi maður að vinna aftur eftir eins og hálfs árs veikindi. Öll lýsing hennar á veikindum sonar síns var svo lík því sem verið hefur hjá Valdísi að ég varð hissa. Jahérna, það er sko ekki öll von úti. Ég ætla að spyrja Gunvor nánar út í þetta.
 
*

Tvo síðastliðna vetur var mjög kalt, mikið kaldara en veturinn sem nú er að líða, en kuldinn stóð alls ekki eins lengi og núna. Annan hvorn þennan vetur beið ég dögum saman eftir veðurspánni og vonaði svo innilega að núna færi að koma hlýindaspá. Svo kom þessi hlýindaspá bara allt í einu eins og þruma úr heiðskýru lofti. Það var hún Jannicke veðurfræðingur sem var með veðrið í sjónvarpi það kvöld og ég man svo vel að þegar hún hafði lokið spánni sagði ég að ég elskaði þessa konu fyrir þessa fallegu spá.
 
Núna hefur verið gert ráð fyrir hlýnandi veðri í nokkra daga en engin virkileg hlýindaspá komið fyrr en nú í kvöld. Og hver var ekki með veðurspána í sjónvarpinu í kvöld? Auðvitað hún Jannicke. Aftur þótti mér vænt um hana því hún spáir 15 til 20 stiga hita í næstu viku. Valgerður kemur hingað á laugardaginn þannig að landið kemur til með að taka vel á móti henni.


Kommentarer
Björkin.

Guð og englarnir vaki yfir ykkur og gefi ykkur styrk.Stórt knússssssssssss

2013-04-10 @ 23:01:02
Þórlaug

En hvað er gott að heyra að allt er á réttri leið og hvað Valdís er sterk að leggja í að fara á stofuna.
Kærar kveðjur.

Svar: Það var nauðsynlegt fyrir hana að fara þangað þar sem fæturnir höfðu ekki gott af sjúkrahúsvistinni.
Kærar kveðjur héðan
Gudjon

2013-04-10 @ 23:13:37
Valgerður

Hlakka til að geta verið með ykkur og fengið að stjana doldið við ykkur.
VG

Svar: Takk, það lítur vel út.
Gudjon

2013-04-11 @ 02:02:34


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0