Með óafmánlega mynd í hugskotinu

Ég sagði frá því í gær að við ætluðum að horfa á myndina Sigla himinfley. Þetta er engin mynd sem getur safnað að sér gullbikurum eða öðrum verðlaunum á heimsvísu. En það er kannski þess vegna sem hún hafði svo ósköp góð áhrif á okkur í gærkvöldi og skilaði okkur á friðsælan hátt til hvíldar í bólunum okkar. Það má mikið vera ef ekki Óli vinur svefnsins var undir áhrifum af myndinni líka, svo friðsæll sem hann var þegar hann fékk okkur til að sofa svo vel og lengi.
 
Ég hafði gaman af því þegar Einar skipstjóri sótti Gamla mátulega fullan út í eyjuna og þeir ræddu um áfengi og sungu Vestmannaeyjasöngva á leiðinni í land. Gamli sagði að svo margar flöskur væru fullar af sorg og maður vissi aldrei hvaða flöskur það væru. En svo sagði hann að allar hans flöskur hefðu verið fullar af söng og gleði og um leið og hann sagði það var allt hans andlit fullt af allri þeirri sorg sem ein manneskja getur borið.
 
Og hvers vegna í ósköpunum gat ég haft gaman að því? Jú, ég hef svo ótal sinnum notað einmitt þetta atriði í fyrirlestrum á meðferðarheimilinu. Og alkhólistarnir sem samstundis þekkja sjálfa sig í þessu með sorgina verða fyrir sterkum áhrifum og skilja það að alkohólistinn gerir bæði meðvitað og ómeðvitað allt sem hann getur til að þurfa ekki að koma í snertingu við þessa sorg, sorgina sem er fólgin í því að hafa mistekist að lifa lífinu sem þeim var gefið. Það eina sem að lokum getur hjálpað þeim er að upplifa ennþá meiri sorg og hörð svipuhögg afleiðinganna. Síðan getur nýtt líf byrjað. Sorg gamla var að vísu mest tengd skipsflaki í fjörunni sunnar á heimaey þar sem sjómennirnir synir hans höfðu farist, en að allar hans flöskur hefðu verið gleðinnar flöskur var erfitt að sjá. Sigla himinfley gaf mér sem sagt inlegg í ákveðna fyrirlestra.
 
*
 
Þegar við lögðum okkur í gærkvöldi fékk Valdís hóstakast og það var eins og það væri þarfur hósti. Svo tók svefninn við. Í morgun fékk hún kröftugt hóstakast sem stóð stutt yfir. Stuttu síðar sagði hún að það hefði losnað um eitthvað úr brjóstinu. Síðan var hún ný manneskja. Meðferðin hlaut loksins að vera að verka. Valdís er ennþá við mun betri heilsu en til dæmis í gær. Samt er ekki hægt að tala um neina ágætis heilsu. Alls ekki. Hún er búin að fá tvær heimsóknir í dag, all langar heimsóknir, og það er kannski nánast full mikið fyrir hana. En ef það verður líka framför á morgun, ja -þá verð ég langt frá allri lífsins sorg.
 
Þegar það var ljóst í morgun að dagurinn í dag yrði betri dagur fór ég að sækja blaðið. Ég sá að fuglarnir höfðu verið duglegir við að éta matinn sem við hengdum upp í trjágreinar í gær. Gaman. Valdís batt matarboltana í grænt garn en ég hengdi þá upp. Svo dáðist ég að veðrinu, leit á móti sólinni í suðaustri, næstum þreifaði á logninu og svo leit ég í suðvestur. Vindmyllurnar þrjár sem sjást héðan í suðvestri í all nokkurra kílómetra fjarlægð stóðu kyrrar, eða svo kyrrar að það þurfti að horfa lengi á þær til að sjá örhæga hreyfingu. Þá er logn.
 
Þegar horft er á átt að þessum vindmyllum ber eina skógi vaxna hæð yfir aðra í all nokkurri fjarlægð og það er útsýni sem er ómótstæðilegt. Ég minntist margra svona sjónarhorna upp í Dölum. Þar sást þó mikið lengri vegalengdir, allt upp í 60 kíómetra, og þar tók við ein hæðin af annarri og einn ásinn af öðrum, allt skógi vaxið. Sem sagt allt grænt af lífi og víða vötn inn á milli. Sveitabæir og akurlönd hið næsta en sjást svo ekki þegar fjarlægðin eykst. Þar er hægt að finna sérstaka útsýnisstaði til að geta notið þessa og ég fékk næstum ómótstæðilega löngun til að fara þarna upp eftir og geta eytt degi í að heimsækja þessa staði sem ég veit um. Nakin fjöll og fyrnindi geta verið afar falleg en lægri fjöll, ásar, hæðir og hólar þar sem hár skógur þekur allt frá láglendinu á milli og upp yfir alla fjallatoppa, það gerir mig ástfanginn af landinu.
 
Ég fann að betra ástand heima jók á þessa löngun og mín stutta morgunganga eftir blaðinu var fyllt af notalegu lífi. Fyrsta eiginlega vorveðrinu á þessu vori er spáð á afmælisdaginn minn. Það verður notalegur dagur hugsaði ég og ég minntist líka orða málarans sem kom inn á Bjarg í gær. Hann spurði hvað ég væri gamall og ég svaraði. Þá horfði hann undrandi á mig og sagði: Þú lítur "ósvífið" frísklega út. Það væri betur að því væri jafnar skipt á milli okkar Valdísar. En kannski förum við samt sem áður í ferð upp í Dali í sumar til að sjá yfir Siljan frá stað sem við þekkjum bæði til, eða á einhvern af útsýnisstöðunum sem á góðviðrisdegi skilja eftir óafmánlega mynd í hugskotinu.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0