Angalangur

Valdís fékk heimsókn hingað á Sólvelli í dag. Það kom hjúkrunarfræðingur frá lungnadeild sjúkrahússins í Örebro til að kanna aðstæður og til að sjá hvernig Valdísi reiddi af. Hann gaf henni góða einkunn og sagði að útlit hennar væri mikið betra en það var meðan hún var á sjúkrahúsinu. Hann útskýrði eitt og annað eins og til dæmis að það væri ekki lífshættulegt að verða móður þó að það væri ekki endilega notalegt, að það gæti tekið líkamann hálft til eitt ár að eyða blóðtappa úr lungum og margt fleira, flest uppörvandi, hafði hann að segja. Þegar ég sagði að við mundum nú ekki dansa meira sagði hann að ég skyldi fara rólega í að fullyrða það. Svo þótti honum nýbakað rúgbrauð afbragðs gott.
 
Hann er skemmtilegur þessi kall, Tony. Kannski er hann um sextugt. Valdís var búin að segja mér frá honum á sjúkrahúsinu áður en ég sá hann og sagði að hann væri líkur sjóara. Svo kom að því að ég fékk að hitta hann og þegar hann gekk inn á stofuna til Valdísar fannst mér sem Stebbi grenó gengi inn á stofuna. Stebbi grenó var útgerðarmaður á Dalvík og mikið ef hann var ekki ættaður frá Grenivík. Tony hjúkrunarfræðingur kann að umgangast fólk sem á í erfiðleikum og hefur margt gott að segja.
 
*
 
Nú að allt öðru efni
 
Sá sem getur sagt mér hvað þetta er getur fengið nýbakað rúgbrauð ef hann eða hún kemur að Sólvöllum. Litla rúgbrauðsgerðin á Sólvöllum hefur stækkað við sig og tekur nú ekki minna en tvær uppskriftir í einu. Það er jafn mikið að þvo eftir tvær og eina og það er sami hitinn á bakarofninum hvort heldur það eru ein eða tvær uppskriftir sem eru í ofninum yfir nóttina.
 
 
Þessi litla snjótutla þarna er það síðasta af snjónum framan við aðalinnganginn hjá okkur. Valdís fylgdist með snjónum þarna á hverjum degi og gaf mér oft skýrslu. Nú hverfur snjórinn framan við stéttina í dag sagði hún í gærmorgun og það gekk eftir. Hins vegar er snjór ennþá bakvið húsið og meira að segja á því þaki sem gefur mesta forsælu. Svo er víða grjótharður snjór inn í skógi. En hvaða fréttir eru þetta svo sem þegar snjódýptin norðan við Sólvallagötuna í Hrísey var 2,5 til 3 metrar um páska og svo skilst mér að það hafi snjóað eftir það. En hvað um það, við erum alveg sátt við að hafa ekki djúpa skafla hér, það er að segja; við höfum aldrei skafla.
 
 
Þetta er maðurinn sem sagði við mig um daginn að ég liti "ósvífið" frískelga út. Að hann kíkti inn fyrr í vikunni varð til þess að hann fór að mála út á Bjargi. Svo þegar hann var byrjaður varð ég alveg ringlaður og vissi fyrst ekkert hvað ég ætti eiginlega að gera. Öll min vinnuplön hreinlega hrundu. Það leystist svo af sjálfu sér og ég varð ekki verkefnalaus, mikið langt í frá. Svo verð ég að viðurkenna að hann gerir þetta af mikið meiri fagmennsku en mér hefði nokkru sinni tekist. Og fljótur er hann. Ég fann fyrir miklum létti þegar ég þurfti ekki að gera þetta.
 
 
Angalangur datt mér í hug þegar ég sá þessa mynd áðan. Hún minnti mig líka á málara einn í Hrísey sem líka var ótrúlega duglegur við að ná upp í loft þó að hann stæði á sléttu gólfinu.
 
Nú er ég farinn að geyspa löngum geyspum og þá er ekki að vænta mikils andríkis við skriftir. Það er mál að ég leggi mig og ég þarf að vakna nokkuð snemma í fyrramálið þar sem við Valdís þurfum að skreppa til Fjugesta. Ég hlakka til hlýnandi daga og tíðra ferða út í skóg til að fylgjast með brumum sem nú fara að verða þrýstnari með degi hverjum. Að lokum springa úr og mynda þetta óumræðilega haf af grænsku sem ætlar að hreinsa andrúmsloftið og framleiða súrefni á degi hverjum langt fram áhaust.


Kommentarer
Björkin.

Bjarg er að verða rosa flott.Duglegur ertu mágur minn.Stór faðmur til ykkar og knússsssssss.

Svar: Takk, takk mágkona.
Gudjon

2013-04-12 @ 13:17:37


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0