Að sleppa deginum inn

Klukkan er hálf átta nú í morgunsárið þegar ég dreg frá austurglugganum til að hleypa nýjum degi inn í svefnherbergið. Lífið tifar áfram á sinn hljóðláta en ófrávíkjanlega hátt. Tvær klukkur tifa nálægt mér, önnur segjandi tikk og hin takk. Aðra klukkuna þarf ég að leggja til hliðar og helst þyrfti ég að setja hljóðdeifi á hina. Þá yrði kyrrðin fullkomin utan suðið í eyrum mér. Sólin berst við skýjafláka í austri. Annað veifið skín hún sterkt inn um gluggann á móti mér en inn á milli hverfur hún og gráminn hylur hana. Vorið berst fyrir tilveru sinni. Um sama leyti í fyrra var ég trúlega á leið út í skóg til að fylgjast með fallegu beykilaufunum fæðast í þúsundatali á ótal greinum, en núna eru brumin bara hálf þrútin og það virðist verða bið á fyrstu fæðingunum.
 
Í Kyrrð dagsins í dag segir að "Fallega endurgjalda smáblóm jarðar auganu sem horfir". Þau eru ekki mörg smáblómin sem hafa sigrast á veðrinu og stungið upp kollnum, en þó eru krókusarnir komnir upp vítt og breitt kringum húsið. Einn bellis sá ég líka í fyrradag. Þegar þessi orði úr bókinni minntu mig á að líta út um gluggann og líta niður á skógarbotninn sá ég ekki betur en skógarsóleyjarnar séu að byrja að stinga upp kollinum líka. Ég heyri að einhver er kominn á stjá í húsinu og því er best að ég komi mér líka af stað og gái að því hvað þessi morgun komi til með að bjóða upp á.
 
*  *  *
 
 
Nú er að líða að miðnætti og dagurinn bauð alla vega upp á það að borða hádegismatinn úti. Þarna vinstra megin við borðið sitja þau Kristinn dóttursonur og hans norska kona, Johanne. Valgerður bendir á léttreyktan lambshrygg sem var á borðum hjá okkur. Léttreyktur lambshryggur er fyrir okkur meira sem jólamatur en nú borðuðum við hann býsna langt frá uppruna sínum undir berum himni. Nokkrum mínútum eftir að við höfðum lokið við matinn dró fyrir sólu og það varð hrollkalt. Þá drógum við okkur inn og kveiktum upp í kamínunni.
 
 
 
Síðdegis eftir að Kristinn og Johanne voru lögð af stað til Noregs komu óvæntir gestir. Þannig á það að vera að fólk geti bara komið út í sveit og fengið sér kaffibolla með heimafólki. Það gerðu þau líka í dag Auður og Þórir. Það gerðum við líka í Hrísey áður en sjónvarpið tók völdin og áður en fimmtudagurinn varð einnig að sjónvarpsdegi. Það var góður siður.
 
 
Svo talaði ég um skógarsóleyjar í morgun. Við vorum að rölta hér í skógarjaðrinum í dag og þá var ekki hægt að komast hjá því að sjá að skógarsóleyjarnar eru farnar að brosa svo fallega móti köldu vorinu. Ég á úlpu, húfur, peysur og vetlinga en skógarsóleyjarnar hafa ekkert af þessu. Samt brosa þær.
 
Klukkan er komin yfir miðnætti og ég er eins og óþægur krakki að sitja ennþá uppi. Óli er sestur að í höfðinu á mér og ég veit varla hvað ég heiti eða er að skrifa. Ég ætla að hlýða kalli hans.


Kommentarer
Björkin.

Góða nótt elsku mágur minn.

2013-04-28 @ 01:59:22


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0