Góð var rjómatertan og gott var allt hitt

Ég er orðinn afar syfjaður og ef eitthvað vit væri í mér ætti ég að fara að sofa. En sannleikurinn er sá að ég hef bloggað eftir marga daga sem hafa haft minna umleikis en dagurinn í dag. Valgerður dóttir okkar kom á brautarstöðina í Hallsberg rétt fyrir hádegi og þegar ég kom auga á hana þarna á brautarpallinum fannst mér fyrst sem Valgerður á Kálfafelli, amma hennar, væri þarna komin á sínum yngri árum. Það var dálítið sterkt að sjá þetta og það þeytti huganum ein sextíu ár aftur í tímann þar til við mættumst og heilsuðumst.
 
Ég þurfti í kaupfélagið í Hallsberg og kaupa ein fjögur atriði sem ég hafði á tossamiða. Mót ásetningi mínum urðu atriðin líklega þrisvar sinnum fleiri en það sem ég hafði skrifað upp þannig að ég gaf fljótlega skít í miðann. Svo var Valgerður með mér og ég fann að hún keypti af allt annarri þekkingu og hugsun en ég. Gróft sagt vil ég geta gengið að hlutunum á allöngu færi, þrifið upp og sett í innkaupakörfuna. Valgerður kannaði hins vegar hlutina og valdi gaumgæfilega úr úrvalinu. Ég á ýmislegt eftir ólært.
 
 
Ég keypti rjómatertu en þegar ég ætlaði að kaupa smurbrauðstertu líka sagði Valgerður að hún mundi útbúa smurbrauð sjálf og þess vegna fór hún eina aukaferð um búðina og keypti það sem til þurfti. Svo varð það og þegar við komum heim að Sólvöllum byrjaði hún á veislubrauði strax eftir að hún var búin að fá einn súpudisk. Gamli, í þessu tilfelli ég, átti nefnilega sjötíu og eins árs afmæli í dag. Við áttum von á tveimur gestum og áður en þeir komu náði ég þessari mynd af þeim mæðgum. Mynd sem tekin var af okkur öllum við boðrið var ekki nothæf.
 
 
Ég náði líka mynd af veisluborðinu áður en fólk settist og örugglega hefur margur haldið upp á sjötíu og eins árs afmæli á lakari kjörumm en því sem við sjáum þarna á matarborðinu.
 
 
Svo varð ég afbrýðissamur og vildi fá mynd af mér líka. Þess vegna fór ég í fataskápinn og sótti mér bindi og svo tók Valgerður við myndavélinni. Ég reyndi að vera myndarlegur en sé núna að bindið var kannski ekki alveg nógu vel valið. En þegar ég horfi á myndina finnst mér bara sem við gömlu tökum okkur vel út. Kertið á kertastjakanum þarna í glugganum vinstra megin segir að ég hafi ekki verið allt of smekklegur í mínum tiltektum undanfarið.
 
Nú fara vorveður að bjóða okkur velkomin út því að þrátt fyrir allt, þá mun einnig vora í ár. Þá verður Valdís að notfæra sér það og fara að vinna að eigin sigrum í bataferlinu. Þó að einhverjir dagar hafi verið verri en dagurinn á undan, þá hefur samt sem áður bataferlið verið jákvætt. Línan í línuritinu hefir klifrað upp á við en hún hefur gert það með rykkjum og bakslagi á milli. Í heild hefur línan stigið upp á við.
 
Ég held að ég hafi aldrei áður bloggað svo syfjaður og ég er núna. Það verður fróðlegt að lesa þetta blogg yfir á morgun og reka augun  ambögurnar.  Og að lokum, góð var rjómatertan og gott var allt hitt. Þakka þér fyrir hjálpina Valgerður mín.


Kommentarer
Dísa gamli nágranni

Kærar kveðjur í Sólvelli, bæði afmæliskv.og aðrar

Svar: Takk og kveðjur til baka
Gudjon

2013-04-14 @ 01:04:09
Björkin.

Eigið svo góðan dag elskurnar mínar.

Svar: Takk sömuleiðis.
Gudjon

2013-04-14 @ 11:12:13


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0