Það var þungt en svo lýsti af degi

Það var þungt þegar Valdís vaknaði í morgun. Mér leist ekkert á. Hún sat lengi á rúmstokknum áður en hún reisti sig upp og ég sá vel að það voru átök fyrir hana að fara fram á bað. Ég setti morgunverðinn hennar á borðið og annað það sem hún þurfti á að halda, og þegar hún kom af baðinu settist hún við matarborðið og svo bara sat hún þar og var móð. Svo hóstaði hún og hóstaði aftur. Það var eins og það væri að leiða til einhvers og að lokum losnaði eitthvað. Ég sá útundan mér að hún varð allt önnur og eftir litla stund sagði hún að það hefði losnað einhver köggull og allt hefði breytst. Hvílíkur léttir. Hún var farin að tala um kvef og það leist mér ekkert á í því ástandi sem nú er.
 
Ég spurði hana hvað hún vildi á eftir morgunkorninu. Ef það væri til rúgbrauð, svaraði hún, og ef það væri til hangikjöt ofan á það. Það var til bæði rúgbrauð og hangikjötsbiti og hún fékk ósk sína uppfyllta. Svo byrjaði sjónvarpsmessan sem var frá kirkju lengst sunnan úr Smálöndum. Notaleg messa og falleg þó að ég muni ósköp lítið af henni. Það er heldur ekki málið að muna messuna, heldur áhrifin af henni meðan á henni stendur. Valdís var alls ekki sama manneskja og hún var fyrst í morgun, hún var svo mikið líflegri.
 
Síðan fór ég út á Bjarg að brasa við að innrétta hús, en þar vara ég líka búinn að vera snemma í morgun. Svo rann bíll í hlað. Sko til, oft fólk á Sólvöllum. Mikið gaman. Reyndar var það ekki alveg óvænt og rúgbrauðið var þegar niðursneitt á diski. Auður og Þórir voru komin.
 
 
Aufúsugestir sem fluttu til Örebro frá Akureyri á tíma þar sem það er sérstaklega mikilvægt fyrir okkur Valdísi að næra lífskraftinn, auðvitað sérstaklega Valdísi. Þórir heimsækir okkur ekki sem læknirinn okkar en það er eitthvað við þessi hjón sem gerir það að verkum að heimsóknir þeirra eru sérstaklega kærkomnar og þau skilja eftir sig glaðari Sólvelli.
 
 
Auður sýndi Valdísi myndir sem hún hafði á snertiskjánum og Valdís sótti í sig Ásmegin. Hún yngdist eftir því sem leið á daginn. Ég vona að hún hósti upp einhverju sem hún þarf að losna við á morgun líka. Þá er meðferðin við blóðtöppunum að skila árangri með nauðsynlegu hreinsunarstarfi. Stór þáttur í framförunum er fólk sem styrkir með nærveru sinni. Við þökkum ykkur fyrir himsóknina Auður og Þórir. Það líður ekki á löngu þar til það verðum við sem förum og heimsækjum fólk.
 
*
 
Þessir túlípanar sem hún Annelie gaf Valdísi í fyrradag voru ekki merkilegir ásyndum þegar hún kom með þá. En þeir eru aldeilis orðnir fallegir og sérkennilegir núna. Þessa mynd tók ég í morgun þegar Valdís var vel komin í gang. Ég man ekki eftir að hafa séð túlípana með kögur fyrr en núna.
 
*
 
Hvernig er það, segir fólk á Íslandi snertiskjár eð kannski bara iPad?
 
Svo annað mikilvægt. Ég hef ekki drukkið kaffi í 21 dag og mér líkar það vel. Víst skýtur hugsuninni upp öðru hvoru að nú sé kominn tími fyrir kaffi en það flýgur hratt framhjá eins og fugl sem flýgur fyrir glugga. Mér líður vel í mínu kaffileysi og te fer batnandi með degi hverjum. Aðallega grænt te. Kroppurinn nýtur þess að hafa losnað við kaffið.


Kommentarer
Åuja

Takk fyrir okkur þetta var notalegt sjáumst fljótlega í okkar húsi

Svar: Ég vona það Auður að við bæði verðum fljótlega á ferðinni.
Gudjon

2013-04-07 @ 22:17:48
Björkin.

Gaman og gleðilegt að fá góða vini í heimsókn.Líði ykkur sem best mín kæru.Stórt knússsssssssss.

2013-04-07 @ 23:29:00


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0