Enn einn dagur á Sólvöllum

Það er afar hljótt á Sólvöllum á þessari stundu. Klukkan er rúmlega tíu að kvöldi þegar ég sest við tölvuna og byrja á þessu bloggi. Í morgun þurftum við að erinda inn í miðbæ Örebro, það er að segja ég, Valgerður, og Rósa og fjölskylda. Síðan fengum við okkur hressingu á skemmtilega staðsettum veitingastað. Þar höfðum við gott útsýni yfir þann eril sem er í gangi á venjulegum degi í hjarta miðbæjarins. Eftir það fórum við með Rósu og fjölskyldu á járnbrautarstöðina. Þau voru að leggja af stað heim.
 
Þar sem við Valgerður stóðum á brautarpallinum og horfðum á þau ganga frá sér í sæti á efri hæð í vagni vinkaði Hannes okkur mikið og lengi með bros á vör. Nokkru eftir að þau lögðu af stað fengum við sms frá Rósu þar sem hún sagði að Hannes hefði hrópað um leið og hann vinkaði: Ég sakna ykkar! Mikið var það fallega gert af honum. Valgerður var lífleg við hann en ég get ekki sagt það sama um mig, því miður, en samt saknaði hann okkar, ekki bara hennar. Það yljaði svo sannarlega að hann erfði það ekki við mig þó að ég hefði ekki verið tilbúinn að ærslast svo mikið með honum undir dvöl hans hér í tíu daga.
 
Nú erum við sem sagt orðin tvö hér á Sólvöllum, ég og Valgerður. Á laugardaginn kemur fer hún svo heim á leið og þá byrja ég að æfa það líf sem ég kem til með að lifa hér framvegis. Fyrir einhverjum mánuðum spurði Valdís mig hvort ég mundi halda áfram að búa á Sólvöllum ef hún  dæi. Ég sagðist fastlega gera ráð fyrir því að ég héldi áfram þeirri uppbyggingu sem við hefðum byrjað á í sameiningu -ef svo færi, þó að ég reiknaði alls ekki með því að hún væri á förum. Svo horfði ég á hana eins og ég hafði gert svo oft áður og gerði oft síðar og hugsaði að þessi kona væri alls ekki á förum. Nú sit ég hér einn og Valgerður er komin út á Bjarg til að hvíla sig.
 
Á morgun byrja ég að skipuleggja framtíarverkefni mín hér. Ég hef ekki fundið mig almennilega í að gera það undanfarið. Ég veit hvað mitt fyrsta verk verður eftir morgunverðinn á morgun, og ég veit líka að ég mun að því loknu fara inn til Örebro til að erinda. Valgerður ætlar að fara með og hitta vinkonu sem hún hefur eignast hér og vera með henni síðdegis. Ég veit að þegar ég verð kominn í gang með mitt, þá verð ég kominn í gang.
 
Ég þarf líka að kaupa fuglamat sem gleymdist að kaupa í dag. Enn er enginn vorhiti og fuglarnir eru sólgnir í tólgarboltana. Snemma í morgun var ég að velta fyrir mér þessu mjög svo síðbúna vori. Svo minntist ég fréttar sem ég las í gær um stórhríð á Norðurlandi og 30 til 40 metra á sekúndu sem áttu að berja á húsum á Suðurlandi síðastliðna nótt. Við að hugsa um þá frétt fannst mér veðrið hér bara býsna gott.
 
Nú ætla ég að hætta þessu meðan ég veit hvað ég heiti, bursta og pissa og ganga svo til hvílu og biðja bænirnar mínar. Ég þarf að draga gardínurnar frá austurglugganum snemma í fyrramálið í þeirri von að sólinn komist í gegnum skýjaflákana til að skína gegnum skóginn. Slíkir morgnar eru fallegir morgnar og þess virði að sitja og bara horfa á daginn verða til.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0