Sannar fjallkonur

Þegar leið á morguninn stigu hitamælarnir og um hádegi var bara orðið hlýtt. Jaðrarnir á snjóbreiðunum bráðnuðu hratt og á milli þeirra varð rennandi blautt, næstum stígvélafæri. Ég hélt mig inni á Bjargi, málaði fyrst og síðan smíðaði ég festingar fyrir gluggaáfellur. Bjarg á nefnilega að verða tilbúið til ábúðar mjög fljótlega. Út um gluggana sá ég blíðviðrið en þegar ég fór mínar ferðir inn í bæ til Valdísar fann ég að gönguskórnir mínir voru alls engin stígvél. Ég varð blautur um tærnar. Það hefði svo sem ekkert verið skemmtilegt að vinna úti.
 
Með hækkandi sól og brúklegum hita óx konunni minni ásmegin og ég gat ekki betur séð en það væru heilmiklar breytingar til batnaðar á fleiri sviðum. Það er að segja að hún varð minna móð, var örari í hreyfingum, varð meira lífleg í tali, tók sér eitthvað fyrir hendur eins og að fara í gegnum blöð sem höfðu safnast upp og ýmist lagði til hliðar eða henti. Ég heyrði líka á svefnhljóðum næturinnar að eitthvað var í gangi. Ég vaknaði, hlustaði, heyrði lítið- og var fljótur að sofna aftur. Það er góðs viti.
 
Svo leið að kvöldi, sól lækkaði á lofti og það kólnaði. En konan mín lét það ekki á sig fá og tilkynnti mér að nú færi hún í sturtu. Hún sagði það á þann hátt að mér fannst það vera hluti af bataferli. Ég sneri mér að matargerð og gerði það einfalt. Meðan kartöflurnar suðu gáði ég að íslensku krónunni og sá að hún hafði styrkst verulega móti þeirri sænsku í dag, einn daginn enn. Ég gladdist alveg sérstaklega yfir því þar sem ég hafði flutt peninga fyrir meira en viku síðan. Það hefur sennilega verið ólánsfé þar sem að eftir það fór íslenska krónan að styrkjast verulega. Ekkert smá, heldur verulega.
 
Það var skemmtilegur þáttur um vorið í sjónvarpi áðan. Ég horfði á hluta af honum og þar var mikið af myndum af fuglum og blómum og mikið talað um vorteikn. Eitt af vorteiknunum sem talað var um er blómið tussilagó sem er hóffífill. Og svo var orðið tussilagó notað svo ótrúlega oft gegnum allan þáttinn. Okkur fannst þetta spaugilegt blómanafn á árdögum okkar í Svíþjóð. Það var líka vor í Svartnesi þegar nokkrir Íslendingar ætluðu að grilla saman og einhver sagði; hvernig ætli maður segi grillkol á sænsku. Dimmrödduð sænsk kona sem vann í eldhúsinu heyrði þetta og skildi og sagði "grillkol". Svo einfalt var það. Grillkol er bæði sænska og íslenska.
 
Klukkan er rúmlega tíu og rétt áðan fór ég út og steig út í snjó stutt frá dyrunum. Það var komið frost við jörð. Það virðist ekkert vera að marka hitamælana okkar. Þeir sýna annað hvort allt of lítið eða mikið og ég held að mælirinn í bílnum sé sá eini sem eitthvað er að marka. Ég nenni hins vegar ekki alltaf að fara út í bíl til að athuga hitastigið. En þó að hitinn sé farinn niður fyrir frostmarkið heldur konan mín áfram að vera í bata. Eftir að hafa farið í sturtu sagði hún nokkuð sem hún hefur ekki sagt lengi. Hún sagði nefnilega; "mikið var þetta notalegt". Bara að heyra það var mikið notalegt fyrir mig. Svona eru sannar fjallkonur ættaðar frá Hrísey.


Kommentarer
Björkin.

Takk fyrir gott blogg og góðar fréttir.Stórt knússssssssssss.

Svar: Góða nótt.
Gudjon

2013-04-04 @ 23:34:47


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0