Sitt af hverju

Stundum gengur allt svo reip rennandi vel þegar eitthvað á að gera eins og ég geri flesta daga. Ég er sjaldan iðjulaus. Hamarinn er þá alltaf á réttum stað, tommustokkurinn og býanturinn fara alltaf beint í vasann, allt mælist rétt og allt tekst að saga nákvæmlega eins og til stendur og fleira í þessum dúr mætti telja. Og kannski það besta; allt er rétt hugsað út, árangurinn er frábær og það er óskaplega gaman. Þar af leiðir að allar hreyfingar eru léttar og lífskrafturinn ótrúlegur. Þannig gengur það oft.
 
Svo kemur fyrir að ekkert af þessu stenst. Hamarinn er alltaf týndur, tommustokkurinn og blýanturinn verða alltaf eftir þar sem síðast er mælt, efnið sem er tekið á lengd verður millimeter of langt eða sentimeter of stutt, það er erfitt að hugsa rétt, árangurinn er lélegur og það er ekkert gaman. Hreyfingarnar eru þunglammalegar og þreytan þjáir líkamann. Þetta var minn dagur í dag.
 
Svo eru dagar þar sem allt er einhvers staðar þarna mitt á milli og er vel ásættanlegt og þá daga er líka inn á milli býsna gaman.
 
Ég velti fyrir mér í dag hvað það væri sem ég gerði rangt og ylli þessu en komst ekki að neinni niðurstöðu. Stundum nálgaðist ég sjálsfvorkun og stundum var ég leiður. Stundum fann ég að reiðin vildi brjótast út og einu sinni langaði mig að skella hurð sem alltaf var við það að lokast eins og ég ætlaðist til, en á síðustu stundu hætti hún við, opnaðist, og sá örlitli vindur sem var á köflum í dag tók tak á hurðinni og skellti henni upp að vegg. Aumingja ég, sjötugur maðurinn. Þetta með reiðina; á Sólvöllum má ekki framkvæma neitt í reiði eða fúlmennsku. Það sæmir ekki góðum stað þar sem fólki á að líða vel.
 
Síðdegis var sem ég sæi fyrir mér mynd af konu sem var bæði blind og heyrnarlaus, ég legg áherslu á blind og heyrnarlaus, og hún sagi eftirfarandi: "Horfðu á móti ljósinu, þá sérðu ekki skuggann." Þrátt fyrir fötlun sína var hún rithöfundur og hún hét Helen Keller. Hún varð 88 ára gömul. Svo hélt ég að ég ætti bágt.

Ég taldi mig byrja daginn mjög vel í morgun. Þegar ég var að koma mér á stjá las ég texta dagsins í bókinni Kyrrð dagsins sem stendur á borði í svefnherberginu. Textinn er eftirfarandi: "Ég er að átta mig á því að það haldbesta í lífinu er það sem er einfalt og gott." Höfundur orðanna er Laura Ingalls Wilder sem var uppi frá 1867 til 1957. Mér fannst eitthvað kunnuglegt við nafnið og ég sló því upp á Google. Þar gat ég lesið um það að þessi kona varð fyrir ótrúlegu mótlæti í lífinu meðan hún var í foreldrahúsum. Síðan fluttist hún að heiman, giftist og um skeið hélt þrálátt mótlætið áfram að fylgja henni.
 
Eftir flutninga hingað og þangað eignaðist hún "húsið á sléttunni" og þar bjó hún í meira en 60 ár. Og þegar ég las þetta áttaði ég mig á að það var hún sem skrifaði Húsið á sléttunni sem varð sjónvapsþáttur árum saman. Ég skrifaði út grein um þessa konu og var heillaður af þeirri þrautsegju sem hún sýndi í því mótlæti sem féll henni í skaut. Það kom kona í heimsókn til Valdísar í dag og við sýndum henni þennan texta. Hún varð svo hugfangin af þessari sögu að hún fékk textann með sér heim.
 
Nú féll ég eiginlega út úr efninu, en eftir að hafa lesið um þessa konu fannst mér sem orð dagsins væru meira virði en ella. Ég kallaði þetta að byrja daginn vel.
 
Af Valdísi er það að segja að hún var líka fremur lág í dag. Ég held að henni hafi ekki liðið illa, en hún hefur verið þreytt og sofið eða hálf sofið töluvert mikið. Þegar ég ætlaði að fara að steikja ýsuna í kvöld stóð hún þétt við hlið mér. Ég leyfi mér þó að segja að ég steikti ýsuna, en undir öruggri leiðsögn hennar. All langan tíma eftir kvöldmatinn var hún án súrefnis og það virtist ganga vel. Að lokinni góðri hvíld í nótt í félagi við Öla lokbrá ætla ég mér að gera morgundaginn að betri degi en mér tókst með daginn í dag.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0