Ég vil svo gjarnan læra

Eftir dálítið rysjótta nótt þurftum við að hafa hraðan á því að við ætluðum að vera all snemma á heilsugæslunni í Fjugesta til að láta taka blóðpróf. Ellilífeyrisþegarnir sem vilja unna sér morgunverðartíma að eigin vild, stuttan eða langan, oftast langan og alveg sérstaklega í morgun, þurftu nú að brjóta flestar morgunverðarvenjur og svo bara að fara af stað. Ekki gaf þetta góða raun og það var liðið langt fram á eftirmiðdaginn þegar dagurinn var orðinn nokkuð ásættanlegur. Ég keypti lottómiða handa Valdisi og hún skóf fram 30 krónur. Þá mundi hún allt í einu eftir því að það var til miði með vinningi. Já, alveg rétt, þarna í glugganum yfir matarborðinu og þar voru 90 krónur. Svo reyndi ég að segja eitthvað sniðugt um þetta sem við munum alls ekki lengur hvað var, og þá brosti Valdís og það var alveg örugglega í fyrsta skipti á síðustu tveimur dögum. Síðan varð dagurinn viðunanlegur.
 
Málarinn kom tvisvar sinnum á Bjarg í dag og málaði veggina tvær umferðir en loftinu lauk hann í gær. Þar með var verkinu lokið. Ég gaf honum upp perónunúmer og fasteignanúmer til að hann gæti sent reikning. Þegar við hittumst fyrst á mánudaginn var sagði hann að þetta mundi taka hámark 30 tíma. Meðan ég var að skrifa upplýsingarnar fyrir hann reiknaði hann út tímana og þá hafði hann lokið verkinu á 17,5 tímum. Hann gerði að vísu heldur minna en við töluðum um í upphafi en víst varð ég glaður. Hann er duglegur þessi náungi og verkið er mjög vel unnið.
 
Það er búin að vera slydda í dag en ekkert festi þó á jörð. Hins vegar varð jörðin blaut og tærnar fundu smám saman fyrir því að skórnir eru orðnir slitnir í tána af því að skríða á steingólfi við smíðar. Þar smaug bleytan fyrst inn og síðan færðist hún eftir fætinum alla leið aftur á hæl. Það var bót í máli að fólk gat ekki opnað munninn í sjónvarpi án þess að tala um að það séu hlýindi á leiðinni sem byrji á morgun og svo verði ennþá hlýrra hinn daginn. Það er ekkert annað en að trúa þessu og hlakka til. Kannski getum við fengið okkur kaffi úti við og gott með því þegar líður á morgundaginn. Það væri gott að geta boðið Valgerði velkomna að Sólvöllum á þann hátt á morgun, en hún kemur um hádegisbilið.
 
Dónalegar ferðir mínar út í skóg hafa verið margar síðustu fjóra dagana. Ég er nefnilega farinn að pissa á beykitrén. Ég hefði þurft að vera byrjaður á þessu fyrir löngu en hugurinn hefur bara ekki dugað til þess. Sumum blöskrar svona tal en þegar ég segi að það hafi verið viðfeldin og falleg kona á garðyrkjustöð sem ráðlagði mér að gera þetta, að vísu í háfum hljóðum, þá blöskrar fólki ekki lengur. Þetta er nefnilega óbrigðul áburðaraðferð. "Hvernig þú getur látið" sagði hún Mimmi vinnufélagi minn í hitteðfyrra þegar ég sagði frá þessu á morgunfundi starfsfólks. Þá var líka að byrja nýr yfirmaður og kannski roðnaði Mimmi fyrir mína hönd þess vegna. En þegar ég sagði frá því að kona hefði ráðlagt mér aðferðina, þá hætti Mimmi að roðna málið skapaði umræðu sem ég tók ekki frekari þátt í, en hafði hins vegar mjög gaman af.
 
Já, seinni hluti þessa dags hefur verið góður. Valdís hefur hvílt sig eftir órólegan morgun og smávegir sýslaði hún líka eftir hvíldina. Síðan horfði hún á danskeppni í sjónvarpi. Ég hef næstum lokið við að smíða tvo sólbekki og palla utan við báðar dyrnar á Bjargi. Það var við pallasmíðina sem ég blotnaði í fæturna. Ekki má bera skítinn inn í nýmálað fína herbergið þannig að pallanna var þörf. Ég fékk góðar fréttir hjá málaranum sem fyrr er getið og reyndar horfði ég líka á hluta af danskeppninni með Valdísi. Með þumalfingurinn í miðjum lófanum er sagt um lélega smiði en ég get sagt að ég hafi staur í báðum fótum þegar það kemur að dansi. En ekki kom það í veg fyrir að ég næði sjötugs aldri og bráðum rúmlega það.
 
Í fyrramálið koma strákar sem ætla að hjálpa mér að fella nokkur tré, en þau verða að falla á mjög ákveðna staði til að skemma ekki annan trjágróður. Því vil ég ekki gera þetta einn og þá læt ég þeim bara eftir að gera þetta án minna afskipta. Þeir fá við í eldinn í staðinn. Ég hlakka til góðviðrisdagsins 13. apríl og um leið og ég sæki Valgerði til Hallsberg ætla ég að koma við í kaupfélaginu og kaupa eitthvað þokkalegt frá bakaríinu, annað hvort dýsæta rjómatertu eða brauðtertu. Sá á kvölina sem á völina.
 
Í fornindverskum söguljóðum má lesa eftirfarandi: "Hávær orð falla með glymjanda í tómið. Réttu orðin, jafnvel lágvær, geta lýst heiminum."
 
Það vil ég svo gjarnan læra.


Kommentarer
Björkin.

Mikið gott blogg mágur minn.Kærar afmæliskveðjur til þín og knús á systur mína.Vona að spáin gangi eftir,og óskum ykkur alls góðs. knússsssssssss

Svar: Þakka þér fyrir afmæliskveðjur. Ekki veit ég um útivistir í dag þar sem það var alhvítt að líta út um sex leytið og er enn. Hitinn er nálægt forstmarki en virðist á uppleið.
Gudjon

2013-04-12 @ 23:34:56


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0