Sumu verður ekki hægt að gleyma

Það er búið að berast svo mikið af samúðarkveðjum og kveðjum til okkar á Sólvöllum í Krekklingesókn í Svíþjóð að það er ekki hægt að svara hverri kveðju fyrir sig. Þær hafa borist á blogginu mínu, á feisbókinni, símleiðis og sem skilaboð frá fólki. Ég er svo mjög þakklátur fyrir þessar kveðjur og þakka fyrir þær allar hér og nú.
 
Þessar kveðjur hafa ekki bara verið stuðningur í sorginni. Þær hafa líka verið sönnun þess að Valdís var kona sem fólki þótti vænt um og fólk virti og það er það sem mér þykir lang vænst um af öllu í dag.
 
Við hér á Sólvöllum erum dóttirin Valgerður frá Vestmannaeyjum, dóttirin Rósa frá Stokkhólmi, Pétur tengdasonur og barnabarnið Hannes Guðjón. Valgerður var hér þegar Valdís dó. Strax eftir að við höfðum verið upphringd frá sjúkrahúsinu í Örebro og sagt að Valdísi hefði versnað hringdi Valgerður til Rósu og lét hana vita. Hún ætlaði að koma strax. Þegar við komum á sjúkrahúsið og fengum að vita að þessu væri lokið, hringdi Valgerður aftur til hennar og lét hana vita af því. Þá var Rósa að stíga um borð í lestina. Að vita af henni einni þar í tvo tíma var mikið sársaukafullt í öllum þeim sársauka sem þessi morgun bar í skauti sér.
 
Fyrstu þrír dagarnir án Valdísar eru liðnir. Að líta yfir í stólinn til hennar og gá hvernig hún hafi það er ekki fyrir hendi lengur. Að skreppa inn frá útiverkum til að fylgjast með og spjalla svolítð þarf ekki lengur, að hringja til hennar og spyrja hvort allt sé í lagi gerist ekki lengur þörf. Að bíða eftir að hún hringi frá sjúkrahúsinu eða hringja til hennar þangað heyrir sögunni til. Það er mikið sem heyrir sögunni til, nú þegar eftir þessa þrjá fyrstu daga.
 
Ég sé hluti og hugsa að þarna er eitthvað sem ég hefði þurft að spyrja Valdísi um, eða spyrja betur út í myndina sem ég horfi á. Einhver segir eitthvað og ég átta mig á því að þar er eitthvað sem ég hefði þurft að spyrja hana eftir og ég leita að hlut og hefði þurft að vera búinn að spyrja Valdísi hvar hann geti verið að finna. Ég hlusta ekki lengur eftir andardrættinum í rúminu við hlið mér eða velti ekki lengur fyrir mér hvernig hún hafi sofið í nótt, hvort henni líði illa.
 
Í staðinn fyrir þetta vorum við á útfararstofu í dag. Hann Nisse fyrrverandi prestur í kirkjunni sem við sóttum meðan við bjuggum í Örebro var með okkur. Valdís og hann voru vinir. Hann kom hingað á Sólvelli í heimsókn í nóvember og þegar þau sátu móti hvort öðru við matarborðið og drukku kaffi spurði Valdís ákveðið. Nisse, viltu jarða mig ef ég dey úr þessu? Nisse lofaði því og í dag hófst sá undirbúningur fyrir alvöru. Útförin fer fram föstudaginn 26. apríl klukkan tvö. Síðan verður minningarguðsþjónusta í Reykjavík fyrri hluta júní. Eftir það förum við með öskuna til Hríseyjar því að Valdís vill komast heim aftur á þennan hátt. Þetta er allt að óskum Valdísar.
 
Ég hef velt fyrir mér hvað hefði verið hægt að gera öðru vísi, glímt við sjálfsásökun, en samt leituðum við til færasta fólks sem við höfðum aðgang að. Ég hefði viljað vera betri maður gegnum lífið og margt fleira hefur komið upp í hugann. Ég er þó að byrja að sjá meira fyrir mér hið jákvæða i lífi okkar. Hún María krabbameislæknir Valdísar og yfirlæknir á sjúkrahúsinu í Örebro sagði við okkur Rósu og Valgerði fáeinum tímum eftir að Valdís dó að það væri sér heiður að hafa verið læknir hennar. Valdís hefði verið einstök kona, vís og þakklát. Við erum svo sannarlega sammála þessu og það var mikil virðing og reisn yfir síðustu stundum hennar í lífinu. Síðustu símtölum hennar við okkur kvöldið áður en hún dó munum við aldrei gleyma.


Kommentarer
Anonym

Elsku mágur minn.Þú áttir góða og hlýja konu sem vildi þjóna öllum en ekki láta hafa fyrir sér.En hún átti líka góðan og hlýjan mann sem hún elskaði og virti af öllu hjarta.Knús á ykkur öll frá okkur Gústa. Efst í huga mínum núna er hvað hún sagði oft,ertu búin að lesa bloggið hans Guðjóns.Og glöð var hún þegar ég sagði JÁ.Guð vaki yfir ykkur öllum kæra fjölsk. mín..

2013-04-18 @ 21:16:34
Svanhvít

Eins og venjulega fínt skrifað Guðjón. Víst var Valdís einstök kona sem gleymist ekki. Bestu kveðjur í bæinn frá okkur Tryggva

Svar: Og kveðjur frá okkur til baka. Við þurfum að tala við þig Svanhvít um að hjálpa okkur varandi minnesstund.
Gudjon

2013-04-18 @ 21:17:41
Björkin.

Ekki veit ég hvaða nafn kom þarna fyrir ofan....

Svar: Ég þekkti það samt.
Gudjon

2013-04-18 @ 21:18:38
Dísa gamli nágranni

Oft hef ég hugsað til ykkar í gegnum árin sem liðin eru frá því að þið fóruð úr Hrísey og saknað þess mikið að þið voruð ekki lengur hér og líka séð betur og betur þvílíkt mannkosta fólk bæði tvö eruð, ég segi eruð því Valdís er líka annars staðar og lítur til með fjölskyldunni sinni.
Bestu kveðjur til allra. Ef ég get eitthvað gert ykkur til hjálpar þegar þið komið hingað þá vona ég að þú látir mig vita.

2013-04-19 @ 00:05:23
Þorsteinn Ólafsson

Guðjón minn. Hann Jónatan hringdi í mig þegar ég var nýbúinn að aka um Árskógsströnd og hugsa til ykkar þegar ég horfði til Hríseyjar.
Hugur minn er hjá ykkur og missir ykkar og okkar allra er mikill. Vinarkveðja til ykkar allra.

Svar: Þakka þér fyrir Steini minn og alla hlýju þína gegnum árin.
Gudjon

2013-04-19 @ 00:31:54
Svanhvít

Hjálpa gjarnan til ef ég get.

Svar: Þú getur það ef þú hefur tíma, systurnar munu hringja til þín, kannski að baka eina tertu eða því um líkt.
Gudjon

2013-04-19 @ 17:28:11


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0