Tvö ein í bænum

 
Þessa mynd tók Rósa við heimkomu Valdísar í gær. Þegar ég sá myndina velti ég því aðeins fyrir mér á hvað hún væri að horfa. Hún horfði ekki á myndavélina og ekki á Rósu, en mig grunar stórlega að hún hafi horft á Hannes. Ég hreinlega ákveð það hér og nú og ef það ekki stenst, þá lætur hún mig örugglega vita þegar hún hefur lesið þetta. Mér sýnist ég líka sjá nokkuð á svipnum; að Hannes er henni mikils virði. Hann var búinn að heimsækja ömmu sína tvisvar sinnum á sjúkrahúsið og hann kunni ekki almennilega við að hitta hana þar. Hann skildi greinilega að það var ekki allt eins og það átti að vera. Annað sem mér finnst ég líka sjá í svipnum er þetta; hvernig finnst honum að sjá ömmu sína núna?
 
 
Eitthvað hafa Hannes og mamma hans verið búin að ræða saman meðan ég sótti Valdísi því að hann var búinn að teikna mynd og fá mömmu sína til að aðstoða sig við að skrifa; "velkomin heim".
 
Valdís er búin að vera þreytt í dag. Ég hefði gjarnan viljað að hún væri hressari, en mig grunar líka að sjúkrahúsvistin, þó að hún geti skapað öryggi, hafi verið erfið á þann hátt að fólk er vakið svo snemma og svo er á stórum pörtum dagsins óttalegur ófriður. Auðvitað er sá ófriður hluti af því að það er verið að hjálpa, en það hlýtur líka að valda þreytu. Einhver sagði að það væri full vinna að vera á sjúkrahúsi.
 
Í gær horfði Valdís á sófa í stofunni hér heima og sagði að hún vildi helst laga til í sófanum. Þá eiginlega ofbauð mér skylduræknin. Ég annaðist kvöldmatinn nú í kvöld. Það var kominn tími til eftir allar þær máltíðir sem Valdís er búin að bera á borð fyrir aðra að það sé nú borið á borð fyrir hana. Áðan bað hún mig að hjálpa sér með súrefnisslöngurnar, en sagði einnig að það væri erfitt að vera alltaf að biðja aðra að hjálpa sér. Það er sama sagan með það og með matinn, það er heldur betur kominn tími til.
 
Hannes og mamma hans fóru heim seinni partinn í dag. Pétur fór skömmu fyrir hádegi í gær. Við erum þakklát fyrir þá heimsókn. Rétt áður en við lögðum af stað héðan í dag á lestarstöðina horfði ég á Hannes og fannst ég ekki hafa verið honum nógu góður afi þessa daga sem þau voru hér. Svo nokkru eftir að lestin lagði af stað fékk ég sms frá Rósu með mynd af Hannesi þegar hann var að vinka mér. Ég hafði þá alla vega verið svo góður afi að hann lagði áherslu á að vinka mér. Ég bara sá það ekki vegna sólarsljóssins sem glampaði á lestarrúðunni, en ég hafði samt sem áður vinkað. Ég gerði það í von um  að hann sæi mig sem kom svo í ljós að hann hafði gert.
 
Það er orðið nokkuð áliðið og mál að hvílast. Við komm til með að leggja okkur í þeirri vissu að svefninn sé einhver besti læknirinn. Góða nótt.
 
Ps. Valdís er búin að lesa þetta yfir og gerir engin mótmæli.


Kommentarer
Björkin.

Gangi ykkur allt sem best.Góða nótt og stórt knússssssssss.

Svar: Takk sömuleiðis.
Gudjon

2013-04-03 @ 23:14:06


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0