Sólskinsmorgunninn brást en morgunn er það samt

Ég sagði í bloggi í gærkvöldi að ég ætlaði að draga frá austurglugganum og horfa á sólina sigra skýjafarið, horfa á daginn verða til. Ég dró seinna frá austurglugganum en ég hafði reiknað með vegna þess að vindurinn gnauðaði í loftventlinum vestan á húsinu og sólin varð skýjunum ekki yfirsterkari eins og ég hafði vonað. Samt er dagurinn genginn í garð og klukkan nálgast átta að morgni. Mér sýnist að hitinn sé um sjö stig og vindurinn á þessu svæði er samkvæmt veðurstofunni 12 metrar í hviðunum. Gróður mjakast mjög hægt fram á við. Skógarsóleyjunum sem ég tala svo oft um fjölgar hægt og sígandi, en ef ég man rétt á skógarbotninn að vera nánast hvítur af þeim á þessum tíma. -Ef- spáin stenst fær Valgerður kannski að sjá það áður en hún fer héðan á laugardagsmorguninn.
 
Ég horfi á nokkrar bjarkir vagga í vindinum hér utan við. Þær eru naktar eina sex til átta metra upp eftir stofninum vegna þess að konan sem átti húsið á undan okkur var orðin of roskin til að geta annast skóginn. Nú eru margir afkomendur þessara bjarka orðnir tveggja til fjögurra metra háir og ég sé gegnum gluggann þær bjarkir sem eiga að víkja á þessu ári. Meiningin var að því verki væri lokið en því er bara ekki lokið og er því eitt af framtíðarverkefnunum næstu mánaða. Þegar þær víkja fara afkomendurnir að vaxa hraðar.
 
Það eru líka margar aðrar tegundir sem þarna eru að komast á fermingaraldurinn og síðar þegar þau tré fara að skaða hvert annað verður að velja þá einstaklinga sem gera það best og eru best staðsettir og láta hina víkja. Þá verður til vel hirtur skógur. Á næstu fjórum árum verður væntanlega mikil breyting á skóginum og ég vonast til að geta verið með um það. Ég hef samt ekkert loforð um það, en draumur okkar Valdísar var að halda upp á sjötíu og fimm ára afmælin okkar undir fallegum krónum í vel hirta skóginum á Sólvöllum.
 
Nú er Valgerður komin á stjá og þá er ekki annað að gera en að ganga til morgunverðar og komast svo í gang með athafnir dagsins. Það er af nógu að taka.


Kommentarer
Björkin.

Góðan daginn mágur minn.Alltaf gott að fá fréttir frá Sólvöllum.Líði ykkur vel feðginunum.Knússsssssss.

Svar: Takk sömuleiðis.
Gudjon

2013-04-30 @ 12:44:06


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0