Þannig er hún Valdís

Þegar ég ætlaði að vekja Valdísi í morgun til að undirbúa hana til að fara á sjúkrahúsið í röntgen, þá sá ég að ekki var allt með felldu. Ég fékk ekki samband. Þá var ekkert annað að gera en hringja á sjúkrabíl. Smám saman fengum við Valgerður samband við hana og þegar sjúkrabíllinn kom vorum við farin að tala saman. Hún fékk hjálp með súrefni og öndun og innan skamms sagði hún að hún væri svo hress að hún þyrfti ekki að fara með sjúkraliðunum á sjúkrahús. Hún meinti það og ég skildi hana, þetta var hennar tilfinning fyrir ástandinu, en ástandið var háalvarlegt. Eftir samkomulag okkar á milli fór hún þó.
 
Ég hef oft hugsað um það hvernig það verði, ef eða þegar ég þurfi að hringja á sjúkrabíl fyrir Valdísi. Nú er það gert og það var ákaflega sorglegt. Valgerður fór með sjúkrabílnum og ég fór á bílnum okkar þegar ég var búinn að taka svolítið til eftir þær aðgerðir sem hér fóru fram með snörum handtökum sjúkraliðanna á stuttum tíma. Svo tíndi ég saman svolítið sem ég vissi að hún þyrfti á að halda og hélt af stað.
 
Ég notaði orðalagið "það var ákaflega sorglegt" og "ástandið var háalvarlegt". En Valdís hættir ekki að koma mér á óvart, ekki enn eftir 53 ár. Við Valgerður sátum hjá henni á móttökudeild í dag og ræddum ýmislegt og við vorum að ráðleggja henni í sambandi við súrefnisgræjurnar sem hún hefur í nefinu. Þá varð henni að orði: Valgerður, þegar ég flutti fimmtíu og eins árs til Svíþjóðar, þá minnti mamma mig á að muna eftir að nota húfu og trefil.
 
Hún hringdi akkúrat í þessum skrifuðum orðum til að segja mér frá því að hún hefði fengið kærkomna heimsókn á sjúkrahúsið, og þá álpaðist ég til að minnast á sama atriði. Þá sagði hún afar rólega; "já pabbi". Þessum viðbrögðum fylgir bæði jafnaðargeð og fyndið hugarfar. Þegar við Valgerður yfirgáfum hana síðdegis vildi hún fá að vera í friði og hreinlega að geta slappað af. Hún sagði að það væri best að við bara færum heim. En svo fékk hún óvænta heimsókn og henni þótti vænt um það vegna þess að henni þykir svo vænt um fólkið sem kom.
 
Hún hringdi líka fyrr í kvöld og þá var hún líka búin að hringja í Valgerði og Rósu. Að lokum sagði hún, eiginlega hin hressasta, að nú væri hún búin að hringja til þeirra sem hún hefði þurft að hringja til og nú gæti hún farið að sofa. Mér finnst að þó að ég hafi sagt að ástandið hafi verið háalvarlegt og sorglegt, þá hélt hún áfram að lifa lífinu. Þannig er hún Valdís.


Kommentarer
Björkin.

Takk fyrir mágur minn.Guð vaki yfir ykkur .Góða nótt.

2013-04-15 @ 21:41:00


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0