Rannsóknir í Sólvallaskógi

Ég fór með Pétur á járnbrautarstöðina í Hallsberg í morgun. Þaðan fór ég að heimsækja Valdísi. Þegar ég kom þangað var Annelie vinkona hennar hjá henni. Þegar ég fór þaðan ætlaði Valdís að fá sér hádegisblundinn. Síðdegis fór Rósa til hennar og þegar hún kom þangað voru Auður og Þórir í heimsókn. Þegar kvöldaði hafði verið fólk í heimsókn næstum allan daginn.
 
Meðan Rósa var fjarverandi höfðum við hvorn annan, ég og hann nafni minn. Hann óskaði eftir skógarferð og það er langt síðan hann hefur verið þar á ferð. Hann mundi eftir mauraþúfunni stóru og virtist standa hálfgerður stuggur af henni, en samt vildi hann fara að henni og skóða hana þegar hún kom í sjónmál. Og viti menn; maurarnir eru að kvikna til lífs og all margir voru þegar komnir til starfa. Það verður nóg að gera þar fram eftir vori þar sem eitthvað dýr hefur traðkað á þessari risastóru mauraþúfu í vetur og það hlýtur að taka margar vikur fyrir þá að bæta allan þann skaða. Þetta rannsökuðum við all náið og héldum svo til annarra rannsókna þarna í skóginum.
 
Það eru all ólíkir hlutir sem við sjáum, hann sem er þriggja ára og ég sem er sjötíu ára. Hann sér margt fróðlegt í slóðinni en mín athygli virðist vera heldur ofar. Honum finnst skemmtilegt að rannsaka hversu langt vatnið skvettist ef hoppað er í poll en ég kræki fyrir pollinn en verð samt blautur í fæturna og hann ekki.
 
Klukkan níu hringdi Valdís til að segja góða nótt. Stuttu áður hafði súrefnismagn í blóði verið mælt og það aukist og var hærra en nokkru sinni síðan læknisheimsóknir og svo sjúkrahúsvist hófust fyrir rúmum hálfum mánuði. Það var afar ánægjuleg staðfesting á því að það eru góðir hlutir að ske hjá Valdísi.
 
Nú er ég orðinn alveg fyrna syfjaður en því miður er ég ekki búinn að bursta. Það er svo erfitt að bursta þegar ég er syfjaður en það er óumflýjanlegt. Mikið verður koddinn góður að leggjast á og ullarfeldurinn notalegur að draga upp undir eyru. Góða nótt.
 
Ps. Veðurfræðingur sagði nú undir kvöldið að það yrði væntanlega sprenging í veðráttu og vori nú um miðjan apríl. Mér þykir vænt um svona veðurfræðinga.


Kommentarer
Dísa gamli nágranni

Got að sjá góðar fréttir af Valdísi á blogginu þínu og skemmtilegar páskamyndir. Kærar bata kveðjur til Valdísar

Svar: Þakka þér fyrir Dísa mín og kveðjur til baka til ykkar.
Gudjon

2013-04-02 @ 01:00:51


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0