Næði til að vera til

Við þurfum næði til að láta okkur dreyma,
næði til að rifja upp og minnast,
næði til að nálgast hið óendanlega.
Næði til að vera til.
 
Svo sagði kona að nafni Gladys Taber sem var uppi frá 1899 til 1980. Ég var að fara yfir alla síðustu vikuna í bókinni Kyrrð dagsins og þetta stóð á síðunni þann 17. apríl. Hver einasta lína í þessu gekk inn í hugarheim minn og það var sem þessi orð væru að láta mig vita að þetta væri akkúrat svona, nákvæmlega eins og mér finnst og hefur fundist lengi, lengi. Hafi ég ekki tíma til að láta mig dreyma finnst mér sem eitthvað óheilsusamt sé í gangi. Ég á auðvelt með að sitja og horfa á skýin færast yfir himinhvolfið, sólina setjast bak við Kilsbergen, eða fylgjast með laufverkinu klæða skógana á vorin og njóta þessa alls. Og margar eru stundirnar sem ekkert meira þarf.
 
Síðustu dagana hefur mig dreymt um líf sem hefur fylgt mér í meira en hálfa öld, lifandi manneskju sem óhagganlega var kvödd á braut. Draumarnir um þessar minningar klæða þær í blómum prýddar engjar, skógi klætt landslag sem virðist ná út í hið óendanlega, snævi þakta jörð þar sem jólaljós blika í augum. Minningadraumarnir lokka fram það besta og fallegasta og raða því haganlega í þann skatt sem er mér verðmætastur þessa stundina. Skattinn sem á að vera mér auður þangað til ég verð líka kvaddur á braut.
 
Í augnablikinu er of margt í gangi til að geta sinnt þessu með öllu hjartanu, en ég svík sjálfan mig og þá manneskju sem fylgdi mér í meira en hálfa öld ef ég gef mér ekki næði til að vera til. Eitthvað á þá leið og með mörgu öðru las ég mig í gegnum vísdómsorð Gladys Taber. Hún gaf út 59 bækur og öll þau orð og allar þær hugsanmir sem fylla svo margar bækur virðast vera í ætt við hið óendanlega sem hún talar um í vísdómsorðunum.
 
Og svo hefur sorgin komið af fullum þunga undan hinni þunnu slæðu sem venjulega hylur hana. Vissar stundir dregur sorgin sig til baka. En eitt orð, ein minning, minning um svipbrigði andlitsins sem áður fylgdi mér dregur fram sorgina á ný, eða minningar um drauma sem ekki urðu að veruleika. Lífið er að móta mig og að lokum mun ég hitta þann sem þessi mótun vinnur við að lokka fram. Ég vona að sú vinna takist vel. Það væri það besta sem hægt væri að gera til minningar um konuna mína.
 
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil svo ég sofi rótt.
                                                                                           Sveinbjörn Egilsson


Kommentarer
Björkin.

Elsku mágur minn.Takk fyrir bloggið þitt.Við eigum það saman að hafa átt konu ,systur.vinkonu,trúnaðarvin með mjög stórt hjarta og vildi gera allt fyrir alla.Hennar er sárt saknað hér á bæ.Guð gefi þér og þínum góða nótt.

Svar: Góða nótt
Gudjon

2013-04-23 @ 00:26:45
Þóra Björgvinsdóttir

Kæri Guðjón fallegt blogg að vanda hjá þér , guð gefi ykkur styrk á þessum erfiðu tímum , kveðja Þóra

Svar: Þakka þér fyrir Þóra.
Gudjon

2013-04-23 @ 00:48:20
Þórlaug

Kæri Guðjón. Þau eru falleg bloggin þín núna til fjallkonunnar þinnar og svo mikil viska í þeim.
Kærar kveðjur til ykkar á Sólvöllum.
Þórlaug

Svar: Takk Þórlaug og kveðja til baka.
Gudjon

2013-04-23 @ 09:22:12
Dísa gamli nágranni

Langar bara til að taka undir bloggið þitt.
Það er fallegt.
Bestu kveðjur úr Sólvallagötunni til allra.

Svar: Þakka þér fyrir Dísa og kveðjur til baka.
Gudjon

2013-04-25 @ 01:20:29
Auja

Þetta er falleg lesning fyrir svefninn og daginn sem er framundan. Góða nótt vinur

Svar: Góða nótt
Gudjon

2013-04-25 @ 22:45:09


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0