Pönnukökudagur

Þetta er búinn að vera afar kyrrlátur laugardagsmorgun. Klukkan er átta, sólin er að nálgast hæstu trjátoppana austan við húsið og miðað við það ætti að vera þokkalega hlýtt. En hins vegar er héla á jörð þar sem sólin nær ekki niður. Hvernig sem ég horfi á skóginn get ég ekki merkt að nokkur minnsta trjágrein bærist í morgunkyrrðinni, hvorki á barrtrjám eða á nöktum lauftrjánum. Fyrsta hljóðið sem ég heyrði í morgun var þetta ótrúlega fíngerða og þægilega trommuhljóð spætunnar. Fyrir stuttu heyrði ég svo kyrrlátt kurrið í skógardúfu sem virtist vera nálægt loftventlinum austan á húsinu. Síðan þagnaði hún en spætan heldur áfram öðru hvoru til að láta vita að hún er á næstu grösum. Kannski spætan sé einmana vegna þess að engin spætukona hafi hrifist af hljóðinu.
 
Klukkan er rúmlega átta og þegar ég heyri að fólk fer á stjá í húsinu dríf ég mig í að elda hafragrautinn. Það verða bæði aprikósur og rúsínur í honum í dag. Rósa er trú hafragrautnum mínum og ég má ekki gera hana þreytta á honum með einhæfni. Svo veit ég að það finnst banani í eldhúsinu sem hægt er að brytja útí grautinn. Þá verður afi stór og sterkur. Þetta dugir samt ekki til að hæna Hannes að hafragrautnum. En það koma timar og koma ráð og mér þykir ekki ólíklegt að hann muni komast að því að það sé best að taka þátt í þessu grautaráti með kallinum.
 
Sólin heldur áfram himnaferð sinni og er nú svo hátt á lofti og laus við skóginn að ég verð að lækka gardinuna til að geta séð á tölvuskjáinn. Hrímið á grasinu er byrjað að blotna upp, kóngulóarvefur glitrar milli tveggja lína í snúrunni og hann er álíka kyrr í morgunblíðunni og trjágreinarnar. Nú er mál að byrja að taka þátt í þessum nýja degi.
 
 
*
 
Það hefur verið mikið umleikis á sveitasetrinu í dag og þetta er virkilega lífleg mynd. Matjurtahornið var gert tilbúið til að planta páskasáningunni hennar Rósu og fleiru sem þar á að vera. Hins vegar verður ekki svo miklu plantað í dag vegna þess að veðrið er ekki nógu gott ennþá.
 
 
Þarna eru þær að meðhöndla páskasáninguna og Hannes lítur eftir.
 
 
Meðan hitt fókið vann við matjurtabeðin lá ég á hnjánum og slipaði gólf undir parkett. Síðan fékk ég hjálp tveggja manna við að leggja parkett á gólfið í gestaherberginu.
 
 
Það er misjafnt hvað fólk aðhefst. Meðan Valgerður sýslar með farsímann og tekur mynd af frænda sínum ryksugar Hannes hugsanlegt ryk úr falsinu.!
 
 
Svo hjálpuðumst við strákarnir að við að saga og það lítur út fyrir að afi sé að vanda sig.
 
Valdísi hefði líkað þetta annríki og ef hún hefði verið nálæg hefði hún bakað pönnukökur. En það voru pönnukökur eigi að síður því að Rósa tók til sinna ráða og bakaði þær. Við kláruðum helminginn af gólfinu og ætlum að ljúka því á morgun. Ég tel mig hafa verið all virkan í önnum dagsins enda er ég alveg óttalega þreyttur og slæptur. Ég býst við að aðstoðarmennirnir mínir verði með mér á morgun líka og gólfið i herberginu verði tilbúið um hádegisbilið. Svo hefst nýr þáttur í byggingunni seinni partinn á morgun og þá geng ég frá palli utan við herbergisdyrnar á Bjargi. Það gengur ekki að bera mikið af sandi inn á nýja prkettið.
 
Nú er mál að linni.


Kommentarer
Þórlaug

Mikið er Valgerður lík mömmu sinni þar sem hún stendur við vegginn. Ég er viss um að Valdís er með ykkur þó þið sjáið hana ekki.
Kærar kveðjur til ykkar á Sólvöllum

Svar: Hún er sjálfsagt ekki langt í burtu.
Gudjon

2013-04-20 @ 21:40:20
Björkin.

Mikið takið þið ykkur vel út í annasömum verkum dagsins.Gangi ykkur vel mín kæru..Stórt krammmmmmmmm eins og systir kvaddi alltaf litlu systur.Góða nótt.

Svar: Góða nótt
Gudjon

2013-04-20 @ 22:03:55
Auja

Hlakka til að sjá ykkur á morgun, duglega fólk

Svar: Takk sömuleiðis.
Gudjon

2013-04-20 @ 22:07:48


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0