Jólabaksturinn

Ég bakaði þrettán fernur af rúgbrauði á sunnudaginn var og svo hringdi einhver. Ég gaf einhverja skýrslu um það hvað ég hefði fyrir stafni og sagði að ég hefði verðið búinn að setja þetta í ofn um hálf tíu um morguninn og þar með væri jólabakstri mínum lokið. Bæði gaman og alvara.
 
Meðan ég var að bardúsa í brauðinu datt mér í hug þessi 6 ára stúlka sem heitir Katrín. Ég vissi að henni þætti rúgbrauð gott og þess vegna var ég búinn að gefa fjölskyldu hennar eina tvo brauðhleifa. Svo var ís eftir matinn á sunnudagskvöldi heima hjá henni og þá sagði sú litla að hún vildi frekar rúgbrauð. Svo borðaði hún mikið rúgbrauð frá kallinum á Sólvöllum í staðinn fyrir ís. Og Sólvallakallnum þótti heldur betur gaman að frátta af því að hún kunni að meta brauðið frá honum.
 
Hins vegar fékk ég heimsókn af fyrrverandi vinnufélaga í gær. Ég bauð honum upp á kaffi og auðvitað nýbakað rúgbrauð. Svo horfði ég á hann fá sér fyrsta bitann af brauðinu og svo sagði hann að þetta væri allt  lagi. Hrifning hans var augljóslega minni en Katrínar. Það gladdi mig ekkert en mér var líka alveg sama.
 
Þegar hann Hannes dóttursonur minn hljóp eins hratt og hann gat á móti mér á járnbrautarstöðinni í Stokkhólmi og kataði sér í fang mér, þá gladdi hann mig sannarlega. Þegar hann spurði foreldra sína þegar hann vaknaði morgun einn hvort afi væri kominn, þá gladdi mig líka að heyra það og þá hefði ég auðvitað helst viljað vera kominn. En það var enginn afi kominn.
 
*          *         *
 
Ég var á jólahlaðborði með Vornesstarfsliði fyrr í kvöld. Mikill var maturinn þar og margar sortir. Ég komst einu sinni ekki yfir allar síldar- og fisksortirnar og komst því aldrei að kjötréttunum en ég fékk nóg samt. Það er liðin tíð að ég borði yfir mig en það er auðvelt að gera það á svona kvöldum. Svo var úr gríðarlega mörgu góðgætinu að velja með kaffinu á eftir. Ég fékk mér svo mikið sem ég þorði og þótti gott. Svo fór ég mettur og ánægður heim. Þegar ég nálgaðist Sólvelli var ég farinn að hugsa um að það yrði gott að borða eins og einn ís þegar ég kæmi heim -eða vænan súkkulaðibita. Það er hægt að detta í það á margan hátt en það varð hvorki ís eða súkkulaði þegar heim kom þannig að ég datt ekki í það.
 
Þarna erum við tveir ellilífeyrisþegar sem erum búnir að vinna lengi saman, eða eins og hátt í átján ár. Sá til vinstri heitir Ingimar og er ársmódel 1943 og er gamall friðargæslumaður hjá Sameinuðu þjóðunum og gamall fallhlífahermaður. Í dag er hann svo lofthræddur að hann getur helst ekki stillt af loftnetsgreiðu uppi á húsþaki einbýlishúss. Ég mundi ekki segja frá þessu nema af því að honum finnst þetta sjálfum svo hlægilegt og konunni hans finnst það ennþá hlægilegra. Ég til hægri er ársmódel 1942 eins og gömlu Villis jepparnir ef ég man rétt. Ég hef aldrei hoppað í fallhlíf en ég hef ferðast með svifflugu og loftbelg og tel mig öruggari á þeim miðum. Mig hefur langað í fallhlífarstökkið en aldrei orðið af eða kannski ekki þorað. Ég held að ég sé bestur á jörðu niðri en ég get líka unnið upp á þaki.
 
Ég get ímyndað mér að það hafi verið yfir hundrað manns við jólaborðið, fólk frá ýmsum fyrirtækjum, en ég var einn með bindi. Ég reiknaði líka með því og gerði þetta svolítið af ögrun. Vinnufélögum mínum þótti það býsna broslegt að sjá elsta starfsmann Vorness koma með jólasveinabindi. Ég var líka á tónleikum um daginn og ég giska á að þar hafi verið um eða yfir þúsund manns og ég var einn með bindi. Ég var líka með það nokkuð á hreinu þegar ég setti upp bindið að svo yrði það.
 
Það eru breyttir tímar og kannski ekki ástæða til að streitast á móti. Hins vegar er mér stundum spurn hvers vegna þessir breyttu tímar færi ekki fleira gott með sér en raun ber vitni. Margt hefur orðið betra en virðing fyrir góðum siðum og verðmætamat hafa kannski ekki þróast til jafns við margt annað og að hrifsa til sín virðist oft meira metið en hið fagra í tilverunni. Ég ætla ekki að velta mér upp úr því en ég veit að þróunin fram á við eykur möguleikana á að láta gott af sér leiða. Það verður nú ofan á að lokum. Bindi skipta ekki öllu máli í þessu sambandi.
 
Nú gæti ég alveg þegið ís.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0