Lífið myndar ekki rökrétt mynstur

Um hádegi í dag, gamlársdag, fór ég inn í Marieberg til að kaupa vænan norskan lax í kvöldmatinn -hátíðamatinn. Þegar ég var kominn svo sem hálfa leið mundi ég eftir því að ég hafði ekki slökkt á kertinu sem logaði við stóru myndina af Valdísi en ég treysti því bara að einhver mundi gæta ljóssins. Þegar ég var kominn langleiðina mundi ég eftir þvi að ég hafði ekki tekið með tossalistann með þeim sex atriðum sem ég ætlaði að kaupa. Hvernig fer nú þessi ferð hugsaði ég. Svo fór ég inn í kaupfélagið og tíndi saman þessi sex atriði eins og ekkert hefði í skorist. Síðan bætti ég við fáeinum atriðum sem ekki voru á tossalistanum þó að ég segi oft að það sé dyggð að kaupa aldrei meira en það sem stendur á honum.
 
*          *          *
 
"Lífið myndar ekki rökrétt mynstur. Það er tilviljanakennt og fullt af dásemdum sem ég reyni að fanga þegar þær fljúga hjá því hver veit hvort nokkur þeirra kemur nokkru sinni aftur?"
Dame Margot Fonteyn (1919-1991)
 
Þegar ég las þessi orði í morgun á feisbókinni og líka í almanakinu Kyrrð dagsins hér heima, þá datt mér í hug ákveðið símtal frá í september 1993. Það var þegar Ingólfur Margeirsson hringdi norður til Hríseyjar og spurði mig hvort við mundum vilja flytja til Svíþjóðar og ég færi að vinna þar. Mér fannst það vitlausara en allt annað en fann samt hvernig eitthvað sagði innra með mér að þetta tilboð fengi ég bara einu sinni í lífinu. Mig langaði.
 
Svo kom Valdís innan ganginn og í átt að stofunni og þegar hún gekk framhjá mér þar sem ég sat við símann sagði ég hvað Ingólfur hefði talað um. Og þá sagði þessi norðlenska kona, ein KiddaVillasystranna; já, því ekki það. Dómurinn var kveðinn upp og tilboðið var þar með samþykkt. Stundum ganga hlutirnir hratt fyrir sig og þetta var algerlega í samræmi við vísdómsorðin hér fyrir ofan þó að dagurinn skipti ekki máli í því sambandi. Við fengum að reyna margt nýtt í framhaldi þessarar ákvörðunar og við tókum ástfóstri við þetta land, þá ekki síður Valdís.
 
Í öðru almanaki sem heitir Vegur til farsældar og mér var gefið í sumar stendur fyrir daginn í dag: "Ég stend á tímamótum, nýtt ár er að hefjast. Guð hjálpi mér til að vera góður, sanngjarn og vitur í öllum mínum gjörðum."
 
Ég að vísu bið um þetta á hverjum morgni ásamt því að ég nefni ákveðið fólk sem mér er annt um eða á bágt og bið því velfarnaðar. Auðvitað voru þessi orð sett á síðasta dag ársins af ásetningi býst ég við og þó að þessi hugsun sé mér ekki ný fannst mér gott að staldra við og horfa á línurnar og hugleiða þær. Nýtt ár er að byrja fyrir mér sem og öðrum og það byrjar öðruvísi hjá mér en öll önnur ár í meira en hálfa öld. Ég ætla mér að taka þessu nýja ári beinn í baki og í þeim anda sem standa í Vegi til farsældar.
 
 *          *          *
 
Hér hnaut ég inn á allt annað efni en það sem ég byrjaði á -og þó. En þegar ég var kominn langleiðina heim aftur eftir kaupfélagsferðina datt mér aftur í hug kertið sem logaði við stóru myndina. Svo í framhaldi af því datt mér í hug síðasta samtalið við Valdísi þegar hún hringdi heim af sjúkrahúsinu til að segja mér að hún hefði fengið óvænta heimsókn eftir símtalið þar á undan. Ég sagði þá við hana að hún ætti nú að fá að sofa með súrefnisgrímuna en ekki bara með slöngu upp að nefinu, hún ætti að nefna það við hjúkrunarfólkið. "Já pabbi" sagði hún og það eru næstum síðustu orðin sem hún talaði til mín. Undir morguninn fór hún heim til óþekkta landsins sem ekki sleppir fólki til baka aftur.
 
Síðan kom ég heim með pokann úr kaupfélaginu og djúpa sorg í hjarta mínu. Vindáttirnar breytast snöggt á þessum síðustu mánuðum.
 
Nótt eina fyrir meira en ári þegar ég lagði mig meira fram en nokkru sinni áður við að biðja fyrir heilsu Valdísar hafði ég flett upp á ákveðnum stað í Nýja testamentinu. Ég leitaði aðstoðar þar. Síðar þá sömu nótt, með lokuð augu, stakk ég nögl á þumalfingri hægri handar á Biblíuna og opnaði hana þar þar sem nöglin stakkst inn á milli síðna. Mér til undrunar og nokkurs kvíða sá ég að þar stóð meðal annars eftirfarandi og þýðingin frá sænsku er mín:
 
"Barnið mitt, láttu tárin renna þegar einhver hefur dáið, gráttu hávært vegna þíns mikla skaða. Sýndu hinni látnu þann heiður sem hún á rétt á og vertu ekki sparsamur með útför hennar."  -og síðar segir-  ". . . sorg í hjartanu brýtur niður styrk þinn."  -og enn segir-  "Láttu ekki sorgina fá vald yfir hjarta þínu, ýttu henni til hliðar . . . Gleymdu þessu ekki, því að það finnst engin leið til baka; þú hjálpar ekki hinum látna en skaðar sjálfan þig."
 
Ég reyni að lifa eftir þessum orðum úr Jesús Syraks vísdómsorðum sem komu svo óvænt til mín nótt eina á síðasta ári. Samt kemur sorgin óvænt eins og regn frá heiðskýrum himni en ég vil ekki láta hana gera sér bústað í hjarta mínu. Hún er þar samt en er ekki daglega lífið.
 
Mér ber skylda til að lifa áfram og ég er afi. Það er ekki allt of mikið til af öfum og ömmum og mér ber að gera mitt besta til að finnast fyrir þá sem vilja vera barnabörnin mín.
 
Mér sýnist að daginn hafi þegar lengt um svo sem þrettán mínútur og eftir nokkra daga byrjar birtan að verða áþreifanlegri. Ég vil vera maður birtunnar og taka þátt í vorkomunni með öllum þeim gleðiefnum sem hún býður upp á. Ég vil byrja að ganga um í skóginum í apríl til að þreifa á endum beykitrjánna til að fygljast með fæðingu fyrstu laufblaðanna. Ég vil ganga um með Hannesi hér í sveitinni og leita að broddgöltum, sniglum, maurum, ungum og nýgræðingi og rannsaka þetta allt með honum og ég vil lifa í nægjanlegri gleði til að geta gert það.
 
Ekki veit ég hvernig þetta hefur tekist hjá mér, en ætlunin var að þetta blogg væri gleðiboðskapur mitt í alvörunni. Ég þyrfti að geyma það hjá mér í nokkra daga til að yfirfara síðar. En þetta er skrifað nú á gamlárskvöldi og ég læt það út ganga nú þegar áður en nýtt ár gegnur í garð.


Kommentarer
Björkin

Tárin mín hafa streymt í kvöld .Átta mig alltaf meir meira á því hvað við höfum verið nánar systur.Vantar símtölin og fésbókarinnar hvað þá að fá að finna hennar góða faðmlags,sem var engu faðmlagi líkt
.Hvíl í friði mín elskuleg og við vinnum úr því með samhug og gleði yfir að hafa fengið að njóta hennar samveru.Guð veri með þér mágur minn,og gangi þér allt í haginn.Hugsum til þín...mikið Góða nóttttttttttt krammmmmmmmmm...

2013-12-31 @ 23:15:52
bj

Gott að tala við þig áðan......

Svar: Takk sömuleiðis.
Gudjon

2013-12-31 @ 23:16:44
Anonym

Áramót eru tíminn þar sem maður hugsar sérstaklega um liðið ár og finnur til í hjartanu ef maður hefur misst. En eins og þú segir heldur lífið áfram og við verðum að horfa bjartsýn fram á veginn og hugsa um það góða sem það færir okkur og gleðjast yfir því góða sem liðið er. Þannig er þetta bara.
Gleðilegt ár kæri Guðjón og takk fyrir öll góðu bloggin þín.
Bestu kveðjur,
Þórlaug

Svar: Já Þórlaug mín, þakka þér fyrir vináttuna sem þú sýnir mér oft. Það er eins og ég segi oft að það er til hellingur af svo góðu fólki í þessari veröld. Þegar við viljum einhverjum vel hér í Svíþjóð segjum við stundum "tack för att du finns". Og nú segi ég við þig Þórlaug "tack för att du finns". Með bestu kveðju til ykkar frá Guðjóni og innilegum óskum um gott nýtt ár.
Gudjon

2014-01-01 @ 02:57:37


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0