Þetta er aldeilis ótrúlegt

Í gær, laugardag, var ég mættur í Vornes skömmu fyrir hádegismat. Þegar ég er að vinna borða ég þar, þar sem mér finnst það sjálfsagður hlutur til að minnka matargerð mína hér heima handa mér einum. Þegar ég var að enda við hádegismatinn í gær og var að drekka kaffibolla í matsal starfsfólks, þá hringdi skæpið á fartölvunni sem ég hafði með mér. Það voru Páll bróðir minn og hún Guðrún mágkona mín sem ætluðu að skæpa við Sólvallabóndann. En allt í lagi, þau náðu til mín í Vornesi líka.
 
Þarna fór ég allt í einu að tala þar sem ég sat einn í matsal starfsfólksins og hún Lena í eldhúsinu varð vör við það. Ég held að henni hafi ekkert litist á blikuna ef ég væri að röfla þarna við sjálfan mig. En hún komst að því að ég var að tala við tölvuna og þá kom hún nær til að gá að því hvað væri eiginlega að gerast. Svo leit hún á tölvuskjáinn og sá þar fólk og hún sá líka að það fór saman hreyfing og tal. Þá sagði Lena: Aldeilis er þetta ótrúlegt. Lena er einhverju ári yngri en ég og hún á tölvu, en hún skæpar ekki. Nú er hún búin að sjá hvernig það gengur fyrir sig.
 
Nú var það svo að Páll bróðir minn og hún Guðrún mágkona mín komu í heimsókn til okkar Valdísar í Falun árið 1996, það er að segja þau sem töluðu við mig á skæp í gær. Við fórum þá í ferðalag niður til Örebro og austur um Södermanland með viðkomu í Vornesi. Þá var ég að vinna á fyrsta árinu mínu þar. Ég hafði talað um að við framáfólk í Vornesi að við mundum koma við þar og ég hafði lagt drög að því að við fengjum kaffi. Því var vel tekið og eldhúskonurnar bökuðu þykka og gómsæta eplaköku í tilefni af þessu. Svo komum við í Vornes samkvæmt áætlun og okkur var tekið eins og kóngum og drottningum.
 
Nú eru ár og dagar síðan, en ég tók upp á því í gær meðan við töluðum saman að ganga um með tölvuna þannig að þau gætu séð sig um í matsalnum þar sem þau höfðu komið fyrir svo löngu. Hér drukkuð þið kaffið sagði ég, og þá sögðust þau bæði þekkja borðið þar sem við höfðum setið og borðað svellþykka eplakökmuna með vanillusósu ofan á. Og hér gefur svo að sjá þetta borð.
 
Það er borðið þarna undir glugganum. Borðið er að vísu nýtt en uppstillingin er sú sama og stólarnir eru þeir sömu. Þessir stólar eru sannir stólar, smíðaðir til að endast. Í hitteðfyrra þegar þeir fylltu 50 ár voru þeir sendir til verksmiðjunnar sem framleiddi þá og þeir voru pússaðir upp og sprautaðir upp á nýtt. Í dag eru þeir sem nýir.
 
Þegar þau sáu þetta á skæp í gær, mágkona mín og bróðir, þá leyndi mágkona mín því ekki að hún gladdist yfir að sjá þetta aftur á þennan hátt. Við Kálfafellsbræður erum hins vegar ekki svo mikið fyrir að tjá snögg tilfinningaviðbrögð að við tókum því nokkuð með ró að gleðjast með mágkonu minni sem er ættuð úr Dölunum. En við glöddumst nú samt.
 
*          *          *
 
Hér snúast hlutirnir svo um nokkuð allt annað. Hér eru fjórar myndir frá höfuðstöðvum Mammons í Marieberg.

Ég kom þarna við á leið heim úr vinnu á annan í jólum. Og hvað haldið þið; jólaútsölurnar voru hafnar og margir vildu sökkva upp í stóru ausunni. Margir virtust líka bara vera að skemmta sér og í Galleríunni í Marieberg eru á annað hundrað verslanir og margir veitingastaðir. Allir veitingastaðirnir voru fullir af fólki, svo fullir að Sólvallakallinn hætti við að fá sér kaffi þar og fór þess í staðinn heim og bakaði sér pönnukökur.
 
 
 
Margir sem hafa komið til okkar þekkja bílastæðin í Marieberg. Þetta er til suðausturs frá Galleríunni.
 
Þetta er til suðvesturs.
 
Og þetta er til norðurs móti Bauhaus. Bauhaus hefur sitt bílastæði sem ekki sést á þessari mynd. Ég hef nú aldrei séð aðra eins ös þarna enda er ég bara lítill kall. Áður en ég fór heim í pönnukökugerðina keypti ég mér tvo lítra af mjólk og rjómapela. Svo var ég ánægður með innkaupin mín þann daginn.
 
Þess má geta að margir koma langa vegu að til að versla í Marieberg. Þar er ekki bara þessi stóra gallería, heldur mörg önnur stórverslunarhús. Þar er hægt að tæma hin stærstu peningaveski, safna skuldum á mikið af kortum og kaupa endalausa hamingju.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0