Eitthvað var svo nærri og ég rétti út hendina

Að færa eldivið úr illa vörðum haug og inn í skýli eins og ég hef gert í dag, raða honum upp, strjúka kubbana öðru hvoru þannig að það fari betur um þá, það var hljóðlátt verk. Vestan golan hjalaði kringum mig og skógurinn sendi mér lágraddað suð frá vindinum og rökkrið settist að. Þessar aðstæður sköpuðu kyrrð í huga mér, kyrrð sem þó ólgaði af hljóðlátum myndum, orðum og atburðum sem birtu enn aðrar myndir, önnur orð og aðra atburði. Þannig leið síðdegið frá daufri dagsbirtu inn í skammdegismyrkrið. Tíminn var allt frá því að vera ljúfur og ríkur til þess að vera ljúfsár og tregablandinn.
 
Eitthvað var svo nærri og ég rétti úr hendina en það var ekkert sem tók á móti. Vinnuljósið lýsti fyrir aftan mig og ég sá skuggann af höfði mínu og herðum á viðarstæðunni fyrir framan mig og skugginn af handarhreyfingum mínumm dansaði eftir endunum á birkikubbunum, greni, aski, ösp og á nokkrum seljuendum einnig. Svo voru hjólbörurnar tómar einu sinni enn og ég fór til baka að haugnum til að sækja einar til. Ég var ekki alveg nærstaddur, heldur einhvers staðar í leit að nærveru, var eins og maður sem heldur að hann sé vakandi þó að hann sé sofandi inn í draumalandinu.
 
Einmitt þegar ég var að beygja með hjólbörurnar að haugnum flakkaði ljós við hlið mér. Guðjón! Guðjón! hefurðu séð langahærðan svartan kött? Það var kona úr einu af húsunum hér á svæðinu sem var úti með vasaljós og leitaði að kettinum sínum sem hvarf á laugardaginn var, fyrir þremur sólarhringum.
 
Ég vaknaði til einhverrar tilveru sem augnabliki áður var víðs fjarri. Köttur! Mér fellur ekki við ketti sem fá að éta heima hjá sér og fara svo út til að drepa fuglana mína. Ég á að vísu ekki fuglana en hver getur átt kött frekar en ég fugla. En, nei, ég hafði ekki séð neinn kött nýlega, sem satt var, ekki einu sinni köttinn sem ég hef lengi haft grunaðan um að fæla frá mér fasanan sem virðist vilja setjast að hjá mér á hverju vori. Hugleiðingar mínar trufluðust, það var eins og eitthvað hefði brotnað og það snerist um kött.
 
*
 
Það má segja að vísa sem hann Björn skólabróðir minn í árgangi 1959 birti á feisbókinni og ég sá í morgun hafi verið hluti af því að gefa tóninn í dag. Hann sér bæði söknuðinn og bjarta hugsun í sömu vísu. Það er best þannig.
 
                                                Söknuður mikill nú sækir að mér
                                                magnar það sár í döpru hjarta.
                                                Minning um ást í örmum þér
                                                enga veit ég hugsun jafn bjarta.
 
Við á þessum aldri búum við breyttar aðstæður sum hver, og á vissum stundum hvarflar hugurinn inn á farvegi tregans. Á örðum stundum inn á ljósari brautir minninganna og stundum er hugurinn einfaldlega bundinn við daginn í dag, stundina sem er að líða. Og stundum verð ég ungur í anda, reyndar býsna oft, og flýg á vængjum bjartra framtíðardrauma. Þá er ég ekki sjötíu og eins og hálfs árs, nei, þá hef ég engan aldur og þá hlýt ég að vera ungur. Það er nú lang best að vera þetta allt saman, þá er lífið í réttu formi.
 
Þegar kattarómyndin vakti mig úr hugleiðingum mínum í dag hætti ég við að setja í hjólbörurnar, gekk inn og ætlaði að fá mér kaffi. En í staðinn settist ég við tölvuna og skrifaði fram að vísunni hans Björns. Að því búnu gekk ég út á ný og hélt áfram bauki mínu með viðinn. Mér fannst lífið gott og ég valdi líka að halda mig þeim meginn og ég hlakkaði til að fara sæmilega tímanlega inn og útbúa mér mat. Ég prufaði nokkuð nýtt í matargerð minni í dag og það nýja sem ég prufaði var bragðsterkara en ég átti von á. Samt var maðurinn góður enda var það mín matargerð.
 
Nú er ég búinn að gera það sem ég hef ekki gert lengi, ég er búinn að hita mér kaffi síðla kvölds og nú verður kvöldkaffi og konfektmoli sem ég hef fengið sendan frá Íslandi. Jólakonfekt.


Kommentarer
Dísa gamli granni

Það er svolítið grunnt á tárunum við lestur þessarar hugleiðingar. Þú velur altaf góða kostinn Guðjón og það er vel.

Svar: Þakka þér fyrir Dísa mín og góðar kveðjur til ykkar gömlu grannanna.
Gudjon

2013-12-18 @ 21:17:31
Björkin

Fallegt ljóð og kemur mikið við mitt viðkvæma hjarta.Mikill söknuður sækjir á mann,sérstaklega á þessum dimmu dögum .Og jólaföstunni .Þú ert svo duglegur mágur minn.Líði þér vel.Þakka þér fyrir fallegu orðin þín í bréfinu og engilinn hann verður minn vermdargripur.KRAMMMMMMMMM

Svar: Takk sömuleiðis mágkona.
Gudjon

2013-12-19 @ 13:01:24


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0