Kannast nokkur við þetta?

Fyrir mörgum árum, ég geri mér ekki grein fyrir hvort það voru síðustu árin okkar Valdísar á Íslandi eða á fyrstu árum okkar hér í Svíþjóð, að við horfðum á mynd í sjónvarpi, mynd sem ég hef aldrei getað gleymt. Ég hef líka notfært mér þessa mynd mikið og ég kem að því síðar.
 
Eins og ég man myndina þá nefni ég hér fáein brot úr henni:
 
Fólk vann við hjálparstörf suður í Afríku, í stóru hvítu tjaldi að því er mig minnir. Þar var miðaldra læknir, miðaldra eða rúmlega það, og nokkuð yngri kona sem líklega var hjúkrunarkona við þetta hjálparstarf. Það varð samband milli þessara tveggja, fallegt samband sem ekki hafði neinar viltar senur sem hafðar voru til sýnis á tjaldinu. Smám saman byrjaði læknirinn að hafa áhyggjur af þessu sambandi, hann fékk samviskubit og hvers vegna man ég ekki, en ég trúi að það var aldursmunurinn sem það fjallaði um.
 
Samviskubitið varð honum að lokum ofviða og morgun einn kom hann ekki til vinnunnar í tjaldinu. Konan fékk af þessu þungar áhyggjur en vonaði að læknirinn kæmi til baka. Dögum og vikum saman beið hún en hann kom ekki. Hún hugleiddi samtöl þeirra og reyndi að komast að einhverju sem gæti hjálpað henni við að finna manninn. Hann hafði talað um klaustur nokkuð norður í Evrópu, í frönsku ölpunum hef ég sagt, og hjá þessu klaustri var hús nokkuð sem var sérstaklega gert fyrir íhugun og athuganir.
 
Að lokum gafst konan upp á biðinni, lagði land undir fót og hélt norður til Evrópu. Hún þreifaði sig áfram með þolinmæði og fyrirspurnum og að lokum stóð hún í brekku einni og horfði upp til gamals klausturs. Nærri þessu klaustri var líka minna hús sem hún horfði á og var hún nú viss um að hún væri kominn að þessum stað sem hann hafi talað um. Rólega gekk hún að húsinu og opnaði hljóðlega útihurðina sem var nærri einu horni þess.
 
Þegar hún sá inn sá hún að húsið var eitt herbergi og hún sá einnig hvar vinurinn sat við borð í gagnstæðu horni þessa herbergis. Þar sat hann innan um bækur, blöð og skriffæri. Þegar hann varð hennar var stóð hún enn í dyrunum og horfði inn til hans. Hann sneri sér í stólnum og horfði á móti. Um stund voru þau kyrr í þessum stellingum, en að lokum gekk hún hægt inn gólfið í átt til hans og stoppaði nálægt skrifborðinu. Hann reis upp og þau horfðust í augu án þess að segja orð.
 
Eftir að hafa staðið þannig um stund tóku þau hlýlega hvort utan um annað og föðmuðust fallega og lengi.
 
Hann læsti ekki fingrunum djúpt inn í rasskinnar hennar og hún sleit ekki af honum skyrtuna með krampakenndum hreyfingum, nei, þau héldu bara áfram að faðmast fallega og lengi. Þannig endaði myndin.
 
 
 
Þessi mynd hafði mikil áhrif á mig og ég sem sagt man hana enn svo mörgum árum seinna. Ég hef líka notað þessa lýsingu í lok ákveðins fyrirlestrar í tugi ef ekki hundruð skipta. Trúlega hef ég breytt söguþræðinum eitthvað með tímanum. Ég verð það hrærður í hvert einasta skipti sem ég segi frá þessu í fyrirlestrunum að ég þarf að passa mig að komast ekki við -stoppa stundum nokkur augnablik til að ráða við mig. Þessi fyrirlestur fjallar um samskipti kynjana, kannski undarlegt -en satt.
 
Sama fyrirlestur byrja ég með að lýsa hinu gagnstæða þar sem maður og kona hittast á bar. Síðan fara þau heim til hans og í þeirri mynd er klónum læst djúpt í rasskinnar, föt eru rifin og slengt í eldhúsvask, gólf sófa og yfir matardiska. Síðan hefjast grófar samfarir (ég kann ekki við að nota ljótara orðið) sem eiga sér stað á vaskabekknum, út um öll gólf og mottur og það er öskrað og urrað og hvæst. Og þannig er haldið áfram lengi lengi, lengur en nokkur möguleiki er á.
 
Á milli þessara lýsinga hef ég um fjörutíu mínútur til að tala um annað. Að tala um mannlegan þroska og það fallega.
 
En af hverju í ósköpunum er nú Guðjón frá Kálfafelli að skrifa þetta inn á bloggsíðuna sína. Jú, svarið er einfalt. Ég er að leita að þessari mynd og þá meina ég að sjálfsögðu fallegu myndina um fallegasta faðmlagið. Ég veit að það er til fólk sem er næstum sérfræðingar í gömlum myndum og ef einhver slíkur skyldi slysast til að lesa þetta, þá yrði ég glaður að heyra frá honum eða henni. Eða ef einhver les þetta sem veit um einhvern svona sérfræðing, að biðja hann þá að kíkja á þetta.
 
Að ég skrifa um fyrirlesturinn í þessu sambandi geri ég til að segja frá því hvers vegna mig langar að finna þessa mynd. Fólk verður afar hljótt undir þessum fyrirlestri og ósjaldan hefur fólk gengið fram til mín á eftir og spurt hvort ég geti ekki með nokkru móti munað hvað myndin heitir. Það eru frekar konur sem gera það.
 
Það er til mikið af fólki sem langar til að finna það fallega í lífinu.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0