Að vera vel að því kominn

Ég læt farsímann minn ekki pípa á mig klukkan fimm í fyrramálið og upp úr klukkan átta þegar það verður orðið nokkurn veginn bjart reikna ég með að liggja á bakinu í rúminu mínu með hnakkann á mjúka kantinum sem er við höfðagaflinn. Ég reikna líka með að draga ullarfeldinn alveg upp að höku, hafa handleggina undir ullinni og horfa svo upp í loftið og láta hugann reika um stund. Mér finnst góður dagur þurfa að byrja á þennan rólega hátt en þó gjarnan fyrir klukkan átta. Í fyrramálið vil ég hins vegar verðlauna mig svolítið fyrir smá vinnutörn sem ég er búinn að taka þátt í.
 
"Mér finnst góður dagur þurfa að byrja . . ." sagði ég. Dagurinn í dag byrjaði klukkan fimm. Það var í nokkuð góu lagi núna þar sem ég lagði mig fyrir klukkan hálf tíu í gærkvöldi. Á leiðinni í vinnuna hugsaði ég út í fyrirlesturinn sem ég átti að hafa klukkan tíu til ellefu. Ég nefnilega fann hann ekki í möppunum mínum. Við í starfsliðinu höfðum morgunfundinn okkar klukkan átta samkvæmt venju. Eftir hann fór ég upp á næstu hæð og lánaði samtalsherbergi tveggja ráðgjafa sem ekki voru í vinnu í dag. Annar þessara ráðgjafa er kona, móðir þrettán ára stúlku sem stillti sér framan við járnbrautarlest hér í nágrenninu fyrir níu mánuðum og endað þar líf sitt.
 
Síðan hefur móðirin ekki verið í vinnu og ég hef notað þetta samtalsherbergi mikið þegar ég hef verið að vinna, vinnusímann hennar og lyklakippuna einnig. En sem sagt, ég settist þarna niður í morgun og ætlaði að útbúa fyrirlesturinn þar sem minn gamli var horfinn. Svo byrjaði ég að hugsa málið og skrifa á blað. Eftir nokkrar mínútur heyrði ég lyftu koma upp á hæðina og örstuttu síðar heyrði ég fótatak nálgast fyrir aftan mig. Ég leit við og sá þá að móðirin var þar komin. Hún ætlaði að prufa að vera í Vornesi í dag. Hún settist á stól við endann á skrifborðinu, ég lagði pennann á borðið og svo varð ekki af meiri undirbúningi.
 
Móðirin leit mun betur út núna en þegar við frá Vornesi heimsóttum hana í haust. Við komum þrjú til hennar til að athuga hvort við gætum eitthvað létt henni lífið og varð ekki mikið ágengt. Atburðurinn með þrettán ára stúlkuna hefur verið mikið ræddur í Svíþjóð alla mánuði síðan hann átti sér stað. Öfuguggi á miðjum aldri hafði náð sambandi við hana á fésbókinni og náði að þvinga hana til að sýna af sér myndir á netinu og hún orkaði ekki lengur. Hún stillti sér þess vegna fyrir framan lestina til að flýta ferðinni heim. Móðirin sem sat við endann á skrifborðinu deildi sorg sinni og sumar aðrar sorgir urðu bara litlar.
 
Það var komið að óundirbúna fyrirlestrinum og þá var ég beðinn að taka pólitískan fulltrúa frá austurströndinni með mér þar sem hún ætti að hlusta. Þannig er það stundum að þegar síst skyldi að þá þurfa einmitt svona hlutir að ske. Svo gengum við út í fyrirlestrarsalinn, pólitíski fulltrúinn og ég. Ég byrjaði á að skrifa nafnið mitt á töfluna með íslensku bókstöfunum og svo heilsaði ég. Ég var enn undir áhrifum samtalsins við móðurina, horfði yfir hópinn og hugsaði á þá leið að fyrir framan mig væru 23 alkohólistar og fíkniefnaneytendur sem höfðu margt á samviskunni, svo mikið að þau stóðu ekki undir því lengur og því voru þau komin til Vornes.
 
Ég vissi að flest þeirra sögðu frá því mesta af því versta sem hafði skeð í lífi þeirra og þau gerðu það til að létta byrðarnar. Öfugugginn neitaði öllu og ég reikna frekar með því að honum líði líka afar illa. En hann vill ekki segja sannleikann og heil þjóð getur ekki fyrirgefið honum. Það finnast margir ljótir hlutir í þessum heimi sem annars getur verið svo ótrúlega fallegur. Af hverju tekst okkur ekki betur? Svo hélt ég fyrirlesturinn og hann gekk lýsandi vel. Ég bað líka um það í morgunbæninni minni að mér mætti ganga vel í vinnunni í dag.
 
Síðar í dag hlustaði ég ásamt átta manna grúppu sjúklinga á ágrip úr ævi ungrar konu sem talaði af miklum heiðarleika. Ég hef hlustað á mörg ágrip af þessu tagi en í dag var það með því þyngra sem ég hef heyrt. Síðan reyndum við öll að stappa stálinu í þessa ungu konu og óska henni velfarnaðar. Dagurinn í dag var þungur dagur.
 
En í skammdegismyrkrinu greindi ég ljós þrátt fyrir allt. Ég finn að ég virka ennþá vel í þeirri vinnu sem er eina vinnan sem mér finnst mér hafa tekist vel upp með á æviferli mínum. Og ekki nóg með það; ég finn að ennþá er ég að taka framförum, kallinn á áttræðis aldri. Mér var sagt þegar ég var að leggja af stað heim að það yrði hringt fljótlega til mín aftur til að fá mig í vinnu. Ég mun alls ekki skorast undan því. Geti ég stuðlað eitthvað að því að eins árs dóttirin sem var tekin frá mömmunni nýlega geti fengið mömmu sína heilbrigða til baka, þá vil ég vera með um það. Geti foreldrar tvítuga mannsins fengið hann heilbrigðan heim fyrir jól, þá vil ég vera með um það líka. Þá verður heimurinn fallegri.
 
Ég er búinn að hreinsa úr hálfu granatepli og nú ætla ég að hræra því út í jógúrt og pínu rjóma. Svo ætla ég að haf það svolítið notalegt áður en ég fer að bursta og pissa. Mér finnst að ég sé venju fremur vel að því kominn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0