Svo fullkomlega óvæntur gestur

Um átta leytið í morgun var ég á hreyfingu hér heima, skrifaði aðeins á tölvuna, kveikti upp í kamínunni, leit á fáeinar fyrirsagnir og lagði mig aftur til að hugsa málin. Svo allt í einu þaut ég upp, fór í nærbol og hringdi í Anders smið til að fá hjálp hans við að ná í ákveðinn blikksmið. Ekki gekk það þannig að ég ætlaði að senda Anders sms til að fá frekari aðstoð. Þá hringdi dyrabjallan.
 
Ég leit niður á nærbuxurnar mínar og hugsaði að ég léti mig hafa það, gekk fram í forstofu og leit út um glugga við hliðina á útihurðinni. Þegar ég sá gestinn opnaði ég þó að á nærbuxunum væri. Við heilsuðumst mjög glaðlega þó að við föðmuðumst ekki beinlínis og ég fann fyrir gleðistreng í brjóstinu yfir þessari mjög svo óvæntu heimsókn. Allar heimsóknir til mín eru góðar en sumar eru óneitanlega dýrmætari en aðrar. Þegar ég talaði um það að mér líkaði vel að vera svona til fara á morgnana þegar ég gæt látið það eftir mér sagði gesturinn hlæjandi að hann gerði nákvæmlega það sama. Hann sagðist líka taka hljóðið af sjónvarpinu þegar hann lítur á textavarpið þannig að við virðumst eiga eitt og annað sameiginlegt.
 
 
 
 
Það var við þennan mann sem Valdís sagði seint á síðasta ári: Nisse, viltu jarða mig? Og hann gerði það.
 
 
Það var Nisse sem hringdi dyrabjöllunni í morgun og ég vogaði opna fyrir honum þó að ég væri á nærbuxunum. Hann vildi vita hvernig mér gengi, hvernig ég stæði mig við nýjar aðstæður, hvernig ég liti út og hvernig það liti út í kringum mig. Svo settist þessi vinalegi maður við matarborðið og ég klæddi mig. Meðan kaffið varð til í kaffivélinni sauð ég hafragrautinn minn með öllu tilheyrandi, rúsínum og apríkósum og svo hrærði ég einni matskeið af hvönn saman við. Ég sleppti bananum í þetta skiptið þar sem hann var í poka niður í kjallara.
 
Þá var líka kaffið tilbúið og ég skar niður rúgbrauð og setti á borðið ásamt smjöri og osti. Smjörið var ærlegt kúasmjör sem ég skar í ögn minni bita svo að það yrði fljótt mýkra. Svo byrjuðum við báðir að borða, Nisse rúgbrauðið og ég hafragrautinn. Báðir notuðum við rjóma, hann í kaffið og ég út í mjólkina á grautinn. Borðhaldið var eins óþvingað borðhald og það getur best orðið og umræðurnar fullkomlega ekta. Ekki hversdagslegar en fullkomlega ekta.
 
Við töluðum um sorg og við töluðum um vináttu. Nisse er vinur. Hann gerir hlutina einfalda og hann er kannski álíka gamaldags og ég. Hann leit út í skóginn þegar ég sagði að mig langaði að eignast skóg út fyrir minn skóg til að geta séð til þess að Sólvallaskógurinn yrði gamall skógur. Gamall skógur eftir hundrað ár með umgjörð sem enginn annar fengi að snerta. Þá brosti hann við og sagðist hafa verið að kaupa skóg til að vernda hann frá því að verða felldur, bara til að þeir fimm hektarar sem hann keypti gæti orðið gamall skógur sem enginn fengi að snerta.
 
Hann sagði mér frá gömlum skógarlundi sem var svo fallega blandaður og óx á mýrlendi. Svo komu menn og felldu skóginn. Nisse spurði þá hvort það hefði verið svo nauðsynlegt að fella þennan skóg og þeir svöruðu því til að hann væri hættur að vaxa. Þeir mátu skóginn sem sagt aðeins til peninga. Það sem við Nisse vorum að tala um voru allt önnur verðmæti. Það voru verðmæti sem eru mikils metin af þeim sem sjá ekki hamingju lífsins einungis í peningum, heldur í þeim verðmætum sem dyggðir, gott hugarfar og tryggar sálir meta að verðleikum.
 
Gamlar bjarkir með skegg upp eftir allri krónunni eða gamalt greni sem hefur safnað mosaþekju á kroppinn sinn, það eru tré sem eru verðmætust í skóginum þar sem þau standa. Það eru tré með sál. Þegar þau eru felld geta þau vissulega orðið að verðmætu byggingarefni eða dagblaðapappír sem hafnar í ruslatunnunni sama dag og blöðin eru gefin út. En þau eru fyrst og fremst felld til að skapa einhverjum peninga sem hugsanlega verða jú hluti af því að byggja upp til dæmis sjúkrahus, en líka til að verða að seðlum sem svo oft brenna upp algerlega til einskis.
 
Mikið er ég glaður að sjá að þú spjarar þig sagði Nisse. Ég hef svo oft hugsað til þín. Já, ég hafði líka oft hugsað til þessa milda manns og velt því fyrir mér að senda honum bréfstúff eða kort þar sem ég mundi þakka honum einu sinni enn fyrir hjálpina í apríl síðastliðnum. En nú var hann hér og við sýndum hvor öðrum hlýhug. Guðjón, sagði hann, það er svo mikivægt að lifa lífinu áfram. Þegar aðrir falla frá verðum við sem eftir lifum að skapa okkur nýjan farveg í lífinu og lifa því á okkar hátt, án þess að falla í eymd og kör. Og þá sagði ég honum að ég væri líklega nægjanlega hræddur við að enda lífið sem hokinn, skrýtinn, skítugur og gamall einsetukall að mér mundi líklega takast að bjarga mér frá því.
 
Og Nisse sagði að það væri mikilvægt að syrgja en ekki endalaust eða velta sér upp úr sorginni. Hún mun alltaf koma til baka augnablik og augnablik en við meigum ekki lifa þar. Hann þakkaði mér líka fyrir að ég bað hann að koma í Vornes þegar vissir sjúklingar þurftu á því að halda að hitta prest. Hann sagði það hafa verið ákveðna reynslu í lífi sínu. Það var vinna sem Nisse leysti af hendi með svo mikilli prýði og ég er ekki viss um að nokkrum öðrum hafi tekist jafn vel að fylla tómarúmið hjá fólki sem þurfti á styrk að halda. Ég man hvað ég var stoltur af honum í þau skipti sem ég fékk hann til að koma í Vornes.
 
Honum fannst rúgbrauðið svo gott með ekta kúasmjöri og osti. Ég gaf honum rúgbrauð sem hann ætlar að taka með sér til Uppsala í kvöld og svo ætlar hann að gefa Ingrid sinni að smakka eitthvað sem hún hefur aldrei smakkað áður. Mér urðu bara á ein mistök undir þessari heimsókn; ég gleymdi að bjóða honum meira kaffi. Samt bað hann þess að lokum að allt illt léti mig í friði þann tíma sem mér verður gefið að lifa hér á jörð. Honum fór vel að gera það.
 
Við litum út á Bjarg, á herbergið þar og baðherbergið sem ég er að vinna við. Svo leit Nisse út um vesturgluggann í átt að Kilsbergen. Síðan sagði hann að ég skyldi ekki hika við að vinna áfram að þessu og ganga frá öllu eins og ég vildi hafa það. Hann sagði það vera mikinn auð að eiga svona frábæran stað að koma heim til og búa á. Hann sagði það reyndar með svo góðum orðum að mér er algerlega ókleift að túlka þau eins og þau voru sögð.
 
Ég ætlaði að fara að vinna út á Bjargi en ég er nú einu sinni ellilífeyrisþegi og mér fannst ég geta látið að eftir mér að skrifa eitt blogg fyrst. Blogg um prestinn Nils-Erik Åberg. Ég vildi skrifa meðan mörg orðanna ennþá voru mér fersk í minni. Það sem ég hef hér eftir Nisse er auðvitað ekki orðrétt en nokkurn veginn það sem hann sagði. Ég ætlaði að laga myndina til og minnka það sem sést á henni utanverðri en svo hætti ég við það. Svona lítur út heima hjá mér í dag.
 
Þegar Nisse að lokum gekk suður lóðina að bílnum sínum var ég mikið hrærður maður. Ég var allt í senn, ríkur, hrærður, glaður og þakklátur. Heimurinn er oft fallegur líka. Þakka þér fyrir að vera sá sem þú ert Nisse.


Kommentarer
Dísa gamli granni

Mikið er hann svipfallegur þessi prestur og bloggið þitt einlægt og fallegt. Bestu kveðjur til þín.

2013-12-06 @ 01:00:49


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0