Sæll og glaður hélt ég svo heim á leið

Ég hef sagt frá því að ég verði ekki örlátur á jólakortin í ár, að ég ætli að nota netið þeim mun meira því að til einhvers er blogg, feisbók og allt þetta. En svo er til fólk sem ekki hefur aðgang að netinu og þess vegna sendi ég átta bréf til fólks á Íslandi. Í þeim er nokkuð sem ég kalla jólabréfið ásamt jólakorti sem er málað af fólki sem er handalaust og málar því ýmist með munni eða fótum. Ég vandaði vel til þessara fáu sendinga, braut saman snyrtilega, reyndi að skrifa nokkuð rétt og í sem beinustum línum. Síðan límdi ég bláa miðann á umslögin og setti þau í plastpoka.
 
Svo hélt ég í kaupfélagið í Marieberg til að kaupa matvörur og auðvitað frímerki á bréfin átta sem öll voru tvöföld að þyngd. Frímerkin keypti ég rétt innan við innganginn í kaupfélagið, setti þau í jakkavasa minn og hélt svo áfram að matvælunum. Að lokum var ég tilbúinn þar og mér fannst mér liggja svolitið á að komast í ákveðinn póstkassa sem er aðeins norðan við miðbæinn í Örebro. Þegar þangað kom tók ég hrein og snotur bréfin upp úr plastpokanum og las á þau einu sinni enn til að vera viss um að ég hefði skrifað Ísland á þau öll. Svo lét ég þau falla niður í póstkassann.
 
Að því búnu hélt ég sæll og glaður heim á leið, ánægður með að vera búinn að koma vel fram við fólk sem var um og yfir nírætt og líka fólk sem hefur engan aðgang að internet. Þegar heim var komið gekk ég skipulega frá því sem ég hafði keypt og snerist kringum eitt og annað sem gera þurfti.
 
En allt í einu! Ég tók aldrei frímerkin upp úr jakkavasa mínum! Bréfin mín átta voru komin saman við þúsundir annarra bréfa sem fara á mikilli ferð landshornanna á milli á leið sinni til viðeigandi póstmiðstöðva og á þeim voru engin frímerki. Úff! þvílík hneisa!
 
Samstundis og sænska póstþjónustan opnaði í morgun var ég í sambandi við mann þar. Hann tók erindi mínu vel og skildi að mér þætti þetta leiðinlegt, alveg sérstaklega ef móttakendur yrðu látnir borga fyrir að taka við bréfum frá mér. Hann sagði að þau gætu komist í gegn þrátt fyrir allt, að móttakandi yrði látinn borga eða að þau lentu í einhverri gríðar stórri geymslu 1200 km norður í landi. Að móttakandi yrði látinn borga var mér næstum ofviða.
 
Þegar íslenska póstþjónustan opnaði hringdi ég þangað og vildi allt gera til að svona bréf yrðu stoppuð til að -sérstaklega aldraðir móttakendur- þyrftu ekki að leysa þau út. Þar svaraði mér kona sem fyrst virtist þykja sem ég væri einum og einfaldur. Svo fórum við bara að spjalla saman og að lokum sagði hún mér að ég væri líklega bara mannlegur og bréfin mundu líklegast komast til skila þrátt fyrir allt. Hún sagði mér líka að það væri ekki til í póstlegu samstarfi milli Íslands og Svíþjóðar að viðtakandi væri látinn borga. Sjúkk! hvað mér leið mikið betur.
 
Nú var mér farið að þykja verulega vænt um konuna á Íslandi. Þegar það kom svo fram að hún sæti norður á Akureyri í vetrarsnjó og fallegu veðri voru nánast komin jól hjá mér. Hún hafði aldrei komið til Hríseyjar en lofaði því að þangað skyldi hún koma að lokum. Að samtali okkar loknu hefði ég helst viljað taka aðeins utan um hana í kveðjuskyni.
 
Svona lítur jólaundirbúningurinn út á Sólvöllum í Krekklingesókn.


Kommentarer
Svanhvit

Þú ert nú hálfgerður jólasveininn Guðjón 🎅 vonandi kemst þetta til skila.

Svar: Jú Svanhvít, þetta komst til skila. Það er góður titill að geta kallast jólasveinn. Gangi ykkur allt i haginn.
Gudjon

2013-12-17 @ 07:24:04


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0