Boðberi hins góða

Ég fór allt of seint að sofa í fyrrakvöld og ég var alls ekki tilbúinn að fara í vinnuna þegar ég þurfti þess í gærmorgun. Svo fór ég. Ég segi í Vornesi að hvít lýgi sé líka lygi og sé ég spurður þar hvernig ég hafi það, þá get ég ekki logið því að ég sé alveg himinlifandi ef ég er það ekki. Sú regla var líka í gildi í gær. En ég gerði mitt besta og mér tókst fremur vel til þó að ég fyndi fyrir þreytunni allan daginn.
 
Í nott svaf ég í ráðgjafaherberginu á sjúkradeildinni og þar er býsna veikt fólk núna. Þau voru á rölti á klukkutíma fresti fram undir rmorgun og ég varð alltaf var við þau og ég átti von á að þau hringdu í mig sem þau gerðu þó ekki. Samt hvíldist ég ótrúlega vel. Klukkan sex fór ég á stúfana til að opna dyrnar sem ég læsti í gærkvöldi. Þegar ég kom frá ákveðnu húsi að aðalbyggingunni stóð Bensi þar á miðju hlaðinu og beið þess að ég opnaði. Hann langaði að komast að gömlu dagblöðunum þar sem engin blöð komu út í morgun.
 
Bensi er mikill gæðamaður á miðjum aldri og við hittumst fyrst fyrir þrettán árum. Síðan hittumst við fyrir fjórum árum og svo aftur nú. Ég hef í öll skiptin fundið gæðamanninn í honum. Hann er sem sagt ótrúlega góður kall, vill hjálpa, er kurteis og kemur ætíð fram við fólk á ljúfmannlegan hátt. Hann vill bara vel. En hann á við þann erfiðleika að etja að sjúkdómurinn alkohólismi tekur stundum völdin yfir skynsemi hans og þá geta átt sér stað hlutir sem eru utan hans getu að takast á við.
 
Þegar ég var búinn að sinna mínu um tíma gekk ég gegnum dagstofuna þar sem Bensi sat og las gömlu blöðin. Ég spurði hann hvort hann hefði komist að einhverju athyglisverðu og hann svaraði eitthvað á þá leið að það væri eins og hann fyndi bara vondar fréttir í gömlu blöðunum á þessum morgni. Hann sagði að það væri svo órtúleg mikil illska til í heiminum og margt fólk ylli alveg voðalegum þjáningum. Hann hafði verið að lesa fréttir um stríð þar sem olíutunnum er varpað niður úr þyrlum yfir saklausa íbúa og svo springju olíutunnurnar og gamlir naglar, stálboltar og járndrasl æddi gegnum kviðarhol fólks, gegnum brjóstkassa, eyðilegði andlit og bryti sundur fætur.
 
Þarna sat Bensi og nuddaði með vísifingri undir neðri vörinni og horfði í næsta vegg en samt horfði hann út í bláinn. Svo fara börn alveg í tætlur sagði hann. Ef allir mundu kynnast 12-spora kerfinu og tækist að lifa eftir því, þá mundi heimurinn líta öðru vísi út hélt hann áfram.
 
Já, þannig er það að 12-spora kerfið hvetur til heiðarleika, manngæsku og margs og margs sem prýða mundi góðan heim að lifa í. Ég sagði Bensa frá manni að nafni Morgan Scott Peck sem einmitt hefði skrifað um þetta og að hann hefði sagt að 12-spora kerfið gæti bjargað mannkyninu. Maður þessi var lærður geðlæknir og hafði meðal annars á höndum störf hjá bandaríska hernum. Hann skrifaði líka bækur. Bensa þótti þetta miklar fréttir, ég settist á sófagafl og við ræddum saman um stund.
 
Hversu mörgum væri ekki hægt að hjálpa með þeim kröftum og fjármunum sem beitt væri gegn fólki til að skaða það. Um stund vorum við Bensi í sitt hvorum heiminum. Hann sagði mér frá einhverju sem ég heyrði ekki en ég sá fyrir mér andlit sem hrópar til Guðs á hverjum degi til að komast frá sjúkdómnum sem Benski er að berjast við núna. Ég sá líka fyrir mér andlit sem hrópar bænir sínar til hins óþekkta vegna annars alvarlegs sjúkdóms og ég sá fyrir mér mann sem liggur á sjúkrahúsi og hefur verið rændur mættinum í hálfum líkama sínum.
 
Svo hittumst við Bensi aftur í þessari umræðu og urðum sammála um að okkur bæri að virkja það besta í okkur sjálfum. Þannig gætum við best hjálpað heiminum til að verða betri, með því að láta hið ósýnilega en góða vinna meðal fólksins í kringum okkur. Ég minntist mannsins sem á kvöldfundinum seint í gærkvöldi þakkaði mér fyrir að hafa komið að vinna því að ég hefði tekið eitthvað gott með mér sem hefði setst að í honum. Ég horfði á Bensa og sá í honum boðbera hins góða. Ég vona að honum takist vel til. Og ekki bara honum, heldur öllum hinum líka, en ég sá borðberann í honum svo ljóslifandi.
 
Allt í einu var heimurinn orðinn góður á margan hátt og fallegur líka. Við Bensi urðum betri menn af viðræðum okkar í morgun. Þannig er lífið. Það hefur verið fullt af vangaveltum hjá mér í dag, nokkuð tregablandið með köflum, en jákvætt. Þegar ég settist niður til að skrifa þetta bað ég Lay Low og Ragga Bjarna að syngja Þannig týnist tíminn. Þau gerðu það og ekki minna en þrisvar sinnum.
 
Nú líður að kvöldmat á Sólvöllum og svo ætla ég að sofa mjög lengi í nótt. Ég vil fara vel úthvíldur í Vornes til að vinna aðfaranótt sunnudags svo að ég verði ennþá betri boðberi hins góða.


Kommentarer
Börkin

Já Guðjón minn.Þú ert góður boðberi,það veit ég.Og ekki leyðinlegt að lesa bloggin þín.Letilíf hér í hundfúlu veðri .En allir hressir.Líði þér vel kæri mágur minn.Krammmmmmmmmm.

2013-12-27 @ 13:16:49
Börkin

Já Guðjón minn.Þú ert góður boðberi,það veit ég.Og ekki leyðinlegt að lesa bloggin þín.Letilíf hér í hundfúlu veðri .En allir hressir.Líði þér vel kæri mágur minn.Krammmmmmmmmm.

Svar: Þakka þér fyrir vingjarnlegheitin mágkona.
Gudjon

2013-12-27 @ 13:17:48


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0