Engin kyrrstaða á Sólvöllum

Það er engin kyrrstaða á Sólvöllum í dag. Núna milli sex og sjö að kvöldi blæs óvenju mikið -miðað við Sólvallavind alla vega. Það eiga að vera 19 til 20 metrar á sekúndu í hviðunum núna og það er alls ekki daglegt brauð. En svona getur það farið þegar veturnir eru hlýir. Þegar stormarnir voru í suður Svíþjóð um daginn, þá blés ekki svona mikið. En svo er hreyfing á fleiri sviðum. Ekki mundi framkvæmdafólk telja það til tíðinda en ég geri það. Það miðar áfram á Bjargi. Ekki mun ég geta farið í jólabaðið þar en fljótlega eftir að nýtt ár gengur í garð verður gestaherbergið þar boðlegt hvaða forseta sem er.
 
Svona leit út þar stuttu fyrir hádegi áður en ég tók til vegna heimsóknar sem ég átti von á seinni partinn. Ekki beinlínis þrifalegt með verkfæri út um allt og sparslryk liggjandi yfir öllu.
 
Svo komu þessir ungu menn á staðinn, nákvæmlega þeir sem ég átti von á. Röskir, vinalegir ungir menn, 25 og 26 ára. Það voru engar vöflur á þeim, þeir báru inn dúk og áhöld og annar þeirra lagði dúkinn á herbergisgólfið og byrjaði að mæla og skera til meðan hinn ryksugaði það sem ég hafði ryksugað áður en þeir komu. En vel skyldi vanda til verksins og þeir vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera.
 
Emil og Nicklas voru alveg til í eina mynd. Það var líka eins og þeir vissu að þeir fengju eitthvað á Sólvöllum. Ég held næstum að það sé orðinn nokkur hópur manna sem veit það að vinna á Sólvöllum þýðir að fá eitthvað sem er ekki alveg hefðbundið. Þegar dúkurinn var kominn á gólfið en hornin ósoðin komu þeir inn og fengu auðvitað rúgbrauð með smjöri og osti og það þótti þeim gott. Þeir vildu gjarnan koma síðar og vinna eitthvað meira og fá svona veitingar aftur. Svo fengu þeir sér saltkex með osti og persimónusultu. Þeir voru forvitnir varðandi þessa sultu þannig að ég sýndi þeim ávöxtinn og nú vita þeir að þessi ávöxtur er á boðstólum í verslunum. Sjálfur fann ég persimónur fyrst í verslun fyrir svo sem fimm til sex vikum.
 
Þeir spurðu hvort ég hefði bakað brauðið. Ó já. En gerðir þú sultuna? Ó já. Ég hefði líka getað látið þá alveg vera og látið þeim eftir að sötra hálf kalt kaffi úr hitabrúsa út í bíl eða sitjandi á rúmkantinum út á Bjargi. En mér finnst að samfélag okkar mannanna sé mikið betra ef við umgöngumst hvert annað vingjarnlega. Svo gerðum við í dag, ég og þessir strákar. Þeir vita að rúgbrauðið var mitt og sultan líka. Ég veit í staðinn að Emil á tvö börn og býr i Laddugårdsängen, Nicklas á eitt barn og býr í Kumla. Við höfðum allir svolítið gaman að þessum kynnum þó að þeir gætu verið barnabarnabörnin mín. Já, alveg rétt. Þeir spurðu mig líka hvað ég væri gamall.
 
Rúmum tveimur tímum eftir að þeir komu var þetta árangurinn. Ég var inni í bæ þegar þeir voru að bera tæki og tól út í bíl og svo allt í einu stóðu þeir utan við forstofuhurðina og horfðu bara á mig og sögðust vera búnir. Það var ekkert fararsnið á þeim þannig að ég spurðu hvort þeir vildu meira kaffi. Já takk! En þá nennti ég ekki að bera brauðið aftur á borð þannig að þeir fengu sinn hvorn brauðhleifinn með sér heim. Ég er ekkert að gera grín að þessum strákum. Þeir voru mjög duglegir og mjög vandvirkir og vissu greinilega að það yrði tekið vel á móti þeim. Þeir voru skemmtilega áhugasamir um myndir og fólk og tilurð mína í Svíþjóð. Ég tók líka vel á móti þeim og sem endurgjald fyrir það var það bara skemmtilegt og hressandi fyrir mig að fá þá hingað til að vinna þetta verk.
 
*          *          *
 
Svolítið fleira um Sólvelli. Um dimmumótin í gær fór ég út með myndavélina til að taka myndir af jólaljósunum mínum. Þessi jólaljós og skipulag þeirra er frá Valdísi komið. Serían sem er upp í þakskegginu yfir útihurðinni er um það bil 40 ára og átti áður heima í Sólvallagöru 3 í Hrísey.
 
 
 
 
 
Þannig lítur það út. Vindurinn sem ég talaði um í byrjun gnauðar ennþá en er líklega heldur farinn að ganga niður. Í kvöld ætla ég að sýsla svolítið við póst sem ég þarf að koma frá mér. Líklega verður það eitthvað í þá áttina líka á morgun og kannski aðeins vinna úti á Bjargi. Það er allt í góðu með kallinn á Sólvöllum.
 
Ps. Síðast og ekki síst; ég er boðinn í hangikjöt inn í Örebro annað  kvöld.


Kommentarer
Auja

Jólalegt hjá þér

Svar: Jááá Auður.
Gudjon

2013-12-12 @ 20:20:02
Björkin

Það er mikið fallegt og jólalegt hjá þér kæri mágur minn.Líði þér vel,og stórt krammmmmmmmmmm.

2013-12-12 @ 20:59:49
Þórlaug

Alltaf er jólahúsið á Sólvöllum jafn fallegt :-)
Kærar kveðjur,
Þórlaug

Svar: Já, þetta finnst mér líka Þórlaug.
Með bestu kveðju til ykkar.
Gudjon

2013-12-12 @ 22:14:34
Dísa gamli granni

Fallegar eru þessar myndir og vinalegar. Kveðjur í bæinn


Svar: Og kveðjur til baka.
Gudjon

2013-12-15 @ 01:52:19


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0